Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

30. desember 2021

Horft um öxl

Rétt er líta aðeins yfir farinn veg hjá Sameyki stéttarfélagi í almannaþjónustu á þessu ári. Félagið kaus sér nýja stjórn, formann og varaformann á árinu og Árni Stefán Jónsson hætti sem formaður auk þess sem Garðar Hilmarsson, varaformaður Sameykis hætti störfum. Stytting vinnuvikunnar tók mikinn tíma og krafta. Faraldurinn setti strik í reikninginn og krafðist nýrrar nálgunar við félagsfólk. Miðlun upplýsinga var aukin, tímarit Sameykis kom út í nýjum búningi og áherslum og efni blaðsins breytt. Nú lítum við um öxl og stiklum á stóru yfir árið sem er nú senn á enda runnið.

 

COVID-19 faraldurinn
Faraldurinn setti mark sitt á allt félagsstarf hjá Sameyki á árinu en þó var fundað um alla landsbyggðina í gegnum fjarfundarbúnað. Sameyki kynnti fundarherferð þar sem farið var hringinn í kringum landið og ýmis málefni rædd. Fundarherferðinni lauk með nokkrum fundum á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. Meðal fundarefnis voru kjaramál og stytting vinnuvikunnar, fræðslumál og orlofsmál.

Skrifstofunni var lokað fyrir gangandi tvisvar á árinu vegna sóttvarnarreglna. Mikið álag var á launafólk í faraldrinum og ekki er bitið úr nálinni með hverjar afleiðingarnar verða fyrir félagsfólk Sameykis þegar um hægist vegna álagsins sem fylgir faraldrinum.

 

Ný stjórn, formaður og varaformaður Sameykis á árinu
Ný stjórn Sameykis var kosin í marsmánuði en strax í janúar var hafist handa við að hvetja félaga í Sameyki að bjóða sig fram til ábyrgðarstarfa fyrir félagið. Uppstillingarnefnd tók á móti framboðum og tillögum og stillti upp lista í stjórn sem kosið var um á fulltrúaráðsfundi og lagt í framhaldi fyrir aðalfund. Aðalfundurinn samþykkti uppstillingarlistann og Þórarinn Eyfjörð var á fundinum kosinn formaður Sameykis og Ingibjörg Sif Sigríðardóttir kosin varaformaður. Árni Stefán Jónsson og Garðar Hilmarsson sem gengdu embættum formanns og varaformanns létu af störfum sem slíkir en Árni Stefán starfar tímabundið áfram hjá Sameyki í ákveðnum verkefnum.

Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu varð tveggja ára 26. janúar. Þegar félögin tvö, SFR og Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar voru sameinuð í Sameyki sögðu formenn þeirra félaga að þeir litu bjartsýnum augum til framtíðar og þeirra tækifæra sem stærra og sterkara stéttarfélag mun gefa félagsmönnum sínum. Með stærra félagi væri það betur í stakk búið að mæta krefjandi verkefnum og sterkara í að standa vörð um réttindi og kjör félagsmanna og leitast við að auka þjónustuna.

Sagði Þórarinn í tilefni þess að vera orðinn formaður félagsins: „Samstaða, samvinna og hógværð en ekki ofsi mun vera leiðarljósið í launabaráttu launafólks á opinberum markaði. Mín bíður stórt hlutverk sem ég mun sinna af heilum hug.“

 

Stytting vinnuvikunnar tók gildi
Stytting vinnuvikunnar í dagvinnu tók gildi um áramótin 2021 og gekk verkefnið vel hjá sveitarfélögum og stofnunum ríkisins. Alls styttist vinnuvikan um fjórar klukkustundir hjá dagvinnufólki en enn meira hjá vaktavinnufólki eða allt niður í 32 klukkustundir á viku í sumum tilfellum. Sameyki fylgdist vel með hvernig innleiðingin gekk fyrir sig og í ljós kom að almenn ánægja var meðal félagsfólks með styttingu vinnuvikunnar, bæði samkvæmt könnunum félagsins og fjölmiðla. Í könnun Fréttablaðsins kom fram að 64 prósent ánægja var með styttingu vinnuvikunnar meðal opinberra starfsmanna.

