Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

12. maí 2022

Grunnstoðir velferðarsamfélagsins grundvallast á jöfnuði og jafnrétti

Öflug almannaþjónusta er ein af grunnstoðum velferðarsamfélagsins og forsenda verðmætasköpunar.

„Stefna BSRB er leiðarljós okkar í hagsmunabaráttu starfsfólks í almannaþjónustu. Hún er bæði grundvöllur alls starfs bandalagsins næstu árin og forsenda þeirrar samstöðu sem nauðsynleg er til að ná okkar metnaðarfullu markmiðum í þágu launafólks.”

Í stefnu BSRB fyrir aðildarfélög bandalagsins og félagsfólk þeirra koma fram tólf stefnumál þar sem fjallað er um almannaþjónustu og almannatryggingar, atvinnumál, efnahags- og skattamál, heilbrigðismál, húsnæðismál, jafnréttismál, kjaramál, menntamál, starfsumhverfi starfsfólks í almannaþjónustu og umhverfis- og loftlagsmál. Allt eru þetta brýn stefnumál sem varðar íslenskt samfélag og almenning allan sem mótuð voru á framhaldsþingi bandalagsins sem haldið var í lok mars sl.

 

Grunnstoð velferðarsamfélagsins
Hlutverk BSRB er að vera leiðandi afl í hagsmuna- og réttindabaráttu launafólks sem starfar með einum eða öðrum hætti í almannaþjónustunni og er heildarfjöldi félagsfólks í BSRB 23 þúsund talsins. Fomaður BSRB er Sonja Ýr Þorbergsdóttir og varaformaður þess er Þórarinn Eyfjörð. Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu er stærsta aðildarfélagið innan BSRB. Sameyki átti 94 þingfulltrúa á framhaldsþinginu.

BSRB myndar stefnu sinna baráttumála til að veita stjórnvöldum aðhald og hvetur til þess að þau hugi að almannaþjónustunni áður en ákvarðanir eru teknar sem hafa áhrif á innviði þjóðarinnar, almenning og starfsfólk í almannaþjónustu. Öflug almannaþjónusta er ein af grunnstoðum velferðarsamfélagsins.

 

Gildi verkalýðshreyfingarinnar um velferðarkerfið
Í stefnu BSRB um almannaþjónustuna segir að eitt af meginhlutverkum hins opinbera er að halda uppi öflugu velferðarkerfi þar sem landsmönnum er tryggð örugg framfærsla, heilbrigðis- og félagsþjónusta, menntun og öryggi, óháð búsetu. Velferðarkerfið á að fjármagna úr sameiginlegum sjóðum landsmanna og tryggja öllum framúrskarandi þjónustu án tillits til greiðslugetu. Reynslan sýnir að velferðarþjóðfélag verður ekki reist nema á gildum samvinnu og jafnaðar, gildum sem verkalýðshreyfingin hefur haldið á lofti frá öndverðu.

Þá er þess krafist að brugðist verði við auknum eignaójöfnuði með stóreignaskatti á hreina eign þeirra allra ríkustu og að tekjur og eignamyndun eignarhaldsfélaga sem ekki eru í atvinnurekstri verði skattlagðar hjá eigendum. Ísland er ríkt af auðlindum. BSRB krefst þess að þjóðin fái réttmæta hlutdeild í arðinum sem skapast af nýtingu einkaaðila á auðlindum með auðlindaskatti.

 

Alfarið á móti einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu
BSRB leggst alfarið gegn markaðsvæðingu heilbrigðisþjónustu og gjaldtöku sem byggir á hagnaðarsjónarmiðum. Einkarekstur dregur úr skilvirkni kerfisins, yfirsýn og samhæfingu, eykur hættu á oflækningum og torveldar eftirlit með gæðum og umfangi. Einkavæðing eykur líka þrýsting á launalækkanir, fækkun starfsfólks og uppsagnir starfsfólks með mikla reynslu og hærri laun til að auka hagnað af rekstrinum sem rennur þá í vasa eigendanna á kostnað launafólks og gæða þjónustunnar.

 

Húsnæðisöryggi eru mannréttindi
Bjarg, leigufélag BSRB og ASÍ er burðarásinn í almenna íbúðakerfinu og stuðlar að húsnæðisöryggi launafólks í lægri tekjuhópum. BSRB leggur ríka áherslu á að árleg stofnframlög frá ríki og sveitarfélögum verði aukin til að flýta fyrir uppbyggingu kerfisins og mæta brýnni þörf launafólks fyrir húsnæði á viðráðanlegu verði. BSRB leggur áherslu á að ríki og sveitarfélög greiði götu leigufélagsins Blævar, sem er leigufélag í eigu BSRB og ASÍ. Mikilvægt er að auka valkosti launafólks á húsnæðismarkaði sem er yfir tekjuviðmiðum í almenna íbúðakerfinu og stuðla þannig að húsnæðisöryggi fyrir alla.

Hægt er að lesa stefnu BSRB hér.


Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)