Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

29. mars 2023

Ályktanir aðalfundar Sameykis

Frá aðalfundi Sameykis. Ljósmynd/Birgir Ísleifur Gunnarsson

Á aðalfundi Sameykis sem haldinn var í dag voru samþykktar eftirfarandi ályktanir sem lagðar voru fram af stjórn félagsins; um auðlindir þjóðarinnar, um að heilbriðgiskerfið sé opinber þjónusta, um áætlanir um að reisa vindmyllugarða, um efnahagsmál og skatta, og að lokum um niðurskurð ríkisstjórnarinnar á stofnunum ríkisins. Með þessum ályktunum vill Sameyki vara við þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar sem fram koma í þeim og hvetja stjórnvöld til aðgerða.


Auðlindir þjóðarinnar
Aðalfundur Sameykis krefst þess að ríkisstjórnin innheimti sanngjarnt gjald fyrir afnot af auðlindum þjóðarinnar fyrir ríkissjóð Íslands og gagnrýnir ríkisstjórnina harðlega fyrir það aðgerðaleysi sem hún sýnir í málefnum auðlinda þjóðarinnar. Í ljósi þess hvernig ríkisstjórnin hampar þeim sem nýta þjóðarauðlindir til eigin nota ætti hún að vinna að því að fá svo til allan arðinn til sín.

Auðlindaarðurinn er aðeins 2–3% prósent af landsframleiðslunni og ríkisstjórnin verður að snúa við stefnu sinni í að einkavæða arðinn af auðlindum í eigu þjóðarinnar og krefjast tekna til uppbyggingar innviða landsins. Umframhagnaður þeirra aðila sem nýta sér auðlindir þjóðarinnar skilar sér ekki í skattgreiðslum í ríkissjóð. Stjórnvöld þurfa nú þegar að beita sér í innheimtu þessara skatta og beita sér strax fyrir því að gera opinbert mat á verðmætum auðlindanna sem ríkisstjórnin hefur beitt sér gegn að láta framkvæma og hlíft þeim sem njóta arðsins í ræðu og riti.

Auðlindarentan í fiskveiðum og stóriðju sveiflast með verði á afurðunum. Þegar heimsmarkaðsverð á fiski og áli er hátt, eins og raunin er nú um stundir, verður auðlindaarðurinn gríðarlegur. Stóriðjan greiðir ekkert auðlindagjald og heldur ekki fiskeldið sem nýtir haf og firði til að rækta fisk. Í þeim löndum sem stjórnmálamönnum þykir gott að bera sig saman við á tillidögum er auðlindagjald eða skattur innheimtur af fiskeldi, til að mynda í Noregi, en það er ekki gert hér á landi. Stjórnvöld hafa þá stefnu að afhenda auðmönnum auðlindir þjóðarinnar. Sú aðferðafræði að þiggja brauðmolana er óþolandi fyrir þjóð sem kennir sig við velferð og samfélagslega ábyrgð.


Heilbrigðiskerfið er opinber þjónusta
Aðalfundur Sameykis mótmælir harðlega fjársveltistefnu ríkisstjórnar Íslands í heilbrigðiskerfinu þar sem tilgangurinn er augljós – að einkavæða þjónustuna. Ríkisstjórnin hefur lengi fjársvelt heilbrigðiskerfið og einungis einstök frammistaða starfsfólks í opinberri þjónustu sem starfar í heilbrigðiskerfinu og hefur lagt á sig ómælt og ómælanlegt erfiði heldur því gangandi við þröngan kost. Þó almenningur vilji að hið opinbera eigi að sjá um rekstur heilbrigðiskerfisins hefur einkavæðing í heilbrigðisþjónustunni aukist á síðustu árum.

Þannig hafa stjórnmálamenn gengið þvert gegn vilja þjóðarinnar í málaflokki sem almenningur telur einn af þeim mikilvægustu fyrir þjóðina. Það er þekkt aðferð að svelta stofnanir og tiltekna málaflokka svo megi einkavæða þá.

Talsmenn einkavæðingar í heilbrigðiskerfinu tala gjarnan um að ekki sé verið að einkavæða eitt né neitt, aðeins koma þjónustunni eða tilteknum þáttum hennar í einkarekstur. Þetta er hreinn útúrsnúningur sem virðist hafa þann eina tilgang að nota fallegra orð en einkavæðingu yfir einkavæðingarstefnu ríkisstjórnarinnar. Aukinn einkarekstur í heilbrigðiskerfinu er ekkert annað en einkavæðing á þjónustu sem veitt er almenningi og á að greiðast með almannafé. Slíkum einkarekstri er náð fram með opinberu stjórntæki í formi þjónustusamninga sem almenningur greiðir fyrir og gefur sjálfstæðum aðilum tækifæri til að taka fé út úr rekstri heilbrigðisþjónustunnar.

Aðalfundur Sameykis leggst alfarið gegn einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar og gjaldtöku sem byggir einungis á hagnaðarsjónarmiðum og krefst þess að almenningur fái þá þjónustu sem þörf er á án þess að þurfa að greiða þriðja aðila sérstaklega fyrir úr eigin vasa.


Vindmylluuppbygging á Íslandi
Aðalfundur Sameykis varar ríkisstjórn Íslands við þeim áformum auðmanna og landeigenda að reisa vindmyllugarða í stórum stíl á Íslandi, um 1000 vindmyllur á hátt í 40 landsvæðum í náttúru Íslands. Erlend stórfyrirtæki koma að uppbyggingunni og hafa fengið til liðs við sig fyrrverandi og núverandi þingmenn og ráðherra til að liðka til fyrir áformum sínum í íslenskri stjórnsýslu – og beita ríkisstjórnina áhrifum þegar kemur að vindorkuverum sem munu velta milljörðum króna. Það er skylda ríkisstjórnarinnar að vernda almenning og náttúru Íslands fyrir slíkum fyrirætlunum.

