9. september 2024
Málþing um jafnrétti í heilbrigðisþjónustu
Göran Dahlgren
ASÍ, BSRB og Öryrkjabandalag Íslands standa fyrir snörpu opnu málþingi um reynslu Svía af markaðsvæðingu í sænska heilbrigðiskerfinu fimmtudaginn 12. september næstkomandi. Sameiginlega standa samtökin að útgáfu bæklings eftir þau Göran Dahlgren og Lisu Pelling sem þýddur hefur verið á íslensku og fjallar um breytingar í sænska heilbrigðiskerfinu en bæði tvö hafa framsögu á fundinum. Rúnar Vilhjálmsson prófessor við Háskóla Íslands mun einnig ræða um hvert stefni í þessum efnum á Íslandi.
Göran Dahlgren er mörgum Íslendingum kunnur en vorið 2004 kom hann hingað í boði BSRB og flutti þá fyrirlestur þar sem hann varpaði fram þeirri spurningu hvort menn vildu fremur opinbera eða einkarekna heilbrigðisþjónustu. Fyrirlesturinn vakti mikla athygli og var hann gefinn út í bæklingsformi og fór víða. Þá má geta þess að ári fyrir þessa Íslandsheimsókn Görans Dahlgren hlaut hann Norrænu lýðheilsuverðlaunin og sagði í úrskurði dómnefndar að framlag hans hefði brotið blað á sviði jafnréttismála, aðferðafræði, stefnumótunar og skoðanamyndunar í nútíma lýðheilsustarfi. Eftir Göran Dahlgren liggja bækur og greinar og hefur hann verið fenginn til ráðgjafar víða um heim, meðal annars í þróunarríkjum, auk þess sem orð hans þykja vega þungt í sænskri heilbrigðisumræðu.
Lisa Pelling, sem er meðhöfundur Görans Dahlgren að fyrrnefndum bæklingi sem kynntur verður á málþinginu og ber heitið Jafnrétti í heilbrigðisþjónustu, mun einnig hafa framsögu á fundinum. Hún er ritstjóri rafræna miðilsins Dagens Arena auk þess sem hún er í forsvari fyrir rannsóknastofnunina Arena Idé. Sú stofnun starfar í nánum tengslum við sænsku verkalýðshreyfinguna.
Verkalýðshreyfingin skiptir máli
Það skiptir máli að verkalýðshreyfingin láti ekki einkavæða heilbrigðiskerfið fyrir framan nefið á sér nánast orðalaust. Reynslan frá Svíþjóð er sú að kerfisbreytingin sem býr í haginn fyrir einkavæðingu læðist iðulega aftan að andvaralausu samfélagi sem vaknar svo upp við vondan draum þegar vankantarnir koma í ljós. Þess vegna er mikilvægt að almenningur skilji eðli þessara breytinga. Um það fjallar málþingið sem fram fer í Eddu, Húsi íslenskra fræða við Arngrímsgötu og hefst það klukkan 13:30 en lýkur 15:30.
Þá verða veitingar og gefst ráðstefnugestum kostur á að ræða sín á milli. Málþingið fer fram á ensku.
Dagskrá
13:30 – Húsið opnar
14:00 – Sonja Ýr Þorbergsdóttir (BSRB) - Upphafsorð
14:10 – Göran Dahlgren - When the Swedish Health care system became a market – driving forces, effects and alternatives
14:55 – Lisa Pelling - Trade union strategies and responses towards marketisation of health care services – perspectives from Sweden
15:15 – Rúnar Vilhjálmsson - Reynslan frá Svíþjóð í íslensku samhengi
15:30 – Léttar veitingar