Sameyki hélt fjögur námskeið í janúar undir heitinu Betri vinnutími í samstarfi við Starfsmennt fyrir starfsfólk í vaktavinnu. Þau voru auðvitað í gegnum fjarfundarbúnað sökum faraldursins. Þar var farið yfir helstu kerfisbreytingarnar sem fylgdu styttingunni. Ljóst er að þar er enn verk að vinna meðal opinberra starfsmanna í vaktavinnu þar sem það getur verið flóknara að innleiða styttingu vinnuvikunnar hjá sumum hópum. Unnið verður að því að leysa það.

Forseti Alþingis var ánægður með styttingu vinnuvikunnar á vinnustaðnum og sagði í fréttum RÚV að Alþingi verði fjölskylduvænni vinnustaður og sagði gott að menn sýndu kjark til að fara í þetta verkefni.

 

Trúnaðarmannafræðsla
Sameyki hóf að auglýsa eftir trúnaðarmönnum á vinnustöðum á góunni. Búnar voru til auglýsingar þar sem félagsfólk var hvatt til að taka þátt í því starfi. Hlutverk trúnaðarmanna á vinnustað er mikilvægt og voru vefnámskeiðin fjölmörg á vorönninni eða níu alls þar sem fræðst var um styttingu vinnuvikunnar, betri tímastjórn, árangursrík samskipti, samþættingu starfs og einkalífs, sköpunargleði og lausnarmiðaða hugsun, gagnrýna hugsun og siðferðisleg álitamál ofl.

Á fundum trúnaðarmannaráðs Sameykis voru að auki tekin til umfjöllunar ýmis önnur mál og erindi gesta á þeim. Eitt þeirra var erindi Árna Múla Jónassonar, lögfræðings með mannréttindi sem sérsvið, og framkvæmdastjóri Transparency International á Íslandi sem sagði að spilling á Íslandi væri ekkert nýtt af nálinni: „Smáspilling þekkist ekki hér á landi líkt og þekkist annarsstaðar í heiminum eins og að greiða laganna vörðum sektir framhjá stjórnvaldi. Stórspilling er annarskonar spilling þar sem æðstu valdhöfum er hyglað fyrir að greiða götu einkaaðila. Þetta er algengt í vanþróuðum löndum þar sem mútur eru þegnar og milljarðar greiddir spilltum stjórnmálamönnum og valdhöfum fyrir aðgang að auðlindum.“

 

Menntamál og fræðslumál Sameykis á árinu
Sameyki stóð að öflugri og virkri starfsþróun á árinu með fjölmörgum fræðslu- og menntunarnámskeiðum fyrir félagsmenns sína í samstarfi við Fræðslusetrið Starfsmennt og Framvegis miðstöð símenntunar. Mikilvægt er að geta þróað og hlúð að þeirri færni og þekkingu sem félagsfólk býr yfir. Hlutverk Sameykis á árinu var að gera félaga í Sameyki hæfari í starfi og auka starfsgleði, opna á fleiri tækifæri og hjálpa við að takast á við áskoranir í síbreytilegum heimi. Einnig að auka hæfni og frumkvæði, skapa nýja nálgun og opna fyrir möguleika svo að hugmyndir kvikni og félagsfólk finni hjá sér nýjar nálganir á viðfangsefnin.

Sameyki veitti styrki á árinu til símenntunar hjá þessum og fleiri menntastofnunum og áfram verður hvatt til þess að félagar í Sameyki efli sig og auki við þekkingu sína og hæfni í lífi og starfi.

