Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

9. janúar 2025

Formaður BSRB segir þingmann Sjálfstæðisflokksins fara með rangt mál um opinbera starfsmenn

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, th. og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, 1. þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður, fyrrv. dómsmálaráðherra, fyrrv. háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og fyrrum ritari Sjálfstæðisflokksins, hafi annað hvort farið með rangt mál um opinbera starfsmenn þegar hún sagði að ekki væri hægt að fækka opinberum starfsmönnum eða hún hafi verið vísvitandi að ljúga að þjóðinni.

Í Silfrinu sl. mánudag sagði Áslaug Arna að fækka þyrfti opinberum starfsmönnum um 30 prósent og það væri hennar ráðleggingar til nýrrar ríkisstjórnar að gera það. Þá fullyrti hún að í lögum um opinbera starfsmenn gæfu þeim „gríðarleg réttindi“ því ekki væri hægt að segja þeim upp störfum. Sonja Ýr bendir Áslaugu Örnu á í pistli á Facebook að sú fullyrðing hennar sé beinlínis röng.

„Þetta tveir slæmir valkostir – að hún hafi ekki vitað eða viljandi sagt rangt frá. Í ljósi þess að mörg eru of víða um heim beinlínis að ljúga til að afla sínum málflutningi stuðnings eða afvegaleiða hana og umræðan er að verða svo galin og sundrandi - þá óttast ég það meira ef hún er viljandi að fara rangt með.“

Sonja Ýr segir að svipaðar reglur gilda á opinberum og almennum vinnumarkaði þegar standi til að segja upp starfsfólki ríkis og sveitarfélaga. Um uppsagnir opinberra starfsmanna sé ekki lagalegur ágreiningur og ekkert sé í lögum né kjarasamningum um að ekki sé hægt að segja upp starfsfólki ríkisins sé það gert með réttum hætti. Í lok pistils formanns BSRB segir hún þennan málflutning gegn opinberu starfsfólki sem sinnir grunnþjónustu ríkisins vera galin.

„Það er líka galið að við séum með sérhagsmunasamtök og fylgitungl þeirra sem eru að kynda undir andúð á opinberum starfsmönnum, ýta undir skoðanir þess efnis að þeir séu óþarfir, þeir hafi það svo allt of gott bara til þess að skapa tækifæri fyrir örfáa einstaklinga að græða sem mest á heilsuleysi fólks eða þörf þeirra fyrir þjónustu vegna aldurs eða fötlunar. Ég vona að fólk átti sig á því þegar það fer með möntruna að opinberir starfsmenn hafi það svo gott að langflest þeirra starfar í heilbrigðisþjónustu, menntun og félagsþjónustu í krefjandi störfum og það eru stærstu fyrirtæki og launahæsta fólk landsins sem er að planta þessum ömurlegu hugmyndum,“ segir Sonja Ýr á Facebook.

Pistill Sonju Ýr, formanns BSRB, í heild sinni á Facebook.