Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

1. apríl 2022

Sameyki eflir Vinnudeilusjóð félagsins

Þórarinn Eyfjörð formaður Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu. Ljósmynd/Birgir Ísleifur Gunnarsson

Á aðalfundi Sameykis í gær samþykkti félagsfólk með miklum meirihluta í atkvæðagreiðslu að hækka félagsgjaldið til að styrkja Vinnudeilusjóð félagsins.

Þórarinn Eyfjörð formaður Sameykis sagði að í ljósi þess hvernig umræðan hefur verið í samfélaginu á vettvangi atvinnurekenda og samtaka þeirra ber Sameyki að búa sig undir átök með því að efla vinnudeilusjóð. Þá sagði Þórarinn að þrengt sé að lífgæðum með ásókn í opinbera innviði þjóðarinnar ásamt aðgerðaleysi stjórnvalda í jöfnun launa á milli markaða og Sameyki verði tilbúið undir þær deilur með sterkari Vinnudeilusjóði.

„Sú orðræða atvinnurekenda og samtaka þeirra hefur bæði verið harkaleg og einkennst af því að hugsanlega sé verið að hlaða í átök. Í þessari stöðu teljum við vera skynsamlegt að búa okkur undir harðar vinnudeilur og sendum út þau skilaboð að við séum við öllu búin þegar kjarasamningsviðræður hefjast. Það hefur sýnt sig að sterkur vinnudeilusjóður hefur áhrif í vinnudeilum.“

Sagði Þórarinn að síðasta stóra verkfallið hafi verið 2015 og fram undan má ætla að kjarasamningsviðræður verði erfiðar og kröfugerðin fyrir næstu kjarasamninga verður önnur en í þeim síðustu þegar samið var á grundvelli samninga sem tókust á milli almenna vinnumarkaðarins og Samtaka atvinnulífsins.

„Á komandi hausti verða kjarasamningar á almennum markaði lausir. Sameyki gerir kjarasamninga á almennum markaði til að mynda við Isavia, Orkuveitu Reykjavíkur og Fríhöfnina ásamt fleirum. Það liggur ljóst fyrir að við þurfum öflugan Vinnudeilusjóð og hækkun félagsgjaldsins tel ég vera nauðsynlega aðgerð í að styrkja sjóðinn til að efla baráttuna vegna komandi kjarasamninga.“

 

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)