Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

2. febrúar 2022

Stjórnlaus fjölgun og ofurlaun opinberra starfsmanna fjarstæða

Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis.

Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis, skrifar um rangfærslur þær sem Samtök atvinnulífsins hafa haldið fram að opinberir starfsmenn séu á ofurlaunum og leiði launaþróunina í landinu þegar staðreyndin er sú að þeir eru á eftir almenna launamarkaðnum sem nemur um 16,7 prósent. Þórarinn segir í grein sinni m.a. „Félagsmenn Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu eru um 12 þúsund talsins. Af þeim hópi eru um 7 þúsund félagsmenn sem vinna að mestu leyti hjá ríki og Reykjavíkurborg við störf á sviði heilbrigðis- og velferðarþjónustu. Heildarmeðallaun þessara félagsmanna eru um 650.000.- miðað við fullt starf. Ríkið gefur út opna yfirlitssíðu um meðallaun allra starfsmanna sem starfa hjá því eftir stéttarfélögum og heildarsamtökum stéttarfélaga (sjá á slóðinni gogn.fjr.is/). Svo örfá dæmi séu tekin þá kemur þar fram að heildarmeðallaun félagsmanna Sameykis sem störfuðu hjá ríkinu árið 2021 eru 644.456 krónur á mánuði, hjá Þroskaþjálfafélagi íslands 683.187 krónur og hjá Félagi háskólakennara 674.991 krónur. Þetta eru launin sem Samtök atvinnulífsins virðast líta á sem ofurlaun ríkisstarfsmanna.“

Hann segir fullyrðingar Samtaka atvinnulífsins um stjórnlausa fjölgun opinberra starfsmanna fjarstæðu. „Þessar fullyrðingar eru fjarstæða og settar fram í þeim eina tilgangi að þyrla upp moldviðri í aðdraganda kjarasamninga. Enda virðist það sérstök ástríða hjá Samtökum atvinnulífsins og makkerum þeirra að gera ríkið að höfuðóvini sínum þegar líður að kjarasamningum. Ef litið er til fjölda opinberra starfsmanna í hlutfalli við fólksfjölgun sést að opinberum starfsmönnum hefur fækkað ef eitthvað er. Sé miðað við fjölda þeirra á hverja 1000 íbúa í landinu hafa ársverkum hjá ríkinu fækkað hlutfallslega á tímabilinu frá 2011 til 2020.“

Greining birtist á kjarninn.is

 

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)