Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

16. janúar 2022

Formaður Sameykis í Vinnuskúrnum

Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis, var í viðtali í Vinnuskúrnum á Samstöðinni.

Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis, var í viðtali í Vinnuskúrnum sl. laugardagmorgunn á Samstöðinni sem er samtalsþáttur þar sem rætt er um verkalýðsmál og samfélagsmál. Vinnuskúrinn, í umsjón Gunnars Smára Egilssonar, fjölmiðla- og stjórnmálamanns, er nýr umræðuþáttur þar sem fólki sem starfar í verkalýðshreyfingunni og öðrum sem starfa á lýðræðisvettvangi er boðið til umræðna um ýmis mál sem eru í brennidepli í þjóðfélaginu hverju sinni, gjarnan fréttir vikunnar. Í upphafi hvers þáttar er viðtal við eitt af því fólki sem er í forystu fyrir sitt stéttarfélag eða bandalag. Þátturinn er á dagskrá á hverjum laugardegi frá klukkan 10-12. Í upphafi fyrsta þáttar sl. laugardag ræddi Gunnar Smári við Þórarinn Eyfjörð þar sem hann sagði frá bakgrunni sínum, störfum fyrir Sameyki og hvernig félagið er uppbyggt. Á eftir komu til að ræða fréttir vikunnar og stéttarfélagsmál Hjördís Þ. Sigurþórsdóttir, formaður AFLs á Austurlandi, Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.


Hrygglengja Sameykis er trúnaðamannastarfið
Þórarinn var spurður að því hvort Sameyki sé lokað félag og hvort fólkið á skrifstofunni eigi félagið, hvort það sé valdablokk á milli félaganna og skrifstofunnar. Hann var einnig spurður hvort eðlilegt væri eins og oft sést hjá stéttarfélögunum að skrifstofan stofnanavæðist með þeim hætti að hún verður sterkasta aflið innan félagsins. Að auki í því samhengi, hvort eðlilegt sé innan stéttarfélaganna að starfsfólk þeirra á skrifstofunum, gjarnan framkvæmdstjórinn, taki við formannsembættinu, svaraði Þórarinn.

„Þessi leið er ekkert endilega rétta leiðin, bara alls ekki. Það sem ég hef séð er að kúltúrinn eða menningin innan stéttarfélaganna er nokkuð ólík. Félögin eru ólík í grunninn á milli almenna og opinbera markaðarins og það virðist vera ekki eins mikil átakamenning innan opinbera geirans. Hvað varðar hvort framkvæmdastjórar eigi síðan að taka við sem formenn er ekkert endilega rétta leiðin eða eina leiðin. Það er ein leið af mörgum. Til þess að vernda lýðræðið þarf að vera kjör um formenn. Það er bara mín skoðun. Sú staða á ekki að vera eign neins. Hrygglengja Sameykis er trúnaðamannastarfið. Við erum með 320 trúnaðarmenn. Með þessum hópi fundum við að jafnaði einu sinni í mánuði eða með fulltrúaráði sem er skipað 120 fulltrúum úr þessum hópi. Á þessum vettvangi er fjallað um öll mál félagsins og allar meiriháttar ákvarðanir eru teknar þar. Stjórn félagsins er auðvitað mjög virk, þar verða miklar umræður og tekist á um hugmyndir og stefnur á þeim vettvangi. Við erum líka með innan félagsins fagfélög sem við reynum að rækta mjög vel þannig að þau séu líka inn í daglegu starfi þess. Þar koma þau með sínar hugmyndir og væntingar og áherslur. Félagið sjálft er mjög opið.“


Höfuðáherslan að vera í tengslum við félagsfólk
„Trúnaðarmannakerfið og allt okkar félagskerfi er okkur mjög mikilvægt. Ég get ekki séð hvernig við gætum sinnt starfi okkar ef ekki væri þessi beina tenging við starfsfólkið inn á stofnununum. Við fáum allar okkar upplýsingar um það sem er að gerast á vinnustöðunum í gegnum þetta kerfi okkar. Það er alveg rétt að starfsmenn á skrifstofunum í svona félögum er fagfólk. Hópurinn verður fagfólk í rekstri kjaramála, í rekstri skrifstofunnar og í þeirri þjónustu sem þau veita félögum sínum. Starfshópurinn á að hafa bestu þekkingu og bestu getu til að geta leyst úr málum á hverjum tíma. Við hjá Sameyki leggjum höfuðáherslu á að vera í sem bestum tengslum við félagsfólk okkar, við hvetjum það mjög til að vera í sambandi við okkur og við reynum að rækta hópana okkar,“ sagði formaður Sameykis.


