Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

5. maí 2022

Félagsdómur féllst á veikindarétt starfsmanns

Félagsdómur

Nýlega féll dómur í Félagsdómi þar sem deilt var um talningu á veikindarétti starfsmanns sem hafði áunnið sér rétt til 360 daga í launuðum veikindum féllst á rétt starfsmannsins. Dómurinn staðfestir enn og aftur þá túlkun sem BSRB og önnur heildarsamtök hafa haldið fram, þ.e. að veikindaréttur sé til staðar þegar starfsmaður hefur verið frá vegna veikinda í færri en 360 daga á sl. 12 mánuðum.

Málavextir voru þeir að starfsmaður fór í veikindaleyfi hinn 5. september 2019 og var frá störfum þar til hinn 15. október 2020. Starfsmaðurinn fékk starfshæfnisvottorð frá 16. október 2020 og mætti aftur til starfa. Hinn 6. nóvember 2020 féll viðkomandi í yfirlið þegar viðkomandi var kominn til vinnu, fór með sjúkraflugi á Landspítala og hefur verið frá vinnu síðan. Viðkomandi starfsmaður var við störf í 20 almanaksdaga áður en hann varð veikur aftur.

Samband íslenskra sveitarfélaga hélt því fram að 360 daga veikindaréttur væri ekki fyrir hendi og vísaði m.a. til 20 ára gamals tölvubréfs frá fjármálaráðuneytinu máli sínu til stuðnings. Sambandið hélt því fram að við síðari veikindin ætti að taka ,,punktstöðu“ frá þeim tímapunkti sem viðkomandi veiktist og taldi viðkomandi einungis eiga rétt til veikindalauna í 12 almanaksdaga. Þannig leit Samband íslenskra sveitarfélaga fram hjá þeirri meginreglu að telja skuli 12 mánuði aftur í tímann þegar komist er að því hvort veikindaréttur er fyrir hendi, sbr. skýr ákvæði kjarasamninga.

Niðurstaða dómsins var hins vegar sú að við síðari veikindin skuli telja hversu marga veikindadaga viðkomandi hafði nýtt á sl. 12 mánuðum til þess að komast að niðurstöðu um það hvort veikindaréttur væri fyrir hendi. Niðurstaða þeirrar talningar var talan 345 og þar sem viðkomandi átti sannanlega rétt til 360 daga veikindaréttar var veikindaréttur viðkomandi ekki tæmdur. Með hverjum degi sem líður í veikindunum dettur einn dagur út á hinum enda tímabilsins og þar sem einungis skal horfa til 12 mánaða aftur í tímann átti viðkomandi rétt til veikindalauna í allt að 360 daga vegna síðari tímabils veikinda sinna.

 

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)