Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

30. ágúst 2022

NSO-ráðstefna: Framtíðarvinnumarkaðurinn

Mari Holm Ingelsrud, yfirrannsakandi við miðstöð velferðar- og vinnurannsókna við Háskólann í Osló.

Það er áhyggjuefni fyrir atvinnurekendur að fólk sem starfar heima finni fyrir aðskilnaði við vinnustaðinn og þá hvernig vinnustaðirnir eigi að bregðast við því. Það kom í ljós að fólk sem starfar mikið heima finnur fyrir einsemd og einangrun.

Mari Holm Ingelsrud, yfirrannsakandi við miðstöð velferðar- og vinnurannsókna við Háskólann í Osló, fjallaði um í erindi sínu um rannsóknir síns teymis um framtíðarvinnumarkaðinn og hvaða þýðingu hann hefur á starfsfólk og vinnuveitendur m.t.t. vinnu heima hluta úr vikunni.

Mari Holm sagði að í rannsóknum um framtíðarvinnumarkaðinn í Noregi hafi komið fram að fjarvinna getur verið margskonar, hún getur átt sér stað víðs vegar í samfélaginu, á kaffihúsinu, í lestinni eða í almenningsgörðum svo dæmi séu tekin. Í rannsókninni kom einnig fram að um helmingur fólks á vinnumarkaði sinntu störfum sínum heima í heimsfaraldrinum. Þá er hópur fóks sem gat ekki starfað heima hjá sér vegna krafna um nánd eða annarra þátta sem krefjast þess að fólk starfi á vinnustaðnum í opinberri þjónustu.

 

Framlegðin kemur á óvart hjá þeim sem starfa heima
„18 prósent fólks störfuðu almennt heima hjá sér fyrir COVID-19 faraldurinn, en meðan á honum stóð fjölgaði þeim upp í 60 prósent. Eftir að faraldrinum lauk fór hlutfallið í 50 prósent sem störfuðu heima allan daginn hluta vinnuvikunnar. Í rannsókninni kemur fram að 72 prósent launafólks vilja starfa heima allan daginn hluta vinnuvikunnar og við höldum að þetta sé komið til að vera, en samt ekki í eins miklum mæli og meðan á farsóttinni stóð. Þá vill fólk hafa vinnustað sem það getur farið til og greinilegt er að margar stéttir vilja geta ráðið sjálfar hvernig þær sinna vinnunni með tilliti til viðveru á vinnustaðnum. Stofnunin hefur komist að því að fólk sem starfar heima metur vinnuframlagið sitt minna en ef það væri á vinnustaðnum. Þetta kemur á óvart því framlegðin fellur ekki þegar fólk starfar heima hjá sér eins og það heldur fram eða fær á tilfinninguna. Reynsla vinnuveitenda í Noregi er sú að framleiðni þeirra sem störfuðu heima jókst í farsóttinni,“ sagði Mari Holm.

 

Heimavinna getur haft slæmar félagslegar afleiðingar
Heimavinna getur haft slæm áhrif félagslega því nálægð við vinnustaðinn er minni, nándin við starfsfélaga er ekki til staðar og lengri boðleiðir eru á milli stjórnenda og starfsfólksins.

„Fólk er óöruggt hvenær það á að vinna á heimaskrifstofunni en þróunin hefur verið sú á opinbera vinnumarkaðnum að 30 prósent eru með samninga sem kveða á um aðskilnað vinnu og einkalífs. Það er bæði jákvætt og skilvirkt að vera með heimaskrifstofu og hjá þeim sem eru með slíka aðstöðu er framleiðnin meiri eins og áður kom fram. Þetta fyrirkomulag skapar þó líka ójöfnuð sem verkalýðsfélög verða að takast á við því sum störf krefjast þess af fólki að það sé alltaf á vinnustaðnum og það þarf að leysa úr því með einhverjum hætti,“ sagði Mari Holm að lokum

 

Huga þarf einnig að þeim sem ekki geta starfað heima
Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis, sagði í pallborðsumræðum um framtíðarvinnumarkaðinn að Sameyki geti tekið undir margt af því sem kom fram í þessari rannsókn á norskum vinnumarkaði.

 

„Í könnun sem Sameyki lét gera á meðal síns félagsfólks [sjá 3. tbl 2021 á bls. 6] kom í ljós að 40 prósent þeirra sem svöruðu í könnuninni gátu unnið heima. Þá skipti ekki máli hvort aðstaða var fyrir hendi heima fyrir eða ekki, fólk var sent heim til að vinna. Þó var stór hluti sem gat ekki unnið heima og átti það aðallega við hjá þeim sem sinntu ummönnunarstörfum í heilbrigðiskerfinu. Það kom einnig í ljós að fólk sinnti vinnu sinni meira heima hjá sér en á vinnustaðnum. Þá kom fram í könnuninni að sköpun datt niður þegar það vann heima og var ekki í samskiptum við vinnufélaga sína. Þannig að það er ljóst að hugmyndavinna dettur niður ef ekki eru samskipti fyrir hendi á milli vinnufélaga. Svo þarf líka að huga að því fólki sem getur ekki unnið heima,“ sagði Þórarinn.

 

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)