Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

15. febrúar 2022

Tímarit Sameykis á leið til félagsfólks

1. tbl. tímarits Sameykis er á leið til félagsfólks í pósti.

Í glóðvolgu tímariti Sameykis sem runnið er af færibandinu úr prenstmiðju til félagsfólks í Sameyki kennir ýmissa grasa. Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis, skrifar um að hagsmunaöfl sérgæskunnar knýi nú á, í aðdraganda kjarasamninga, um að fjármálaelítan fái upp í hendurnar eignir almennings á spottprís og geti síðan mergsogið almenning í gegnum þær stofnanir. Þá fjallar hann um rangfærslur þær sem Samtök atvinnulífsins hafa haldið fram að opinberum starfsmönnum fjölgi stjórnlaust, séu á ofurlaunum og leiði launaþróunina í landinu.

Deildarstjóri kjaradeildar Sameykis, Guðmundur Freyr Sveinsson, fer yfir ýmiss kjara- og réttindamál félagsfólks í Sameyki. Þá er viðtal við Hrein Óskarsson, sviðsstjóra þjóðskóga hjá Skógræktinni, sem segir okkur frá hvernig þjóðskógarnir eru reknir og segir hann líka frá kolefnisbindingu skóga í viðtalinu. Þórkatla Aðalsteinsdóttir, sálfræðingur, skrifar um sálrænt öryggi á vinnustaðnum, virðingu og umhyggju ofl. í fróðlegri grein.

Fjallað er um bandarískan vinnumarkað en milljónir bandaríkjamanna telja sig ekki fá nema lítið brot af hagnaði þess sem þeir framleiða og segja þess vegna m.a. upp störfum sínum.

Í blaðinu er grein um framtíðarvinnumarkaðinn, „giggara,“ og gerviverktaka ásamt hlutverki stéttarfélaga eftir Dagnýju Aradóttur Pind, lögfræðing hjá BSRB. Þar segir hún; „Vandi sjálfstætt starfandi einstaklinga er margþættur og hættan á að falla á milli kerfa er raunveruleg. Eitt stærsta vandamálið er þó skortur á samstöðunni sem við sem störfum innan verkalýðshreyfingarinnar vitum að er okkar helsti styrkur. Fólk sem starfar í gerviverktöku á allt sitt undir því að fá greitt frá atvinnurekanda og hættan á að missa lífsviðurværið er alltaf yfirvofandi ef viðkomandi ruggar bátnum, krefst úrbóta í vinnuumhverfi eða kjarabóta.“

Fram kemur í könnun sem Sameyki lét gera fyrir sig að 61 prósent kvenna og 56 prósent karla sögðust vilja vinna heima að einhverju leiti eftir að faraldrinum lýkur, en um 5 prósent sögðust vilja vinna heima að fullu að honum loknum. Að sjálfsögðu eru Gott að vita námskeiðin á vorönn í tímaritinu, skopteikning Halldórs Baldurssonar að ógleymdri krossgátunni vinsælu o.m.fl.


Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)