Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

8. mars 2023

Konur bera uppi velferðina

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir í aðsendri grein í tilefni alþjóðlegs baráttudags kvenna sem er í dag, að skapa þurfi meðvind fyrir konur í íslensku samfélagi. Í Sameyki eru konur í meirihluta félagsfólks og eru hlutföllin 62,9% konur og 37,1% karlar. Meðalaldurinn þeirra kvenna sem eru í Sameyki er 39,5 ár.

Sonja segir að hér á landi séu nær allar konur útivinnandi en um leið bera þær enn meginábyrðgina á börnun, öldruðum, veikum ættingjum og heimilinu. Þá segir hún að konur séu lengur frá vinnumarkaði en karlar eftir að hafa eignast börn og ekki sé enn búið að tryggja jafna skiptingu milli foreldra þrátt fyrir að fæðingarorlofið sé nú 12 mánuðir.

 

„Hér á landi eru nær allar konur útivinnandi en um þriðjungur þeirra er í hlutastarfi því þær bera enn meginábyrgðina á börnum, öldruðum eða veikum ættingjum og heimilinu. Konur eru enn lengur frá vinnumarkaði en karlar eftir að hafa eignast börn því að þrátt fyrir að fæðingarorlof sé orðið 12 mánuðir er ekki búið að tryggja jafna skiptingu milli foreldra né tekur leikskóli við börnunum strax að því loknu. Að meðaltali, yfir landið allt, eru þetta 7,5 mánuður sem þarf að brúa, sem kemur verst niður á þeim sem eiga ekki gott stuðningsnet eins og konur af erlendum uppruna. Öll þessi ólaunaða vinna kvenna skerðir þær tekjur sem hljótast af launuðum störfum þeirra út ævina – í launaþróun, starfstækifærum, starfsþróun og svo lífeyrisréttindum. Það hefur neikvæð áhrif á möguleika kvenna til fjárhagslegs sjálfstæðis sem er grundvöllur frelsis þeirra.“

Þá segir hún að konur af útlendum uppruna ekki metnar að verðleikum og staða þeirra á vinnumarkaði sé enn viðkvæmari en kvenna sem fæðast hér á landi. Hún segir að þær vinni frekar í einhæfum láglaunastörfum á vöktum og vinni frekar langan vinnudag. Þá er atvinnuleysi kvenna af útlendum uppruna hærra og þær leiti sér síður aðstoðar vegna ofbeldis.

Sameyki tekur undir varnaðarorð Sonju sem segir velferðina borna uppi á bökum kvenna og ekki sé ásættanlegt að þær séu látnar gera það þannig að þau bresti.

Hægt er að lesa grein Sonju Ýr Þorbergsdóttur, formanns BSRB hér.


Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)