Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

6. maí 2025

Starfsfólkið eins og ein stór fjölskylda

Kristín Helgadóttir.

„Ég er bara ein af hópnum og er bara í gallabuxum og strigaskóm í vinnunni eins og hinir. Mér finnst mikilvægt að taka þátt í öllu sem verið er að gera.“

  Eftir Bjarna Brynjólfsson
Ljósmyndir: Birgir Ísleifur Gunnarsson
 

Kristín Helgadóttir stýrir leikskólanum Lyngheimum í Grafarvogi en leikskólinn fékk viðurkenningu sem Stofnun ársins 2024 í flokki meðalstórra starfsstöðva hjá Reykjavíkurborg. Lyngheimar hafa fjórum sinnum áður skorað mjög hátt í könnuninni um Stofnun ársins og verið valdir fyrirmyndarstofnun.

Tvö stór veggspjöld, sem sýna að Lyngheimar eru Stofnun ársins 2024 og Fyrirmyndarstofnun 2023, taka á móti börnum, aðstandendum og gestum við aðalinngang leikskólans.

Inni er líf og fjör en allt í röð og reglu. Á móti mér tekur brosandi kona og heilsar alúðlega. Það er Kristín Helgadóttir leikskólastjóri. Kristín hefur starfað lengi á leikskólanum og var áður aðstoðarleikskólastjóri. Hún segir að starfsmannavelta á leikskólanum sé lítil og hlutfall fagmenntaðra leikskólakennara hátt.

Fyrrverandi leikskólabörn meðal starfsfólks

Hún segir að Lyngheimar sé svokallaður sköpunarleikskóli sem starfi í anda ítölsku stefnunnar sem kennd er við héraðið Reggio Emilia.

„Við höfum skýr fagleg markmið, sem skiptir miklu máli, bæði fyrir starfsfólkið og börnin. Það munar svo sannarlega um að hafa sterkt faglegt starfsfólk,“ segir Kristín en um 26 manns vinna á leikskólanum að jafnaði.

Í hópnum eru nokkrir erlendir starfsmenn sem hafa aðlagast vel. Þá er nokkuð um ungt fólk sem vinnur í afleysingum. Þar af eru nokkur sem áður voru börn á leikskólanum, sem Kristínu finnst mjög „krúttlegt“. Þótt ekki séu margir karlmenn starfandi á Lyngheimum frekar en öðrum leikskólum eru þeir samt nokkrir. Þá hefur starfsfólk, sem hefur breytt um starfsvettvang eða farið í nám, oftar en ekki komið aftur til starfa á leikskólanum.

Eins og blóm saman í vasa

„Einn starfsmaður orðaði það við mig eitt sinn að starfsfólkið hérna væri eins og ein stór fjölskylda. Mér fannst vænt um það álit. Önnur kom með nokkuð sniðuga samlíkingu. Hún sagði að við værum eins og blóm í vasa, öll með okkar eigin ilm og ólík en saman í vasanum,“ segir Kristín og brosir.

Hún útskrifaðist úr Fósturskóla Íslands og hefur hvorki tekið meistaragráðu né nám í stjórnun, en hefur langa og mikla reynslu af stjórnunarstörfum á leikskóla. Kristín hefur hlýtt bros og jákvæða nærveru og ég hef orð á því við hana.

„Já, maður verður að hafa ánægju af vinnunni til að allt gangi upp. Það er vissulega gott að hafa nám í stjórnun sem bakgrunn en ég trúi því samt að margt í stjórnun almennt sé í fari manns sjálfs.“

Hún kveðst leggja upp úr að taka þátt í öllu sem starfsfólkið gerir. „Ég er bara ein af hópnum og er bara í gallabuxum og strigaskóm í vinnunni eins og hinir. Mér finnst mikilvægt að taka þátt í öllu sem verið er að gera.“

Gerðu starfsmannaaðstöðuna hlýlegri

Þegar Kristín tók við sem leikskólastjóri fannst henni mikilvægt að bæta starfsmannaaðstöðuna umtalsvert. Hún segir að það skipti máli varðandi vellíðan starfsfólksins og einnig nemendanna. Þá sé mikilvægt að kennarar eigi sér athvarf í notalegri setustofu.

„Hér var svolítið þungt yfir öllu og við fórum markvisst í að bæta starfsaðstöðuna í skólanum og koma á skýru skipulagi. Við bjuggum til rúmgóða og fallega kaffistofu og settum fallegar mottur á gólfin. Ég legg líka upp úr því að hafa árstíðabundnar skreytingar á vinnustaðnum til að lífga upp á tilveruna. Það er alltaf notalegt að koma með eitthvað óvænt á kaffistofuna.“

Upplýsingagjöf mikilvæg

Kristín segir að lykillinn að góðum árangri í könnun Sameykis um stofnun ársins sé m.a. byggður á framangreindu en jafnframt að skipulag og stjórnun byggi á festu.

