Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

19. janúar 2022

Sameyki vonar að ekki komi til átaka á vinnumarkaði

Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis, setti fund í fulltrúaráði félagsins í dag sem haldinn var með fjarfundarbúnaði. Bauð Þórarinn gesti velkomna og kynnti dagskrá fundarins sem var: Tekjur, ójöfnuður og vegasalt gildismatsins í umsjón Söru Sigurbjörns- Öldudóttur, sérfræðings í vinnumarkaðsmálum hjá ASÍ. Undirbúning aðalfundar og skipun laganefndar Sameykis, framboði í jafnréttisnefnd, umhverfis-og loftlagsnefnd og nefnd um félagsleg málefni. Þá kynnti Kristín Erna Arnardóttir fræðsludagskrá trúnaðarmanna á vorönn og loks var á dagskrá fundarins iðgjöld í Vinnudeilusjóð og rætt var um stöðu hans.


Fundarherferðir og launamunur milli markaða
Þórarinn greindi fulltrúum frá því að Sameyki hafi haldið vel utan um verkefnið um jöfnun launa á milli markaða. Standa nú yfir umræður um túlkunaratriði samkomulagsins sem undirritað var 2016 á milli ríkis, Reykjavíkurborgar og sveitarfélaga annars vegar og heildarsamtaka opinberra starfsmanna hins vegar um að jafna kjör, bæði hvað varðar launasetningu á starfsævinni og einnig hvað varðar lífeyrisréttindi á milli almenna og opinbera launamarkaðarins. Fyrir hönd ríkisns undirrituðu forsætisráðherra og fjármálaherra samkomulagið á sínum tíma, en fyrir hönd allra sveitarfélaga í landinu undirrituðu formaður og framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga. Ríkið og sveitarfélögin hafa ekki staðið við sinn hluta samkomulagsins við að leiðrétta áðurnefndan 16,7 prósent meðaltals launamun, á meðan opinberir starfsmenn hafa staðið við sinn hluta að fullu en Sameyki krefst þess að ríki og sveitarfélög standi við sinn hluta að fullu leyti.

Þá greindi Þórarinn frá því að fundir um allt land séu fyrirhugaðir með fjarfundarformi en ef sóttvarnareglur breytast verðum farið af stað með staðarfundi.


Undirbúningur aðalfundar og kjarasamningar
Undirbúningur aðalfundar er mikilvægur og hafin er vinna við að skipuleggja hann. Endurskoðun á lögum félagsins blasir við að þurfi að ráðast í til að tryggja lýðræðislega aðkomu félagsfólks og allt starf félagsins. Uppstilling félaga í laganefnd var staðfest og hún mun taka til starfa og skila af sér fyrir n.k. aðalfund.

Jakobína Þórðardóttir kynnti starf nefnda hjá félaginu og þá fulltrúa sem í þeim starfa. Að auki voru fulltrúum boðið að gefa sig fram til starfa í nefndunum og voru þær fullmannaðar í kjölfarið. Þær nefndir sem fjallað var um á fundinum eru: jafnréttisnefnd, umhverfis-og loftlagsnefnd og Nefnd um félagsleg málefni.

Að lokum sagði Þórarinn Eyfjörð að á vinnumarkaðnum væri athyglisvert að fylgjast með þeim átökum sem virðast vera að teiknast upp á milli verkalýðsfélaga og atvinnurekenda. Nú sé rétt ríflega ár þar til að kjarasamningar opnast á opinbera markaðnum og í haust opnast samningar á almenna markaðnum fyrir félaga í Sameyki sem starfa þar. Farvegur samtalsins sem ætti að leiða til sátta virðist fara frekar fyrir Félagsdóm. Félagsdómur er nú önnum kafinn við að skera úr um fjöldamörg mál sem fyrir honum liggja. Sameyki vonar að ekki komi til átaka á vinnumarkaði heldur leysi þau á málefnalegum grunni þó þykir ástæða til að taka upp styrk vinnudeilusjóða og áform til að styrkja hann fyrir komandi kjarasamninga.


Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)