Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

10. október 2022

Hækkun gjalda og veiking almannaþjónustu

Þrátt fyrir þessa stöðu lækka rekstrarframlög til heilbrigðiskerfisins á hvern íbúa samkvæmt frumvarpinu. Ljósmynd/Sigurður Ólafur Sigurðsson

Vegna langvarandi álags gætir flótta úr ýmsum fagstéttum sem bætist ofan á þann mönnunarvanda sem þegar er uppi í heilbrigðiskerfinu.

Ríkisstjórnin sendir launafólki skýr skilaboð með fjárlagafrumvarpinu um að kjarabætur verði eingöngu sóttar við kjarasamningsborðið. Þetta er meðal þess sem fram kemur í umsögn bandalagsins um frumvarpið. Í umsögninni segir ennfremur að frumvarpið lýsi hagkerfi þar sem einkaneysla hefur aldrei verið sterkari og kaupmáttaraukning mikil en ekki sé tekið tillit til þeirra rúmlega 38 þúsund heimila sem áttu erfitt með að ná endum saman árið 2021.

Hækkun almennra gjalda leggst þyngst á tekjulága
Með hækkun almennra gjalda eru lagðar jafnar byrðar á alla landsmenn, sem mun óhjákvæmilega leggjast hlutfallslega þyngst á lágtekjufólk. Að mati BSRB er tekjuöflun hjá þeim aðilum sem hafa svigrúm til að greiða hærri skatta skynsamlegri til að bæta stöðu ríkisfjármála.

Það vekur furðu bandalagsins að ríkisstjórnin skuli ekki nýta tekjuhlið fjárlaga til þess að lækka skuldir, ná jafnvægi í rekstri ríkissjóðs, styrkja grunnþjónustu og bæta stöðu þeirra hópa sem eiga erfitt með að ná endum saman. Í því samhengi mætti til dæmis nefna hátekjuskatt, eignaskatta, bankaskatt, hækkun fjármagnstekjuskatts og hærri hlutdeild almennings af tekjum fyrir afnot af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar.

 

Aðhald og niðurskurður en engin heildstæð áætlun
Útgjaldakafli frumvarpsins endurómar áherslu á aðhald og niðurskurð. Þar birtist með skýrum hætti sú stefna að jafnvægi í ríkisfjármálum á að ná með skertri opinberri þjónustu en ekki aukinni tekjuöflun.

Með boðuðum niðurskurði á árinu 2023 er í frumvarpinu tiltekið að þessi stefnumörkun feli til lengri tíma í sér áherslu á bætta nýtingu fjármuna og forgangsröðun verkefna innan núgildandi útgjaldaramma. Það þýðir að skera þarf niður opinbera þjónustu á einum stað eigi að bæta hana á öðrum. BSRB óskar eftir heildstæðri áætlun til næstu ára hvað þetta varðar. Án slíkrar áætlunar verður stefnan handahófskennd og ræðst af sveiflum í hagkerfinu en ekki stefnumörkun.

 

Fjársvelt heilbrigðiskerfi
Heilbrigðiskerfið hefur verið undir miklu álagi undanfarin ár. Vegna langvarandi álags gætir flótta úr ýmsum fagstéttum sem bætist ofan á þann mönnunarvanda sem þegar er uppi í heilbrigðiskerfinu. Þrátt fyrir þessa stöðu lækka rekstrarframlög til heilbrigðiskerfisins á hvern íbúa samkvæmt frumvarpinu. Ríkisstjórnin verður að skýra hvernig sú útgjaldastefna sem birtist í frumvarpinu á að koma til móts við þarfir fyrir lögbundna heilbrigðisþjónustu og hvernig hún ætlar að ná markmiðum sínum um að efla mönnun, heilbrigðisþjónustu á réttu þjónustustigi og ásættanlegan biðtíma.

 

Húsnæðismál, stuðningur við barnafjölskyldur, almanna- og atvinnuleysistryggingar
Í komandi kjarasamningum munu samtök launafólks horfa til samspils launa og annara þátta. Þar vega húsnæðismál, stuðningur við barnafjölskyldur, almanna- og atvinnuleysistryggingar þyngst. BSRB leggur ríka áherslu á hraða uppbyggingu almennra íbúða og umtalsverða fjölgun þeirra á næstu árum til að tryggja húsnæðisöryggi launafólks í lægri tekjuhópum og að byrði húsnæðiskostnaðar verði ekki umfram 25 prósent af ráðstöfunartekjum.

BSRB hefur lengi kallað eftir stórefldu barnabótakerfi á Íslandi. Kerfið í dag er ekki fullnægjandi og mikilvægt er að breyta því þannig að barnabætur byrji ekki að skerðast fyrr en að meðaltekjum er náð. BSRB leggur áherslu á að breyta þurfi fæðingarorlofskerfinu þannig að þau sem eru með allra lægstu launin haldi óskertum tekjum í fæðingarorlofi. Að mati bandalagsins þarf líka að hækka hámarksfjárhæð fæðingarorlofs, sem hefur verið óbreytt um árabil, þannig að það miðist við að minnsta kosti 80 prósent af meðallaunum.

Á undanförnum árum hafa bætur almannatrygginga hækkað til samræmis við verðlag en ekki launaþróun. Það þýðir að tekin hefur verið um það pólitísk ákvöðun að auka á ójöfnuð lífeyrisþega gagnvart öðrum hópum samfélagsins. Langtímaatvinnuleysi er að aukast og því er að mati BSRB mikilvægt að lengja aftur tryggingatímabilið í 36 mánuði og auka þjónustu við atvinnuleitendur. BSRB krefst þess að atvinnuleysistryggingar hækki hlutfallslega til jafns við almannatryggingar og fylgi launaþróun.

 

Almennar gjaldhækkanir og veiking grunnþjónustu bitna meira á konum
Konur eru að jafnaði með lægri tekjur en karlar. Þá eru mun fleiri konur einstæðir foreldrar en karlar. Almennar gjaldahækkanir líkt og boðaðar eru á tekjuhlið frumvarpsins koma verst niður á þeim sem lægst hafa launin og þar með í meira mæli konum. Veiking grunnþjónustunnar hefur einnig margþætt neikvæð áhrif á stöðu kvenna í samfélaginu og raunrýrnun lífeyris hefur að jafnaði neikvæðari áhrif á konur en karla.

BSRB telur að ríkissjóður eigi að leggja sitt af mörkum til að styðja betur við fólk í lægri tekjuhópunum og með þunga framfærslubyrði ásamt því að styrkja almannaþjónustuna til að auka velsæld og bæta kjör og starfsumhverfi þeirra sem veita þjónustuna.

Lesa má umsögn BSRB í heild sinni hér

 

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)