Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

1. febrúar 2023

Siðferði, samfélagsmiðlar, stýrivextir og verðbólga meðal umfjöllunarefnis í nýjasta tímariti Sameykis

Í fysta tölublaði Tímarits Sameykis á árinu fjallar Vilhjálmur Árnason, prófossor í heimspeki við Háskóla Íslands, um siðferði, fagmennsku og trúverðuleika í íslensku samfélagi. Hann segir m.a. mikilvægt að átta sig á hve samofið siðferði er hversdagslegu lífi, jafnt í einkalífi, störfum sem og á opinberum vettvangi.

Ásgeir Brynjar Torfson, doktor í fjármálum, skrifar um samhengi stýrivaxtahækkana, verðbólgu og launaþróunar. „Nýleg rannsókn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur sýnt fram á að ógnin af víxlverkun launa og verðlags er mun minni en talið hefur verið áður. Raunverulega eru laun og hækkun þeirra aðeins rétt að halda í við hækkun verðlags til að viðhalda kaupmætti en ná varla að auka hann. Þetta sýna greiningar á rauntölum síðustu áratuga.“

Mark Friis Hau, mannfræðingur, PhD, við Kaupmannahafnarháskóla með sérsvið að rannsaka pólitískan aktívisma og stéttarfélög, segir í grein sinni að efling lýðræðis stéttarfélaga með samtengdum og sameiginlegum aðgerðum í grasrótarstarfi með hjálp samfélagsmiðla getur verið rétt ef vel er með farið af stéttarfélögum sjálfum. Þá geta möguleikar á aukinni virkni grasrótarinnar gegnum samfélagsmiðla orðið að dýrmætri auðlind þegar kemur að skipulagi og úrbótum á innra lýðræðistarfi.

Sigurður Rúnar Hafliðason er nýr formaður Fangavarðafélags Íslands og segir hann í viðtali í Tímariti Sameykis að hann leggi áherslu á virkt samtal. Einnig bendir hann á að áfallastreita er meiri í störfum fangavarða en annars staðar innan löggæslunnar: „Ég gerði það upp við mig að annaðhvort myndi ég hætta þessari baráttu eða halda henni áfram með öflugri hætti sem formaður.“

Þórarinn Eyfjörð formaður Sameykis segir í leiðargrein: „Flest launafólk á samningssviði Sameykis vinnur í velferðar-, mennta- og heilbrigðiskerfinu – það er að segja í þeim kerfum sem tryggja að samfélagið veiti þjóðinni öryggi, velferð og þekkingu og þar með forsendur fyrir kröftugu atvinnulífi. Það hefur margoft komið fram að okkar fámenna þjóð vill traustan samfélagslegan rekstur og í þeirri framþróun sem samfélagið hefur verið í á undanförnum árum vekur það sérstaka athygli að hlutfall starfsfólks hjá hinu opinbera stendur í stað. Það er deginum ljósara að ábyrgð félagsfólks í Sameyki á vel virkandi gangverki samfélagsins er mikil. Tökum okkur því gott pláss í kröfunni um réttlátt velferðarsamfélag, þar sem áherslan er að allir leggi sanngjarnan skerf til samfélagsins.“

Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB segir: „Megináherslur BSRB nú í aðdraganda kjarasamningsviðræðna eru að lokið verði vinnu við jöfnun launa milli markaða, gerðar verði lagfæringar til að betrumbæta styttingu vinnuvikunnar í vaktavinnu og að leiðrétt verði vanmat á störfum kvennastétta. Það eru forsendur þess að gera megi skammtímasamning.“


Margt fleira ber á góma í tímaritinu sem borið verður út til félagsfólks í vikunni.

 

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)