10. september 2024
„Nóg komið af svikum, prettum og lygi!“
Frá Austurvelli í dag. Ljósmyndir/Hari
Nokkur fjöldi fólks kom saman á Austurvelli í dag við þingsetningu Alþingis til að mótmæla aðgerðaleysi stjórnvalda í efnahagsmálum.
ASÍ, BSRB og KÍ stóðu fyrir fundinum og ræðumenn voru Magnús Þór Jónsson, formaður KÍ, Sonja Þorbergsdóttir, formaður BSRB, Halla Gunnarsdóttir, varaformaður VR, og Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis. Fundarstjóri var Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ræðumenn voru þungorðir og gagnrýndu ríkisstjórnina fyrir að taka ekki á þeim vanda sem ríkir á húsnæðismarkaði. Þá var kallað eftir því að stjórnvöld öxluðu ábyrgð gagnvart hárri verðbólgu og vöxtum.
Þá sagði Þórarinn að grunnþarfir almennings séu gerðar að gróðrarstíu fyrir fjármagnseigendur sem ryksugi upp íbúðamarkaðinn meðan almennt launafólk er látið blæða. „Við krefjumst þess að gripið verði til aðgerða sem gagnast almenningi og launafólki á Íslandi,“ sagði Þórarinn.
„Við krefjumst þess að stýrivextir verði lækkaðir að verðbólgunni verði þrýst niður og þeim meðulum beitt, sem skila árangri fyrir almenning í landinu. Við höfnum valdaklíkum í stjórnmálum og efnahagslífi þjóðarinnar, sem markvisst vinna að því að komast yfir eigur almennings. Við höfnum því að okkar sameiginlegu auðlindir séu færðar peningaöflunum að gjöf og gildir þar einu hvort um er að ræða sjávarútveg, land, vatn, vind eða saltan sjó.Það er nóg komið af svikum, prettum og lygi!,“ sagði Þórarinn Eyfjörð á Austurvelli í dag.
Hér er hægt að skoða ljósmyndir frá mótmælafundinum í dag.
Hér er hægt að lesa ræðu formanns Sameykis.