Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

7. febrúar 2023

Launafólk ber ekki ábyrgð á efnahagsstjórn landsins

Þórarinn Eyfjörð formaður Sameykis. Ljósmynd/BIG

Formaður Sameykis, Þórarinn Eyfjörð, segir í leiðargrein í Tímariti Sameykis að launafólk sé gert ábyrgt fyrir stjórn efnahagsmála. Það er gert með orðræðu um að gæta skal hófs í launakröfum á meðan fjármagnseigendur og auðstéttin fái sérstaka vinaafslætti við rekstur samfélagsins. Á meðan þarf almenningur að þola kaupmáttarskerðingu vegna stýrivaxtahækkana og aukinnar verðbólgu sem leyft er að renna beint út í verðlag.

„Stórir hópar launafólks hafa fundið fyrir kaupmáttarskerðingu vegna stýrivaxtahækkana og aukinnar verðbólgu. Það er á ábyrgð okkar að berjast gegn kaupmáttarskerðingu launafólks sem er til komin vegna ákvarðana stjórnvalda og Seðlabanka Íslands. Við erum ekki sátt við þá umræðu að launafólk beri ábyrgð á hagstjórn landsins á meðan fjármagnseigendur og auðstéttin eru á einhverjum sérstökum vinaafslætti við rekstur samfélagsins og í tekjuöflun fyrir ríkissjóð og sveitarfélög. Verð á nauðsynjavöru og þjónustu er velt áfram beint út í verðlagið, þrátt fyrir myndarlegan hagnað stórfyrirtækja, sem geta samviskulaust hækkað sína vöru á reglulausum markaði, og nú um áramótin lét ríkið ekki sitt eftir liggja.“

Þá segir Þórarin að jöfnun launa milli markaða sé þröskuldur sem þarf að yfirstíga áður en skrifað verði undir kjarasamninga við ríkið, Reykjavíkurborg og sveitarfélögin, eins og heildarsamtök á opinberum vinnumarkaði hafa sammælst um.

„Á síðasta ári var lagður enn meiri þungi í jöfnun launa milli markaða. Þar stóðu BSRB, KÍ og BHM þétt saman og Sameyki studdi af öllum mætti það mikilvæga verkefni. Við sjáum ekki til lands í verkefninu enn sem komið er, en það hefur komið skýrt fram meðal heildarsamtaka launafólks á opinberum vinnumarkaði að ríki, Reykjavíkurborg og sveitarfélögunum verði ekki gefinn neinn afsláttur í verkefninu. Samkomulagið hefur verið efnt af hálfu opinbers starfsfólks með því að jafna lífeyrisaldur milli vinnumarkaða, en unnið er að því hörðum höndum okkar megin frá að ríki, Reykjavíkurborg og sveitarfélög standi við gerðan samning og jafni launamuninn.“

Lesa má leiðaragrein Þórarins hér.

 

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)