Reglulegir fundir eru haldnir með kennurum og þar er Kristín með markvissa upplýsingagjöf um starfið framundan og umræður um hvað hefur verið að gerast í starfinu, svo allir séu vel upplýstir um það sem er að gerast í skólanum. Hver og einn starfsmaður þekkir sitt hlutverk og allir taka á hlutunum saman ef leikskólinn þarf á að halda.

„Það er mikilvægt að bera virðingu fyrir fólkinu sínu og hafa mjög gott skipulag og upplýsingaflæði, ásamt að gæta að því að hafa starfsumhverfi fyrir börnin og starfsfólkið eins gott og kostur er,“ segir Kristín.

„Við reynum að hafa alla með í sama liðinu; kennarana, foreldrana og börnin. Ég og mín hægri hönd Guðlaug Gísladóttir aðstoðarleikskólastjóri erum alltaf til staðar. Ég vinn alltaf aðeins inni á deild líka og legg mig fram um að koma inn á hverja einustu deild í skólanum á hverjum degi og læt það sem er að gerast þar skipta mig máli. Þá sest ég með starfsfólkinu í hádeginu ef ég hef lausa stund. Svo skiptir einnig máli að maður sé drífandi sjálfur. Við erum með gönguhóp og þótt allir mæti ekki alltaf þá er gott að gera eitthvað saman.“

Hún kveðst stjórna mannauðsmálunum sjálf ásamt aðstoðarleikskólastjóranum. „Ef taka þarf á einhverjum málum þá göngum við í það saman. Og við tökum á því strax. Ef málið er ekki á mínu sérsviði þá leita ég til mannauðsstjórans á fagsviðinu til að spegla mig. Ég leita mér alltaf aðstoðar því ég er ekki sérfróð í öllu eins og gefur að skilja.“

Telur að jákvæðni hafi mikið að segja

Vinnið þið eftir EKKO-stefnunni?

„Við erum með aðgerðaáætlun ef mál sem heyra undir þá stefnu koma upp. Við erum með góða handbók fyrir starfsmenn þar sem eru alls konar góðar upplýsingar. Slík mál hafa ekki komið oft upp hjá okkur en auðvitað kemur alltaf eitthvað missætti upp á löngum tíma,“ segir Kristín og bætir við að leikskólinn sé ekki frábrugðinn öðrum vinnustöðum hvað það snerti.

„Fólkið okkar er yfirleitt mjög jákvætt og talar um að það sé gott að koma hérna inn og gott að mæta í vinnuna. Ef það er þannig hefur maður náð góðum árangri. Ég tel að jákvæðni hafi mikið að segja og betra að tala frekar um lausnir en vandamál. Maður þarf að vera tilbúinn í verkefnið frá degi til dags. Stjórnandinn verður að hafa áhuga á málum sem fólk er að vinna í.“

Hvernig bregðist þið við ef upp kemur óánægja í starfsmannahópnum?

„Á haustin þegar við hefjum skipulagsvinnu fyrir veturinn hvet ég fólk til að koma til mín ef það er óánægt með eitthvað. Við reynum alltaf að finna lausnir saman. Það er mikilvægt að fólk fái áheyrn með óánægju sína.“

„Ég vinn alltaf aðeins inni á deild líka og legg mig fram um að koma inn á hverja einustu deild í skólanum á hverjum degi og læt það sem er að gerast þar skipta mig máli.“

Gerum margt til að hrista hópinn saman

Starfsfólkið á Lyngheimum fagnaði að sjálfsögðu nafnbótinni Stofnun ársins.

„Við fórum nokkur saman á athöfnina og það var skemmti­legt. Starfsfólkið valdi sér síðan að fara saman í pizzu og keilu. Núna erum við í svokölluðu Heillasporaverkefni en sú stefna á upphaf sitt í Glasgow. Við erum öll á leiðinni þangað í apríl og ætlum að heimsækja skóla sem er í þessu verkefni þar. Það er mikil spenningur fyrir þeirri ferð. Við gerum líka ýmislegt til að hrista hópinn saman og hafa gaman, en við erum með skemmtinefnd sem skipuleggur viðburði.“

Kristín segir Reykjavíkurborg búa vel að skólanum og kveðst hafa mikið frelsi til að stýra sínum skóla.

„Okkur skortir ekkert og fólkið mitt kvartar ekki yfir að eitthvað vanti. Við endurnýjum reglulega allan efnivið og búnað fyrir starfsfólk. Þetta er vel búinn skóli,“ segir hún hress í bragði.