Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

15. nóvember 2022

Stofnuð verði rannsóknarnefnd um sölu Íslandsbanka strax

Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis, í umræðuþætti á Samstöðinni. Ljósmynd/Samstöðin

Þórarinn Eyfjörð var gestur Rauða borðsins á Samstöðinni ásamt Atla Þór Fanndal, framkvæmdastjóra Íslandsdeildar Transparency International, í gærkvöldi til að ræða um söluna á Íslandsbanka og skýrslu Ríkisendurskoðunar sem gerð var opinber í gær. Gunnar Smári Egilsson, stjórnandi Rauða borðsins, byrjaði á að spyrja Þórarin hvernig honum hefði fundist skýrsla Ríkisendurskoðunar. Þórarinn sagði að skýrslan kallaði á að stofnuð yrði rannsóknarnefnd um sölu Íslandsbanka strax. Það væri ekki eðlilegt að þeir sem keyptu í bankanum hefðu hagnast um 31 milljarð króna af eignum almennings. Hluturinn í seinna útboðinu er nú þremur milljörðum króna verðmeiri en þegar það útboð fór fram.

„Það er ekki nema eitt og hálft ár síðan þessi einkavæðing Íslandsbanka byrjaði. Það hefur lítið borið á í umræðunni í dag hvað átti sér stað þá. Ef ég man rétt var 35 prósenta hlutur seldur í fyrri sölunni. Markaðsvirði bankans hafi verið á þeim tíma 158 milljarðar. Eftir söluna fór virði bankans upp í 250 milljarða. Tveimur mánuðum eftir að þessi fyrsta sala var um garð gengin höfðu þessir aðilar sem keyptu hagnast um 31 milljarð króna sem rann beint í vasa þeirra. Peningar sem við, almenningur áttum, en voru gefnir fjárfestum. Markaðsvirði bankans rauk upp eftir söluna og þessir aðilar högnuðust. Þetta er önnur tala en við erum að tala um núna, 2–3 milljarða.“

Í skýrslu Rík­is­end­ur­skoð­unar kemur fram að hægt hafi verið að fá mark­aðs­verð fyrir þann 22,5 pró­sent hlut sem var seld­ur. Ákveðið var að bjóða fjárfestum 4,1 pró­sent afslátt til að fæla þá ekki frá. Það er ekki í samræmi við lög­bundin mark­mið við sölu eign­ar­hluta í bönkum rík­is­ins. Afleiðingarnar voru, að kaup­verðið var amk 2,25 millj­örðum lægra en það gat ver­ið. Þessi gjörningur er í skoðun hjá Fjár­mála­eft­ir­liti Seðla­banka Íslands.

 

Markaðsmisnotkun sem þarf að rannsaka
Þórarinn sagði að við blasti að um markaðsmisnotkun hefði verið að ræða þegar sala bréfa í bankanum stöðvaðist í kauphöllinni fjórum dögum áður en bréf í bankanum voru seld. Almenningur hefði vitað hvernig staðið var þessari sölu og mótmælt henni á Austurvelli síðastliðið vor. Þá væri mörgum spurningum ósvarað í skýrslunni sem almenningur þyrfti að fá svör við.

„Það kemur eitt og annað fram í skýrslunni sem maður hafði ekki hugmyndaflug í. Það eru viðskipti með hlutabréf bæði í Íslandsbanka og Arion banka dagana fyrir söluna. Það vill svo til að viðskipti með hlutabréf í Íslandsbanka stoppa fjórum dögum fyrir söluna. Það er enginn sem selur því eigendur bréfa í bankanum vissu að þeir myndu selja sína eign á lægra verði heldur en þeir fengu eftir að þetta var búið. Ríkisendurskoðun ber saman í skýrslunni verðbréfaveltuna með bréf í Arion banka og Íslandsbanka. Veltan með bréf Arion banka heldur bara áfram eftir eðlilegum nótum en hún hættir hjá Íslandsbanka sem segir manni bara það að þar er um markaðsmisnotkun að ræða. Það er náttúrulega bara lögbrot og gríðarlega alvarlegt mál. Svo þegar útboðinu lýkur rýkur salan upp. Þetta er markaðsmisnotkun og bara það eitt og sér ætti að duga til að setja rannsóknarnefnd af stað strax á morgun!“

 

Stjórnvöld umgangast fólk eins og það sé fífl
Þórarinn benti á að stjórnvöld vildu ekki að stofnanir væru sterkar og reyndu að afvegaleiða umræðuna þegar almenningur mótmælti, í þessu tilfelli sölunni á Íslandsbanka sem ekki er þjóðarvilji fyrir eins og fram hefur komið.

„En stjórnvöld eru að umgangast fólk bara eins og fífl. Það eru ákveðnir stjórnmálamenn sem eru mjög flinkir í að svara aldrei neinu, að snúa út úr öllu, að kenna öllum öðrum um. Það erum við búin að sjá í miklum mæli í [gær]. Það eru spurningar þarna og þeim er ekki svarað. Það er krafan núna held ég að hljóti að vera hjá þinginu, að setja saman alvöru rannsóknarnefnd til að fara ofan í kjölinn á þessu máli, en maður óttast það eftir viðbrögð dagsins að það sé ekki á dagskrá hjá stjórnarmeirihlutanum því miður.“

 

Dapurlegir afkimar hræddrar valdastéttar
Formaður Sameykis sagði að það sem Bankasýslan hefði unnið með væri eitt Excelskjal sem stofnunin fékk sent frá Íslandsbanka.

„Þetta skjal reyndist svo vera algjört rugl. Svo þegar Ríkisendurskoðun kallar eftir skjalinu sem gagni til rannsóknar þá sendir Bankasýslan vitlaust skjal sem þeir hafi verið að vinna með mánuðum saman til að átta sig á hvað hafi verið í gangi við söluna. Allt utanumhald og geta Bankasýslunnar til að ráða við þetta hlutverk var bara ekki neitt.“

Hann sagði sorglegt að fylgjast með í fréttum þegar forstjóri Bankasýslunnar faldi sig bak við luktar dyr þegar Ríkissjónvarpið reyndi að ná tali af honum.

„Þetta lýsir kannski bara þessum afkima, þar sem pólitíska valdastéttin og peningastéttin er búin að koma sér upp einhverjum afkima sem á að vera ósnertanlegur. Og svo eru þau bara hrædd. Þetta er dapurlegt fyrir okkur sem þjóð.“ Þá sagði hann að hluti af afvegaleiðingu í umræðunni um Íslandsbankasölu ríkisstjórnarinnar væri að benda á aðra – gera stofnanir sem eru á ábyrgð hennar ábyrgar fyrir sínum eigin mistökum og það væri heldur ekki boðlegt.

Þórarinn sagði að þjóðin hugsi oft á efnahagslegum nótum og er umhugað um framfærslugetu sína. Og með einkavæðingu Íslandsbanka sé verið að rýra samfélagslegt tekjumódel þjóðarinnar til framtíðar. „Það er verið að taka fé frá almenningi og færa það auðfólki og auðfyrirtækjum en ég hef tröllatrú á því að við ákveðin þrýsting vill almenningur láta heyra í sér eins og í vor.“

Hægt er að horfa á viðtalið við Þórarinn Eyfjörð og Atla Þór Fanndal við Rauða borðið hér í spilaranum fyrir neðan.

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)