13. maí 2025
Þýðir ekki að koma pirruð í vinnuna

Sigríður María Einarsdóttir forstöðukona Rökkvatjarnar.
„Við sem hér störfum veitum fólki með fötlun þjónustu við allar athafnir daglegs lífs. Við erum sjö sem störfum hérna í fullu starfi og svo bætist við starfsfólk um helgar, á kvöldin og á næturvöktum.“
![]() |
Eftir Axel Jón Ellenarson Ljósmyndir: Birgir Ísleifur Gunnarsson |
Hástökkvari ársins í mannauðskönnuninni Stofnun ársins 2024 fór upp um 66 sæti frá síðustu könnun. Vinnustaðurinn er íbúðakjarninn Rökkvatjörn í Úlfársárdal í Grafarholti sem er heimili fólks með fötlun. Þar búa sex einstaklingar og 19 starfsmenn vinna við þjónustuna í ellefu og hálfu stöðugildi.
Forstöðukona Rökkvatjarnar er Sigríður María Einarsdóttir, sálfræðingur frá Háskóla Íslands, og segir hún að það hafi komið sér á óvart að vinnustaðurinn hafi hlotið þessa viðurkenningu.
Sigríður María hefur starfað í Rökkvatjörn frá því hún útskrifaðist úr háskólanum, fyrst sem stuðningsráðgjafi, þá sem deildarstjóri eftir ár og tók svo við hlutverki forstöðumanns í byrjun þessa árs. Starfshópurinn er blandaður, að mestu fólk á aldrinum 20–30 ára en einnig eldri, sem skiptir máli vegna fjölbreytileika og reynslu að sögn Sigríðar Maríu.
Áhersla lögð á að virkja íbúa til þátttöku í samfélaginu
„Við sem hér störfum veitum fólki með fötlun þjónustu við allar athafnir daglegs lífs. Við erum sjö sem störfum hérna í fullu starfi og svo bætist við starfsfólk um helgar, á kvöldin og á næturvöktum. Við leggjum mikla áherslu á að virkja íbúana til þátttöku í samfélaginu og skipuleggjum ferðir á bókasöfn, sundferðir, leikhúsferðir, gönguferðir og ýmsar athafnir sem fylgja daglegu lífi fólks. Þá reynum við að fara á viðburði í miðborginni því það er mikilvægt að virkja fólk með fötlun í samfélaginu. Það má ekki einangrast heima hjá sér. Þess vegna skiptir vellíðan starfsfólks á vinnustaðnum miklu máli.“
Sigríður María segir að á síðasta ári hafi Eva Dögg Júlíusdóttir, sem starfar í íbúðakjarnanum í Starengi 6, komið inn með öflugum hætti og hjálpað að endurskipuleggja starfsemina. Það hafi breytt miklu um hvernig starfsandinn þróaðist til betri vegar og aðferðirnar sem hún notaði breytt samskiptum á vinnustaðnum.
„Eva Dögg, ásamt stuðnings- og stjórnendateymi frá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar, hafði hrundið af stað umbótavinnu fyrir Rökkvatjörn með það að markmiði að fara yfir alla þætti starfseminnar og bæta úr því sem betur mátti fara. Ástæða þessa var að ekki var nógu góður starfsandi á vinnustaðnum og mikill vilji var til að bæta úr því. Starfsfólkið var ekki nógu sátt í vinnunni og fannst að ekki væri á það hlustað. Það skipti mestu máli að snúa því við, þannig að starfsfólkið fyndi að á það væri hlustað og tekið væri mark á áliti þeirra, en líka að það gæti haft áhrif á störf sín. Í þessu umbótastarfi var farið í að búa til nýjar verklýsingar og einstaklingsáætlanir með starfsfólkinu. Þannig skapaðist traust um að fólk hefði eitthvað að segja um hvernig störfin væru unnin á vinnustaðnum,“ útskýrir Sigríður María.
Yfirmenn segja ekki starfsfólki fyrir verkum
Sigríður María segir að stigveldi í stjórnun skili ekki bestum árangri í mannauðsmálum í Rökkvatjörn. Til að skapa vellíðan meðal starfshópsins þarf að jafna stigveldið þannig að starfsfólkið taki virkan þátt í hvernig störfin eru mótuð. Hver og einn axlar sína ábyrgð en ekki eingöngu yfirmaður á vinnustaðnum.