Líflaust apparat án leiðsagnar félagsfólksins
Þáttastjórnandi sagði að dæmi séu um í sögu verkalýðsfélaga þar sem félagarnir hafa enga aðkomu að þeim nema mæta á fundi og klappa fyrir forystunni. Var Þórarinn spurður hvort hann sé í vinnu hjá trúnaðarráði og sinni því sem það vill ná fram, eða hvort hann sé leiðtogi félagsins sem hefur forystu um það hver stefna þess á að vera og legði þær hugmyndir fram í trúnaðarráðinu sem veitir þá samþykki til að halda þeim hugmyndum áfram?

„Þetta er eiginlega sambland af hvoru tveggja. Aðal krafturinn sem hefur verið í þeim störfum sem ég hef gengt hverju sinni er hugmyndavinna. Það er ekki til ein einasta hugmynd sem ekki má bæta, og það hefur alltaf verið mitt mottó. Hvaðan sem hugmyndirnar koma, hvort þær koma frá trúnaðarráði, einstökum félögum eða stjórn sem hafa greiðan aðgang að mér og öllum starfmönnunum hérna. Við förum í greiningarvinnu á þeim verkefnum sem hóparnir vilja sjá unnin o.sv.frv. Einnig verða til hugmyndir úr öðrum verkefnum sem við erum að vinna, frá öðrum stéttarfélögum, frá stjórnvöldum eða úr erlendu samstarfi. Hugmyndir eiga og mega koma allstaðar frá. Ef innra starfið trénar þá er félagið dáið. Við viljum samtalið vegna þess að ef við eigum ekki samtalið við félagsmenn okkar, leiðsögnina frá þeim og heyra þeirra skoðanir þá er þetta bara líflaust apparat. Við erum ekki þar,“ svaraði Þórarinn.


Mikið uppbyggingarstarf framundan
Spurður um hvaða kröfur skuli gerðar hjá Sameyki í baráttunni fyrir betra samfélagi, svaraði hann.

„Það svíður hér innandýra þegar verið er að gera breytingar á almannaréttinum, á velferðarþjónustunni og heilbrigðisþjónustunni o.sv.frv. Þetta er samtal sem við eigum alltaf við ríkjandi stjórnvöld. En hvar á almenningur sér skjól? Það er þannig að félagsmenn treysta mikið á félagið. Þeir treysta okkur ekki bara fyrir þeim málum sem snúa beint að kjarasamningum, heldur lífinu sem þeir lifa í þessu landi. Á undanförnum árum er búið að skemma samfélagið það mikið að það er bara uppbyggingarstarf framundan. Maður er ekki að sjá hjá þessum stjórnvöldum núna, og þeim sem verið hafa, að þau séu að fara í þessa uppbyggingu, eða að það sé hátt skrifað né orðað skilmerkilega svo það sé skiljanlegt þegar litið er til stjórnarsáttmálans nýja. Félögin eru alltaf með kröfugerðir á sínu borði; að við séum miklu betra samfélag líkt og þau sem við viljum bera okkur saman við.“

Samtalið í Vinnuskúrnum hélt áfram um Sameyki innan BSRB, aflið sem fylgir stærri stéttarfélögum og hlutverki þeirra, samfélagmál, pólitík, styttingu vinnuvikunnar, vinnudeilusjóði, verkföll, grunnþætti samfélagsins eins og húsnæðismál, sjónvarpsþættina Verbúðina og annað fleira áhugvert bar á góma.

Hægt er að horfa á Vinnuskúrinn hér fyrir neðan.

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)