5. febrúar 2025
Þéttingarstefnan komin á endastöð

Björn Traustason, framkvæmdastjóri Bjargs íbúðafélags. Ljósmynd/Axel Jón
Björn Traustason, framkvæmdastjóri Bjargs íbúðafélags, segir í viðtali í Tímariti Sameykis að félagið gæti byggt miklu fleiri íbúðir. Hann segir að þéttingarstefnan sé komin á endastöð og vill brjóta nýtt land í Úlfársárdal þar sem skipulagt hafði verið tíu þúsund íbúða hverfi en sú uppbygging hafi verið stöðvuð.
„Þéttingarstefnan er komin á vissa endastöð vegna þess að allir hagkvæmustu reitirnir eru farnir og bara dýrustu verkefnin eftir. Það hentar ekki Bjargi og við höfum alla tíð sagt það. Við höfum heldur ekki barist gegn þéttingarstefnunni því það er gott að nýta innviði sem fyrir eru og nýta landið sem er laust innan þess til nýbygginga. En um leið á ekki að útiloka að brjóta nýtt land undir byggð samhliða því. Um er að ræða sitthvora húsnæðisþörfina. Þéttingarreitirnir eru dýrir og þá verða íbúðirnar of dýrar fyrir venjulegt og harðduglegt launafólk sem er í okkar hópi og er ekki sá markhópur fyrir íbúðir á þessum þéttingarreitum.“
Þá segir Björn sú uppbygging sem skipulögð hafi verið í Úlfársárdal hafi verið stöðvuð með einu pennastriki.
„Byggingarlandið í Úlfarsárdal er hagkvæmt því þar eru fyrir innviðir. Þar var skipulagt á sínum tíma 10 þúsund íbúða byggð en aðeins er búið að byggja u.þ.b. 1400 íbúðir. Þá tók pólitíkin upp á því að draga línu í sandinn og stöðvaði uppbyggingu nýrrar byggðar, ekki vegna þess að byggingarlandið væri ekki til staðar, heldur vegna þess að sett voru ný vaxtarmörk byggðarinnar. Þetta var pennastriksákvörðun. Mannanna verk. Það er vel hægt að færa þessa línu til á ný, fylgja áður gerðu skipulagi og opna fyrir þessa byggð.“
Björn ræðir í viðtalinu um Bjarg íbúðafélag, upphaf þess og tilgang.
Lesa má viðtalið við Björn hér.