Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

19. maí 2025

„Gott fyrir móralinn þegar allir vinna saman“

„Við starfsfólkið greindum vandamálin í starfseminni, ræddum lausnir og teiknuðum upp verkferla.“

„Starfsfólki líður alltaf betur þegar það veit nákvæmlega til hvers er ætlast af því. Einnig er mikilvægt að treysta starfsfólkinu og vera ekki að anda ofan í hálsmálið á því. Traust er eitthvað sem fólk vinnur sér inn.“

 Eftir Bjarna Brynjólfsson
Ljósmyndir: Birgir Ísleifur Gunnarsson

Kvikmyndasafn Íslands hlaut viðurkenninguna Stofnun ársins 2024 í hópi lítilla ríkisstofnana. Þóra Sigríður Ing­ólfsdóttir forstöðumaður Kvikmyndasafnsins er hæstánægð með viðurkenninguna sem hún segir mjög mikilvæga.

Hraglandi lemur andlitið þegar ég sting mér inn í gamla frystihúsið í Hafnarfirði sem hefur breytt um hlutverk, en þar eru nú kældar filmur. Þóra Sigríður forstöðumaður tekur á móti mér í anddyrinu. Þar trónir einnig glæsilegur langur verðlaunagripur frá Sameyki, skorinn úr ryðfríu stáli, um að Kvikmyndasafnið sé Stofnun ársins 2024. Í stað þess að hýsa freðinn fisk eru stórar frystigeymslurnar nú nýttar til þess að varðveita kvikmyndarf þjóðarinnar, en geyma þarf filmur í vel kældu húsnæði. Þóra Sigríður sýnir mér húsakynnin. Um leið og við förum um safnið kynnir hún starfsfólkið sem vinnur að því að hlúa að munum safnsins og vernda fyrir ágangi tímans. „Við erum tíu hérna,“ segir Þóra Sigríður þegar við höfum komið okkur fyrir á notalegri skrifstofu hennar. „Við myndum gjarnan vilja vera 20. Það er nóg að gera en fjármagnið er takmarkað.“

„Við gerum það markvisst með því að kalla inn efni frá öllum kvikmyndagerðarmönnum, allar nýjar og styrktar myndir en einnig þær sem eru ekki styrktar af Kvikmyndasjóði.“

Kynjahlutfallið hefur jafnast

Er þetta góður hópur?

„Já, sérstaklega. Við erum með sérfræðinga í endurgerð og skönnun á filmum og sérfræðing sem er að rannsaka fyrstu kvikmyndagerðarmennina á Íslandi. Hér er einungis fólk sem brennur fyrir kvikmyndum, sem er kannski stóra málið varðandi það að starfsemin gangi upp.“ Þóra Sigríður var skipuð forstöðumaður Kvikmyndasafnsins 2019. Hún var áður forstöðumaður Hljóðbókasafns Íslands þar sem hún tókst á við svipað verkefni við að stafvæða safnkost­inn af segulböndum og kasettum. Þegar hún hóf störf hjá Kvikmyndasafninu var starfsfólkið þar færra. Hún segir að kynjahlutfallið hafi jafnast eftir að hún hóf störf. „Þetta hefur bara einhvern veginn gerst og ekki endilega verið einbeittur ásetningur af minni hálfu, en ég er hins vegar mjög ánægð með þetta.“

Fóru í mikla skipulagsvinnu

Hverjar voru þínar helstu áskoranir þegar þú tókst við þessu starfi fyrir sex árum?

„Þær voru margar. Ég er bókmenntafræðingur í grunninn en svo er ég líka menntuð í stjórnsýslufræðum. Það var ekki stjórnsýslulegt skipulag í stofnuninni. Ég byrjaði á að skil­greina hvað við erum að gera hérna. Við starfsfólkið greind­um vandamálin í starfseminni, ræddum lausnir og teiknuðum upp verkferla. Einnig þurfti að koma upp löggiltu skjala- og beiðnakerfi. Ég tel að það hafi verið mjög hollt að fara í gegn­um þetta því oft er fólk að vinna við eitthvað sem hefur alltaf verið gert á ákveðinn hátt, en enginn veit af hverju.“

Þóra Sigríður segir að á litlum starfsstað þurfi starfsmenn að hafa fleiri en einn hatt. „Við erum svo fá að við hoppum stundum á milli starfa. Ég er til dæmis með nokkur hlutverk; ég sé um allt sem varðar stjórnina, mannauðsmálin, rusl­flokkun og loftræstingu. Svo erum við öll sveigjanleg ef ein­hvers staðar er verk að vinna. Til dæmis fengum við afhent allt kvikmyndasafn Vilhjálms Knudsen sem var sonur Ósvald­ar Knudsen. Eftir lát Vilhjálms fórum við öll í að tæma heimili hans og það voru mörg bretti sem þurfti síðan að vinna úr. Það er bara gott fyrir móralinn þegar allir vinna saman.“

Safnið geymir mikinn fjársjóð

Um hvað snýst starfsemin í megindráttum?