„Við látum hvern og einn starfsmann vita af því að hann skipti máli í starfinu; að framlag hvers og eins sé mikilvægt. Við gerum það t.d. með hrósi fyrir vel unnin störf og svo höldum við upp á afmæli með því að færa afmælisbarninu köku á vinnustaðnum í tilefni dagsins. Það skapar gleði og samstöðu í starfsmannahópnum. Við erum meðvituð um að enginn einn ræður öllu, ekki einn yfirmaður ræður yfir öðrum. Það skiptir máli að fólki sem vinnur með íbúunum hérna líði vel og því finnist gaman að koma í vinnuna. Allt hefur áhrif í því sambandi. Við látum fólk vita af því sem vel er gert í þeirra störfum því það er auðvitað gott að byggja upp jákvæðni á vinnustaðnum og það er valdeflandi fyrir alla.“
Vinna áfram að eflingu vinnustaðarins
Sigríður María segir að unnið verði áfram við að efla vinnustaðinn, gera hann betri og að fólki líði vel og hlakki til að mæta í vinnuna, enda sé vellíðan starfsfólks í Rökkvatjörn forsenda góðrar þjónustu við íbúana sem þau vinni með.
„Við munum halda áfram, rýna í niðurstöðurnar úr mannauðskönnuninni og vinna úr þeim. Við ætlum að halda áfram að vinna með þá þætti sem komu vel út í könnuninni og bæta okkur enn frekar. Ég vinn t.d. með þjónustumiðstöð Reykjavíkurborgar þar sem er mannauðsráðgjafi til staðar og leiðbeinir okkur ef á þarf að halda. Til stendur að kynna okkur EKKO-stefnu fyrir vinnustaðinn sem er hluti af góðri mannauðsstefnu, en að því sögðu er Reykjavíkurborg með slíka stefnu sem í raun gildir fyrir okkur sem starfsmenn borgarinnar. Ég er að kynna mér þessi EKKO-mál sem spurt var um í könnuninni. Við viljum líka fyrirbyggja að upp komi óánægja í starfsmannahópnum og það gerum við best með að halda reglulega starfsmannafundi þar sem starfsfólk getur rætt um það sem það langar til og einnig að bjóða til starfsmannaviðtala. Ég vil líka að fólk finni að því er frjálst að ræða allt sem það langar til við stjórnendur vinnustaðarins hvenær sem er og því sé vel tekið. Til að koma í veg fyrir að óánægja vindi upp á sig þarf að ræða um hana og leysa úr henni.“
Hún segir að trúnaðarmaður á vinnustaðnum skipti miklu máli. „Við fengum góða kynningu á störfum trúnaðarmannsins hjá Sameyki. Við viljum að okkar starfsfólk þekki hlutverk hans vel og viti að það getur leitað til trúnaðarmannsins ef svo ber undir,“ segir Sigríður María.
„Það var ótrúlega hvetjandi og ánægjulegt að fá þessi verðlaun á Stofnun ársins.“
Bjuggumst ekki við neinu á Stofnun ársins
„Það var ótrúlega hvetjandi og ánægjulegt að fá þessi verðlaun á Stofnun ársins. Við mættum þarna bara tvö, ég og samstarfsmaður minn Garðar Þór Pétursson, deildarstjóri, og bjuggumst ekki við neinu. Ég vil ítreka að þessi könnun er mjög mikilvæg, því í henni fá allir að segja sitt um sinn vinnustað og hægt er að vinna með niðurstöðurnar til að skapa betri vinnustað og bæta mannauðsmálin. Við fórum upp um 66 sæti í könnuninni og það gerðist vegna þess að við tókum upp nýtt sjónarhorn á hvernig við ætlum að vinna hérna, eins og ég lýsti áðan. Þú getur ekki mætt á vakt í þessu starfi og verið bara pirraður, við vitum það. Við vitum líka að ef okkur líður vel í vinnunni og hlökkum til að mæta smitast það áfram til íbúanna. Þau finna að þér líður vel því við erum að vinna inni á heimilum fólks og samskiptin eru mjög náin,“ segir Sigríður María að lokum.