Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

4. maí 2022

Ríki og sveitarfélög grípi til aðgerða og tryggi öllum börnum leikskólapláss

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Á morgun kynnir BSRB niðurstöður nýrrar skýrslu um umönnunarbilið svokallaða og stöðu leikskólamála. Kynningin fer fram í beinu streymi á Facebook síðu BSRB kl. 10:30 á morgun 5. maí. Hægt verður að lesa skýrsluna á vef bandalagsins að kynningu lokinni. Rannsóknin er viðamikil á stöðu leikskólamála hér á landi en bandalagið hefur lengi gert þá kröfu að ríkið og sveitarfélögin grípi til aðgerða svo öllum börnum verði tryggt leikskólapláss að loknu fæðingarorlofi.

Í Morgunútvarpi Rásar tvö sagði Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, að umönnunarbilið hafi neikvæð áhrif á jafnrétti kynjanna.

„Hérna er auðvitað velferðarstefna, það sem að fylgir því og það sem hin norðurlöndin horfa til er að þú veitir aukinn stuðning afþví að þú vilt stuðla að aukinni fæðingartíðni og við vitum að hún hefur verið að lækka í öllum löndunum,“ segir Sonja.

Sömuleiðis vilji fólk auka jafnrétti og gera foreldrum kleift að taka þátt á vinnumarkaði. Sonja Ýr segir hluta af fæðingarorlofslögunum og markmiðum þeirra sé að tryggja foreldrum möguleika á að samþætta vinnuna og einkalífið en þegar fæðingarorlofið taki við fari það þvert gegn þessum markmiðum.

„Af því að þá er það yfirleitt konan sem er heima, það er því miður ennþá þannig, og það sem gerist þá er að þær minnka starfshlutfallið sitt eða einfaldlega lengja í fæðingarorlofinu eða reyna að finna einhverjar aðrar leiðir.“

Sonja Ýr segir það blasa við að þetta komi verst við þá sem tekjulægstir séu, sem hafi fæstu úrræðin til að leita í.

„Hluti af þessari herferð sem við fórum í á sínum tíma og kom fram í viðtölum að það væru mjög margir að brúa þetta bil með yfirdrætti eða lántöku eða lánum frá fjölskyldu.“

Fréttin birtist fyrst á ruv.is

 

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)