Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

26. október 2021

Varða kynnir rannsóknir um stöðu ungmenna

Niðurstöður tveggja rannsókna Vörðu – rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins, á stöðu ungmenna sem stunda hvorki nám né atvinnu verða kynntar á netfundi Vörðu næstkomandi miðvikudag.

Undanfarna áratugi hefur dregið úr atvinnuþátttöku ungmenna víðast hvar í aðildarríkum OECD og samhliða orðið fjölgun í hópi ungmenna sem stunda hvorki nám né atvinnu (e. not in employment, education or training, NEET). Samskonar þróun hefur átt sér stað á Íslandi og hefur Varða - rannsóknastofnun vinnumarkaðarins unnið tvær rannsóknir á þessum hópi.


Konur af erlendum uppruna búa við hindranir
Á netfundinum, sem hefst klukkan 12:30 miðvikudaginn 27. október, mun Adda Guðrún Gylfadóttir, rannsakandi hjá Vörðu, kynna niðurstöðu rannsóknanna og fjalla um úrbætur í málefnum ungmenna í þessari stöðu. Annars vegar er um að ræða greiningu á gögnum frá Hagstofu Íslands á umfangi og eðli NEET-hópsins sem var styrkt af Þróunarsjóði innflytjendamála. Hins vegar mun Adda Guðrún kynna niðurstöður eigindlegrar rannsóknar á stöðu ungra kvenna af erlendum uppruna sem eru utan vinnumarkaðar og skóla. Sú rannsókn var styrkt af Jafnréttissjóði Íslands.

Niðurstöður rannsóknar Vörðu sýna að fjöldi óvirkra ungmenna er nátengdur stöðunni á vinnumarkaði. Einnig hafa þættir eins og kyn, aldur, menntunarstig, félags- og efnahagsleg staða foreldra og fjölskyldugerð áhrif á hvort ungmenni eru líklegt til að tilheyra NEET-hópnum eða ekki. Rýnihópaviðtöl við konur af erlendum uppruna leiddi í ljós að þær búa við margþættar hindranir í íslensku samfélagi.

 

Fundurinn verður túlkaður
Fundurinn fer fram miðvikudaginn 27. október kl. 12:30 í gegnum Zoom og er öllum opinn. Boðið er upp á túlkun yfir á ensku og til að nýta hana þarf að smella á lítinn hnött sem birtist í stikunni neðst á skjánum og velja túlkun. Hægt er að velja „mute original sound“ til að heyra eingöngu í túlknum. Kristín Heba Gísladóttir, framkvæmdastjóri Vörðu verður fundarstjóri.

BSRB og ASÍ stofnuðu Vörðu - rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins í október 2019. Stofnunin hefur það að markmiði að efla rannsóknir á sviði vinnumarkaðar, félags- og efnahagsmála og er ætlað að bæta þekkingu á lífsskilyrðum launafólks og brúa bilið milli fræðasamfélagsins og verkalýðshreyfingarinnar og dýpka umræðuna um kaup og kjör.

Smellið hér til að taka þátt í fundi Vörðu.

Nánari upplýsingar má finna á Facebook-viðburði fundarins.

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)