Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

27. júní 2022

BSRB vill að aukið fé verði sótt í vasa sjávarútvegsfyrirtækja

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur BSRB. Ljósmynd/Fréttablaðið.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur BSRB, sagði í viðtali við Fréttablaðið að þeir sem hafi breiðustu bökin þurfi að leggja meira fram til samneyslunnar. Flótti sé hafinn úr heilbrigðisgeiranum og varði miklu að verja grunnstoðirnar þótt mikil þensla sé í hagkerfinu og óvissa fram undan í efnahagsmálum.

„Kerfin okkar, heilbrigðiskerfið og velferðarkerfið, hafa verið vanfjármögnuð um árabil,“ segir Sigríður Ingibjörg. „Við erum með heilbrigðiskerfi sem hefur verið undir gríðarlegu álagi og sjáum flótta hafinn, til dæmis af Landspítalanum. Við hjá BSRB höfum lagt gríðarlega áherslu á mikilvægi þess að auka fjármuni inn í þessar stofnanir,“ bætir hún við, „bæði til að tryggja þjónustuna en ekki síður til að tryggja aðbúnað og öryggi starfsfólksins.“

Það styttist í ögurstund í efnahagslífinu ofan á óðaverðbólgu og vaxtahækkanir. Kjarasamningar losna á almennum markaði í haust en hjá opinbera geiranum undir næsta vor. Hagfræðingur BSRB segir að til að styrkja kerfin þurfi að vera vilji hjá stjórnvöldum til að sækja tekjur til þeirra sem séu aflögufærir.

„Útgerðin og stóreignafólk þurfa að leggja meira til samfélagsins.“

Spurð hvernig Sigríður Ingibjörg sjái það fyrir sér bendir hún á að skattalækkanir stjórnarinnar á síðasta kjörtímabili hafi ekki verið fjármagnaðar.

„Við studdum skattalækkanir á láglaunahópa og millitekjufólk en við bentum líka á að það þyrfti að finna aðra fjármuni í staðinn.“

Sigríður Ingibjörg segir meginverkefni kjarasamninganna að vernda kaupmátt og halda áfram að hækka lægstu laun.

„Eitt stærsta vandamálið er að hér hefur skort húsnæðisstefnu allt síðan verkamannabústaðir voru lagðir af fyrir tæpum aldar­fjórðungi,“ segir Sigríður Ingibjörg. Hún telur þá breytingu hafa verið mjög vonda ákvörðun.

„Lausnin átti að vera að lána fólki miklu meiri peninga en það hefur skilað sér í ömurlegri stöðu eins og við sjáum núna. Það verður að bæta verulega í almenna íbúðakerfið til að tryggja húsnæðisöryggi fólks í lægri tekjuhópunum.“

 

Fréttin birtist á vef Fréttablaðsins.

 

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)