Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

13. febrúar 2023

Áróður fjármagnseigenda gegn grunnþjónustunni ekki á rökum reistur

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda og Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.


Formaður BSRB, Sonja Ýr Þorbergsdóttir, gagnrýnir málflutning Félags atvinnurekenda, Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráðs um að störfum á opinbera vinnumarkaðnum fjölgi úr hófi. Hún bendir á, að þvert á móti hafi störfum á opinbera vinnumarkaðnum ekki fjölgað hlutfallslega, og segir fjölmargar stéttir í heilbrigðisþjónustu og menntageiranum ásamt umönnunarstörfum undirmannaðar.

„Samtök atvinnulífsins, Viðskiptaráð og nú síðast Félag atvinnurekenda hafa kosið að líta fram hjá þessum staðreyndum. Þess í stað mæta fulltrúar þeirra í hvert viðtalið eftir öðru og lýsa yfir óhóflegri fjölgun opinberra starfa og staðhæfa að laun á hinum opinbera markaði séu orðin sambærileg og á einkamarkaði. Á sama tíma og undirmannaðar stéttir í menntageiranum, heilbrigðisþjónustu og umönnunarstörfum takast á við verri afleiðingar Covid-19 á starfið en aðrar stéttir, hafa hagsmunasamtök atvinnurekenda og viðskipta kosið að eyða tíma og fjármunum í að reyna að afvegaleiða umræðuna til að þjóna hagsmunum fyrirtækja sem hafa það að meginmarkmiði að greiða sér út sem mestan arð.“

Sonja segir að í skýrslum Kjaratölfræðinefndar sýna að launin eru hæst á almenna markaðnum en launin hjá hinu opinbera eru almennt lægri þegar launasetning innan einstakra heildarsamtaka launafólks er borin saman.

„Þrátt fyrir þessa þróun hefur fjöldi starfsfólks hjá ríkinu staðið í stað sé miðað við fjölda stöðugilda á hverja 1.000 íbúa á árunum 2019-2022 samkvæmt upplýsingum frá Fjármálaráðuneytinu í desember s.l. Þrátt fyrir aukið álag hefur opinberum störfum þannig ekki fjölgað miðað við höfðatölu – það þýðir einfaldlega meira álag á opinbert starfsfólk og verri þjónusta fyrir almenning.“

Sonja segir að umræðan hér á landi eigi það til að vera í fyrirsagnastíl og stundum ekki á rökum reist.

„Nýjasta útspil Félags atvinnurekenda er af því tagi. Um er að ræða ein af fjölmörgum samtökum atvinnurekenda, sem græddu á þeim aðstæðum sem sköpuðust í heimsfaraldri kórónaveirunnar og vandséð hvað þau eru að leggja til samfélagsins með áróðri sínum. Það er þó ljóst að aukna skatta eða eftirlit vilja þau ekki.“

Lesa má grein Sonju hér.

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)