Náttúru Íslands verður að vernda fyrir komandi kynslóðir. Af þeirri raforku sem framleidd er fara 80% til stóriðju og stórnotenda, en 20% til almennings og smáfyrirtækja. Framvinda sölu á raforku inn á evrópskan markað mun hafa þau áhrif að verð á raforku fyrir íslensk heimili mun stórhækka með alvarlegum afleiðingum. Fyrirætlanir þessara aðila er að selja rafmagn á evrópskan markað með sömu aðferðafræði og viðgengst hefur hjá stórfyrirtækjum í álframleiðslu hér á landi; að koma hagnaðinum úr landi í gegnum erlent eignarhald með skuldsetningu.

Aðalfundur Sameykis mótmælir þessum áformum harðlega, að náttúra Íslands verði þannig gerð að verðmætum fyrir peningabraskara. Málflutningur ríkisstjórnar Íslands er ekki trúverðugur – að gera ráð fyrir að þjóðin þurfi 75% meiri orku sem nemur þremur Kárahnjúkavirkjunum til að mæta orkuskiptunum. Það er ekki trúverðugur málflutningur að klæða græðgi erlendra fyrirtækja sem hér ætla að reisa vindmyllugarða í búning orkuskipta, þegar þau ætla að gera það til að selja hana úr landi og valda almenningi miklu tjóni.

Aðalfundur Sameykis tekur undir orð samtaka um náttúru- og landvernd sem gera ráð fyrir fullum orkuskiptum án þess að virkja meira, með því að draga úr orkunotkun stóriðju sem aldrei hefur greitt tekjuskatt fyrir sína orkunotkun hér á landi.


Efnahagsmál og skattar
Launafólk hefur fundið fyrir kaupmáttarskerðingu vegna aukinnar verðbólgu og stýrivaxtahækkana undanfarið. Aðalfundur Sameykis mótmælir harðlega hvernig ríkisstjórnin situr hjá á meðan eldar kvikna í hagkerfinu. Aðalfundur Sameykis gagnrýnir viðbragðsleysi stjórnvalda sem er til komið vegna slæmra ákvarðana þeirra um að hækka álögur og opinber gjöld sem verst lenda á almennu launafólki. Á meðan hækka bankar vexti á húsnæðislánum og stórfyrirtæki sem sjá almenningi fyrir nauðsynjavöru hleypa auknum vaxtakostnaði út í verðlagið. Almenningur tekur höggið – fjármagnseigendur einungis vindhögg. Það er bæði óábyrgt og óásættanlegt að stjórnvöld láti launafólk bera þannig ábyrgð á hagstjórn landsins á meðan fjármagnseigendum og auðstéttinni er hlíft við sameiginlegum rekstri samfélagsins.

Ríkisstjórnin verður að grípa í taumana. Verð á nauðsynjavöru og þjónustu er svo velt áfram beint út í verðlagið, þrátt fyrir myndarlegan hagnað stórfyrirtækja, sem geta samviskulaust hækkað sína vöru á reglulausum markaði, og nú um áramótin lét ríkið ekki sitt eftir liggja.

Aðalfundur Sameykis telur það hafa alvarlegar afleiðingar fyrir launafólk að stórhækka gjöld og krónutöluskatta á almenning á sama tíma og stórfyrirtæki og fjármagnseigendur greiða 22% tekjuskatt af fjármagnstekjum sínum sem ekki stafa af atvinnurekstri en launafólk greiðir á bilinu 31,4–46,2% af sínum launatekjum.

Niðurskurður stofnana ríkisins
Aðalfundur Sameykis mótmælir harðlega áætlunum ríkisstjórnarinnar að skera niður opinbera þjónustu með því að segja upp starfsfólki, leggja niður stofnanir og fækka mikilvægum verkefnum sem þær sinna fyrir samfélagið. Forsætisráðherra segir að ríkisstjórnin sé einhuga um þessi áform til að ráðast að verðbólgunni og spara í ríkisútgjöldum án þess að tilgreina á hvaða innviði verði ráðist með niðurskurðarhnífnum. Á sama tíma hyggst ríkisstjórnin sækja auknar tekjur með því að auka álögur á launafólk með hækkandi gjöldum og skertri þjónustu stofnana. Þetta eru þakkirnar til opinberra starfsmanna fyrir að standa vaktina í stormi heimsfaraldursins og tryggja innviði samfélagsins.

Aðalfundur ályktar og bendir forsætisráðherra á leiðir sem færar eru til að verja kaupmátt launa í stað þess að ráðast að launafólki með skattahækkunum og skertri þjónustu opinberra stofnana ríkisins. Sú leið er að ríkissjóður afli tekna til að mæta útgjöldum með réttlátri og árangursmiðaðri skattheimtu á stóriðju, stórútgerðina, fiskeldi, fjármálastofnanir, fjármagnstekjur og hvalrekaskatt.

Aðalfundur Sameykis mótmælir harðlega fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar sem munu hafa alvarlegar afleiðingar fyrir launafólk og samfélagið allt ef þær ná fram að ganga. Forsætisráðherra notar orðræðu um að við þjóðin séum öll í þessu saman. Það er rangt því stjórnvöld undanskilja fjármagnseigendur, erlenda auðhringa, stórútgerðina, stórfyrirtæki og þá sem nýta auðlindir þjóðarinnar í eigin þágu.


Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)