Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

9. september 2024

„Hraðamet í eignaupptöku“

Þóararinn Eyfjörð.

Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis, skrifar í dag skoðanagrein, Þetta er alveg orðið ágætt, á visir.is. Þar segir hann að Seðlabankinn og ríkisstjórn Íslands sé að setja nýtt hraðamet í eignaupptöku með tilflutningi fjármagns og eigna frá almenningi til auðmanna. Hann gagnrýnir aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar og að stjórnvöld hafi eftirlátið seðlabankastjóra efnahagsstjórn landsins.

„Valdaklíkurnar í stjórnmálum og efnahagslífi þjóðarinnar láta ekki að sér hæða. Hægt en örugglega er auðlindum komið í hendur auðmanna og gildir þar einu hvort um er að ræða sjávarútveg, land, vatn, vind eða saltan sjó undir fiskeldi. [...] Seðlabankinn og ríkisstjórn Íslands eru trúlega að setja nýtt hraðamet í eignaupptöku með tilflutningi fjármagns og eigna frá almenningi til auðmanna. Seðlabankinn bjó til lántökukapphlaup með því að stilla stýrivöxtum í næstum því ekki neitt árið 2020, en heldur nú uppi glórulausum stýrivöxtum sem ætlað er að draga úr neyslu almennings og minnka verðbólgu. Þessir draumar Seðlabankans eru þó ekki að vinna á verðbólgunni því það er ekki almenningur sem hér er ábyrgur.“

Hann gerir að umtalsefni niðurstöður þjóðfundarins sem haldinn var í kjölfar efnahagshrunsins og segir að á fundinum hafi þjóðin viljað að þeir ráðandi kraftar sem móta ættu framtíðina væru heiðarleiki, jafnrétti og velferð.

„Undir þeim gildum ætti að tryggja heiðarleika, gagnsæi, jafnrétti kynjanna, efnahagslegt jafnrétti fyrir alla, sterka grunnþjónustu fyrir alla og lífsgæði fyrir alla. Ísland framtíðarinnar ætti að vera þjóðarinnar allrar.“

Þá segir formaður Sameykis að nú sé nóg komið og að taka verði upp regluverk á íbúða- og leigumarkaðnum með hagsmuni almennings í huga. Þar væri einnig tryggt að þjóðin nyti eigna sinna og auðlinda á sama tíma og réttmæt skattheimta skilaði sínu til samfélagsins.

Lesa grein formanns Sameykis hér á visir.is