5. febrúar 2025
„Við eigum ekki að þurfa að verða fyrir ítrekuðu ofbeldi“

Jenný Kristín Valberg, teymisstýra Bjarkarhlíðar. Ljósmynd/BIG
Í nýjasta Tímariti Sameykis er viðtal Jennýju Kristínu Valberg, teymisstýru Bjarkarhlíðar um birtingarmyndir ofbeldis eru gegn konum í nánum samböndum en líka hvernig gerendur beita ofbeldi á vinnustöðum.
Jenný Kristín segir að litlar lagalegar heimildir séu til staðar fyrir þolendur til að bregðast við gerendum ofbeldis.
„Eins og ég hef áður sagt þá er ábyrgðin öll á þolandanum, og heimildir lögreglu eru of litlar og koma ekki til skjalanna fyrr en ofbeldið er orðið það alvarlegt; ítrekuð eltihrellahegðun, ítrekað líkamlegt ofbeldi, ítrekað kynferðislegt ofbeldi og kyrkingartök. Við eigum ekki að þurfa að verða fyrir ítrekuðu ofbeldi. Höfum það í huga að eitt atvik hefur gríðarleg áhrif á líf og líðan þolanda, hvað þá heldur ítrekað.
Við eigum að hætta að vera hrædd við umræðuna um gerendur. Okkur á ekki að detta það í hug að ofbeldi lagist af sjálfu sér – að það bara hætti einn daginn. Þessi opna umræða um ofbeldi í nánu sambandi hefur sem betur fer skilað sér í því að þolendur leiti sér hjálpar. Gerendur þurfa að gera miklu betur því við þekkjum það að þeir leita sér ekki hjálpar af sjálfsdáðum. Þeir aðilar sem hafa mögulega snertifleti við gerendur; lögregla og félagsþjónustan, vinnuveitendur – það þarf að efla heimildir þeirra til inngrips þannig að það verði hægt að loka þessum ofbeldishring í eitt skipti fyrir öll.“
Hún segir í viðtalinu að vel sé hægt að koma auga á einkennin hjá fólki sem beitt er ofbeldi á vinnustað. Þau komi fram í að hegðun þolandans breytist með áberandi hætti, t.d. að hann einangri sig frá vinnufélögum, taki ekki þátt í félagslífi á vinnustaðnum, taki síður þátt í umræðum og haldi sig almennt til hlés. Ábyrgð yfirmanna á vinnustað er því mikil og geta rétt viðbrögð þeirra haft mikið að segja um hvort ofbeldið heldur áfram eða er upprætt. Hún segir að oftast sé ofbeldi framið í nánum samböndum en líka inni á vinnustöðum – sem birtist m.a. í að útiloka fólk, skapa umræðu sem grefur undan samstarfsfólki eða einstaklingi á vinnustaðnum.
„Slíkir yfirmenn á vinnustað sem grafa undan trausti, kúga fólk og með því láta það efast um hæfni sína, líta yfir öxl þess, refsa því með því að hunsa það, útiloka það frá verkefnum o.s.frv. eru gerendur andlegs ofbeldis og má segja að séu okkar helsta áskorun – hvað eru góð og heilbrigð samskipti á vinnustað og reyndar í samfélaginu öllu? Við sjáum víða óheilbrigð samskipti út um allt á vinnustöðum, það sem við köllum „eitraðan þríhyrning“ þar sem tveir eru að tala illa um þann þriðja og fara svo á milli til að grafa undan einstaklingnum. Þetta er mjög skemmandi og einungis gert til að ná fram eigin vilja og stjórn. Gerendur gera þetta til að ýta öðrum niður. Þetta getur einnig átt sér stað milli foreldra og barna, milli vina, eins á milli yfirmanna og starfsfólks og samstarfsaðila. Þá gerist þetta þegar starfsfólk er t.d. að sækjast eftir starfi eða stöðuhækkun. Yfirmaður sem er gerandi ofbeldis bregst oft við með því að segja: „Já flott hjá þér, en þú hefur nú alltaf litið svolítið stórt á þig,“ og dregur þannig úr viðkomandi og jafnvel kemur í veg fyrir að viðkomandi fái starfið sem sóst er eftir, eða stöðuhækkunina.“
Lesa má viðtalið í heild sinni hér.