27. nóvember 2024
Rétturinn til mannsæmandi húsnæðis á viðráðanlegu verði
ETUC (Evrópska stéttarfélagasambandið) stendur fyrir ráðstefnu um húsnæðismál 5. december nk. í Brussel vegna samþykktar á framkvæmdastjórnarfundi Evrópuráðsins 15.–16. október sl. um yfirvofandi húsnæðiskreppu í Evrópu.
Á fundi framkvæmdastjórnar kom fram að of margt fólk í Evrópu á í erfiðleikum með að finna sér fullnægjandi, mannsæmandi húsnæði á viðráðanlegu verði. Leigu- og húsnæðisverð hefur einnig hækkað hraðar en launatekjur almennings sem hefur mjög neikvæð áhrif á fjárhag alls vinnandi fólks, fólks á lífeyri og fjölskyldna þeirra. Gæði húsnæðis eru of oft ófullnægjandi sem hefur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér; ört versnandi lífsskilyrði og verri heilsa fólks af þeim sökum.
Á sama tíma er húsnæðismarkaðurinn nýttur af spákaupmönnum sem hafa skapað sér gríðarlegan gróða. Um er að ræða mjög auðuga einstaklinga og fjárfestingarsjóði sem nýta sér húsnæðismarkaðinn til að græða peninga. Fáir hagnast meira á húsnæðismarkaðnum en spákaupmenn á meðan almenningur og launafólk á í erfiðleikum með að finna sér fullnægjandi húsnæði á viðráðanlegu verði ásamt því að ná ekki endum saman.
Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Ursula von der Leyen, lagði línur fyrir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fyrir árin 2024–2029 á fundinum, um að sérstök áhersla yrði lögð á húsnæðismálin, þar á meðal skuldbindingar um að þróa „fyrstu evrópsku áætlunina um húsnæði á viðráðalegu verði.“ Þessi áætlun og valdheimildir framkvæmdastjórans mega ekki hindra, heldur styðja við opinberar félagslegar húsnæðisstefnur og fjármögnun þeirra, né hafna innlendum eignarréttarkerfum.
ETUC um húsnæðismarkaðinn
„Rétturinn til fullnægjandi, mannsæmandi húsnæðis á viðráðanlegu verði er tryggður innan ESB – Evrópskum og alþjóðlegum lögum sem fjalla um mannréttindi. Nálgun ESB í húsnæðismálum þarf að byggja á þessum réttindum,“ segir í fréttatilkynningunni vegna fundarins 5. desember nk. „Fyrirhuguð framkvæmdaáætlun EPSR (European Pillar of Social Rights) ætti að fela í sér metnaðarfullar aðgerðir framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins til að tryggja rétt almennings um öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði.
Mantran „einkaaðilar fram yfir opinbera aðila“ hefur haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir íbúa Evrópu; afnám reglugerða, fjármagnsvæðing og spákaupmennska hafa haft hrikalegar afleiðingar fyrir húsnæðismarkaðinn innan ESB. Það þarf að eiga sér stað raunveruleg stefnubreyting. Við, innan ETUC, leggjum áherslu á þá staðreynd að niðurskurðarstefnan samræmist ekki því fjárfestingarátaki sem nauðsynlegt er til að tryggja fulla virðingu fyrir réttinum til fullnægjandi og mannsæmandi húsnæðis á viðráðanlegu verðu alls staðar innan Evrópu.
Við köllum eftir því að stofnanir Evrópusambandsins taki fullan þátt í þróun húsnæðisstefnu ESB á félagslegum grunni sem fela í sér evrópska áætlun um húsnæði á viðráðanlegu verði fyrir alla. Slík húsnæðisstefna á að fela í sér eftirfarandi:
• Að tryggja hærri laun og betri starfsskilyrði í byggingariðnaði, meðal annars með reglugerðum og takmörkunum á undirverktöku;
• Aðgerðir gegn spákaupmennsku stórra fjármagnsaðila, hækka skatta á hagnað og auð, tryggja sanngjarna og framsækna skattlagningu á fasteignir, letja vannotkun eða uppsöfnun eigna, og framfylgja og styrkja reglugerðir ESB um skammtímaleigu sem hefur mikil áhrif á húsnæðiskostnað og framboð húsnæðis á ferðamannasvæðum;
• Þegar kemur að því að byggja og selja húsnæði á viðráðanlegu verði skiptir miklu máli óhagnaðardrifin húsnæðismarkaður / félagslegt húsnæði lykilhlutverk til að auka uppbyggingu húsnæðis;
• Auknar fjárfestingar í óhagnaðarmiðuðum lausnum eins og félagslegu húsnæði með stuðningi fjárfestingasjóða ESB, sveigjanleika í beitingu hagstjórnunarreglna og fókus í ráðgjöf fyrir sveitarfélögin sem koma að uppbyggingu húsnæðis.
ETUC leggur áherslu á að húsnæðisstefnur verði að taka mið af þörfum allra kynslóða og kynja.“