Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

26. september 2022

Kaldhæðni að segja opinbera starfsmenn byrðar á samfélaginu

Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands. Ljósmynd/Birgir Ísleifur Gunnarsson

Gylfi Zoega segir í grein í tímariti Sameykis sem var að koma út, að það skiptir máli frá ári til árs að sátt ríki á vinnumarkaði, að eigendur fjármagns sættist við launafólk um skiptingu verðmætanna og launafólk sé sátt innbyrðis þegar kemur að hlutfallslegum launum á vinnumarkaði. Þá segir Gylfi að ósætti á vinnumarkaði geti leitt til verðbólgu þegar launafólk fer fram á meiri launahækkanir en fyrirtæki eru reiðubúin að samþykkja og fyrirtækin velta þeim út í verðlagið sem síðan kallar á frekari launahækkanir.

„Flestar starfsstéttir búa ekki við þær aðstæður að laun mótist af framboði og eftirspurn. Í mörgum atvinnugreinum er einungis einn atvinnurekandi eða fáeinir, svo sem í heilbrigðiskerfinu, í fiskvinnslu úti á landi og í skólakerfinu svo nokkur dæmi séu tekin. Laun ákvarðast þannig einungis að litlu leyti af framboði og eftirspurn heldur fremur af samningsstyrk aðila,“ segir Gylfi.

Hann bendir á í greininni að mikilvægi ýmissa starfsstétta hafi komið skýrt í ljós í heimsfaraldrinum og segir kaldhæðnislegt að halda því fram, eins og einstaka stjórmálamenn halda fram, að starfsstéttir á opinberum vinnumarkaði séu byrðar á samfélaginu.

„Þetta eru þær stéttir sem kalla má grunnstoðir samfélagsins. Heilbrigðisstarfsfólk sinnti störfum af mikilli samviskusemi og dró ekkert undan. Það er kaldhæðnislegt að einstaka stjórnmálamenn tala eins og sumar þessara stétta séu byrði á samfélaginu vegna þess að þær starfa innan opinbera geirans. Opinber rekstur skóla og heilbrigðisstofnana tryggir jafnan aðgang að þjónustunni en framlag til samfélagsins er engu minna en ef um einkarekna skóla og heilbrigðisstofnanir væri að ræða.“

Lestu grein Gylfa Zoega hér.

 

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)