 

Styrktarsjóðir Sameykis
Á árinu veitti Sameyki fjölmarga styrki úr sjóðum sínum til félagsmanna sinna auk styrkja til vinnustaða. Í kjarasamningum er samið um sjóði sem styrkirnir eru veittir úr og því byggir réttur félagsfólks til styrkja á þeim grunni. Veittir voru styrkir í milljónum talið í formi fræðslu- og starfsþróunarstyrkja, úr Styrktar- og sjúkrasjóði Sameykis, ásamt sjúkradagpeninga úr sama sjóði. Um er að ræða starfsmenntunarstyrki, starfsþróunarstyrki, styrki vegna vísindaverkefna, styrki úr Mannauðssjóði, úr Þróunar- og símenntunarsjóði og úr Fræðslusjóði.

Símenntunarsjóður lífeyrisdeildar Sameykis úthlutaði styrkjum úr sjóði sínum tvisvar á árinu en hann er ætlaður þeim sem skráðir eru í Lífeyrisdeild Sameykis og hlutverk hans er að hvetja félaga sína til þátttöku í námskeiðum og til náms.

 

Launamarkaðir og fjöldi opinberra starfsmanna
Formaður Sameykis gagnrýndi margsinnis í greinum sem birtust í fjölmiðlum, pistlum og í leiðaragrein í tímariti Sameykis orðræðu Samtaka atvinnulífsins sem hefur haldið því ranglega fram að fjöldi opinberra starfsmanna séu of margir. Auk þess hélt SA því fram að opinberir starfsmenn leiði launaþróunina í landinu. Það er á annan veg. Opinberir starfsmenn eru með 16,7 prósent lægri laun en launafólk á almenna markaðnum. Sagði Þórarinn síðast í grein sem birtist á Kjarnanum: „Árið 2016 tókst samkomulag milli ríkis, Reykjavíkurborgar og sveitarfélaga annars vegar og heildarsamtaka opinberra starfsmanna hins vegar um að jafna kjör, bæði hvað varðar launasetningu á starfsævinni og einnig hvað varðar lífeyrisréttindi. [...] Nú eru 6 ár liðin og ríkið og sveitarfélögin hafa dregið lappirnar við að leiðrétta áðurnefndan 16,7% meðaltals launamun, á meðan opinberir starfsmenn hafa staðið við sinn hluta að fullu – og Samtök atvinnulífsins halda áfram falsfréttum sínum um laun opinberra starfsmanna með stuðningi bæði ráðherra og helstu fjölmiðla landsins.“

Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu kallaði eftir því á árinu að gripið yrði til aðgerða til að leiðrétta laun kvennastétta sem vanmetin hafa verið um langt skeið. Sameyki krafðist þess að stjórnvöld hefðu frumkvæði að því að lögð verði áhersla á að aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld, byggðu upp þá þekkingu sem þyrfti til að endurmeta og leiðrétta vanmat kvennastarfa með upplýstri samningaleið.

Þórarinn Eyfjörð sagði um þetta málefni á RÚV að kynbundinn launamunur verður til við skrifborð stjórnenda: „Það er alltaf mikil vonbrigði að sjá að kynbundinn launamunur virðist ekki vera að breytast. Svo virðist sem kynbundinn launamunur sé menningar- og stjórnunarlega inngróið fyrirbæri. Kynbundni launamunurinn virðist vera bundinn inn í okkar launakerfi og fellst í viðhorfi til karla og viðhorfi til kvenna.“

 

Orlofsmál Sameykis
Orlofsblað Sameykis var viku á eftir áætlun inn um póstlúguna hjá félagsfólki. Þrátt fyrir það var metaðsókn í orlofshús Sameykis á árinu. Fjöldi umsókna þrefaldaðist fyrir sumarið frá því árinu áður en því miður komust færri að en vildu. Mikil uppbygging hefur átt sér stað í Munaðarnesi, ný orlofshús hafa verið byggð og önnur keypt af öðrum stéttarfélögum sem félagar í Sameyki nýttu sér. Áfram verður staðið að uppbyggingu orlofshúsa félagsins og samþykkt var að ráðast í að byggja ný orlofshús á orlofssvæðinu við Úlfljótsvatn. Þá er áætlað að endurbyggja bústaði sem félagið á á vesturlandi og austurlandi.