„Hlutverk safnsins er að safna og varðveita íslenskt kvik­myndaefni. Við gerum það markvisst með því að kalla inn efni frá öllum kvikmyndagerðarmönnum, allar nýjar og styrkt­ar myndir en einnig þær sem eru ekki styrktar af Kvikmynda­sjóði. Við erum búin að tengja þessi innköll við lokagreiðslu styrks frá Kvikmyndasjóði þannig að framleiðendur fá ekki lokagreiðslu fyrr en það er búið að skila kvikmyndinni hingað. Það má skipta hlutverki safnsins í fernt: Safna, varðveita, rannsaka og sýna. Við gerum upp myndir sem eru orðnar gamlar og slitnar, aðallega svarthvítar myndir. Við stafvæð­ingu eru rispur, korn og skemmdir lagfærðar með stafrænni tækni. Þetta er mikill fjársjóður sem við viljum sýna almenn­ingi. Við höfum verið að gera það í þáttum á RÚV sem nefnast Perlur í Kvikmyndasafni og á vef sem heitir Ísland á filmu sem hefur verið mikið skoðaður. Fólk elskar þetta efni því það er svo mikil nostalgía fólgin í gömlum kvikmyndum.“

Gott samskiptaflæði og traust

Hverju þakkar þú árangurinn sem Kvikmyndasafn Íslands náði í könnuninni um Stofnun ársins?

„Ég held að lykillinn sé samtalið. Dyrnar hjá mér eru alltaf opnar þegar þarf að ræða málin. Húsið er mjög stórt þannig að það er auðvelt að einangrast úti í horni en við höldum reglulega fundi. Ef upp kemur eitthvert mál eða misskilning­ur þá setjumst við niður og tölum saman. Þegar upp koma vandamál er mikilvægt að stjórnandinn hafi virka hlustun. Við borðum öll saman í hádeginu þannig að samskiptaflæðið er gott. Ég er líka með reglulega upplýsingagjöf, sendi stutta pósta um vikuna framundan og fer yfir dagskrána. Þetta virka samtal og gott upplýsingaflæði eru aðalatriðin í þessum árangri. Ég tel einnig að það hafi virkað mjög vel að skipu­leggja starfið vel. Starfsfólki líður alltaf betur þegar það veit nákvæmlega til hvers er ætlast af því. Einnig er mikilvægt að treysta starfsfólkinu og vera ekki að anda ofan í hálsmálið á því. Traust er eitthvað sem fólk vinnur sér inn.“ Þóra Sigríð­ur segir að einnig sé mikilvægt að starfsfólkið geri eitthvað saman reglulega. Í því skyni séu haldnir starfsmannadagar tvisvar á ári þar sem farið er út fyrir stofnunina. „Þá erum við með einhverja fræðslu, borðum saman í hádeginu og svo er slútt á eftir.“

Eruð þið með virka EKKO-stefnu, sem stendur fyrir einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi?

„Ég er bara nýbúin að heyra um EKKO-stefnuna. Við erum ekki með hana en við höfum sett okkur allar þær stefnur sem skylt er vera með eins og starfsmannastefnu, loftslagsstefnu og fleira. Eftir að hafa verið stjórnandi í 20 ár hef ég séð stefnur koma og fara. Maður notar bara það sem virkar. Við erum auðvitað með í okkar starfsmannastefnu hvernig eigi að taka á svona málum.“

Mikilvægt að óánægja fái ekki að krauma

Hvernig bregstu við ef upp kemur óánægja í starfsmanna­hópnum?

„Ég byrja nú fyrst á því að tala við viðkomandi, í sitthvoru lagi og svo saman. Stundum vill fólk ekki koma saman þegar misklíð kemur upp. Þá leita ég til óháðs ráðgjafaraðila út í bæ. Ég þurfti að gera það hjá öðru fyrirtæki sem ég var hjá og það reyndist mjög vel. Ráðgjafinn setti ofan í við þau sem voru að rífast út af mjög smávægilegum hlut sem gerði þau óvinnufær. Það þurfti bara eitt skipti. Oft liggur eitthvað undir í svona málum sem sést alls ekki á yfirborðinu og erfitt er að komast til botns í. Það er mikilvægt að það sé ekki eitthvað að malla undir niðri sem fólk þorir ekki að tala um. Ég hef reynslu frá því annars staðar frá að það byrjar eitthvað lítið mál að krauma og svo er það allt í einu orðið stórmál. Best er tala um hlutina, afgreiða þá strax og spara sér þannig andlega orku.“

Þóra Sigríður segir að starfsfólkið hafi verið mjög ánægt með að Kvikmyndasafn Íslands hafi fengið titilinn Stofn­un ársins 2024 og þótt viðurkenningin verðskulduð. „Við fögnuðum áfanganum með því að fara út að borða. Það var mjög skemmtilegt. Við fengum líka þennan fína verðlauna­grip sem er til sýnis í afgreiðslunni okkar. Ég var að hugsa um að taka hann með mér í ráðuneytið og nota hann til að pota í ráðherrann og biðja um meiri peninga,“ segir hún og brosir.