 

Samfélagsmál og Sameyki
Sameyki sendi frá sér ályktanir á árinu vegna ýmissa samfélagsmála sem brenna á almenningi; um tekjufall í kjölfar COVID-19, um spillingu á Íslandi, um virði starfa kvenna í samfélaginu og kynjahalla í því sambandi, um styttingu vinnuvikunnar og um umhverfismál – réttlát orkuskipti, og að lokum um auðlindir í þjóðareigu.

Í 1. maí ávarpi Þórarins Eyfjörð sagði hann eftirfarandi: „Í þjóðmálaumræðunni fer ekki fram hjá neinum hvernig auðlindum þjóðarinnar er misskipt. Það óréttlæti blasir við okkur á hverjum degi. Við eigum aldrei að sætta okkur við að fámennur forréttindahópur gleypi sameiginlegar eigur okkar. Auðlindir þjóðarinnar eru ekki ótæmandi og við verðum að huga að komandi kynslóðum. Við verðum að sýna ábyrgð og virðingu, og berjast fyrir réttlátari skiptingu auðsins sem við eigum öll, en ekki ein, heldur með börnum okkar og baráttufólki framtíðarinnar.“

Indriði H. Þorláksson skrifaði grein í tímarit Sameykis um náttúruauðlindir Íslands þar sem hann sagði: „Á hinn bóginn er yfirgnæfandi meirihluti landsmanna sem krefst virks eignarhalds á náttúruauðlindum þ.e. þess að þjóðin fái sjálf að ráðstafa þeim og að auðlindaarðurinn renni til borgaranna og samfélagsins en ekki í vasa fárra útvaldra. Átökin um auðlindamálin eru þannig ekki bara stjórnmálaleg og efnahagsleg. Þau er í grunninn spurning um lýðræði.“

Sameyki mótmælti einnig harðlega orðræðu um einkarekstur og útvistun hjá Strætó bs. á árinu. Þá gagnrýndi félagið harðlega uppsögn trúnaðarmanns hjá Icelandair. Einkavæðingu hjúkrunafélaga var mótmælt og sjónum beint að ríki og sveitarfélögum. Þá gagnrýndi Sameyki að ríkið fjársvelti hjúkrunarheimili aldraða og hafnaði með öllu þeirri aðferðafræði ríkisins að fjársvelta stofnanir og lauma þeim síðan í hendur hagnaðardrifinna einkaaðila.

 

Stjórnvöld skortir framtíðarsýn í húsnæðismálum
Þórarinn Eyfjörð sagði í grein á Kjarnanum undir lok þessa árs að ríkisstjórnin skorti framtíðarsýn í húsnæðismálum og bendir á að heildarsamtök opinberra starfsmanna hafi með frumkvæði sínu hafið þá nauðsynlegu uppbyggingu á húsnæði fyrir tekjulágt fólk. „Íslensk stjórnvöld hafa ekki markað sér stefnu til framtíðar varðandi húsnæði fyrir tekjulágt fólk á vinnumarkaði. Þess vegna brugðust samtök launafólks við og hófu mikla uppbyggingu á húsnæðismarkaði þar sem þörfin fyrir óhagnaðardrifin leigumarkað var aðkallandi. Bjarg íbúðafélag afhenti á haustmánuðum íbúð númer 500 og er með annan eins fjölda í undirbúningi á ýmsum byggingarstigum.“

Á árinu var lagður enn meiri kraftur í að móta áætlanir hins nýstofnaða íbúðafélags Blæs til að mæta auknum kröfum á húsnæðismarkaði og hafist var handa við að skipuleggja hlutverk þess til að koma á móts við þarfir launafólks út frá kaupmætti. Blær íbúðafélag áætlar að hefja mikla uppbyggingu húsnæðis fyrir launafólk og ef áætlanir standast muni það leiða til mikilla breytinga á íslenskum húsnæðismarkaði.


Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu óskar félagsfólki sínu um land allt gleðilegs árs með ósk um farsæld á komandi nýju ári 2022.


Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)