Haustlaukar, niðursetning og umhirða

Laukar og hnúðar eru forðarætur sem safna í sig næringu og geyma hana yfir veturinn. Laukjurtir eru því vel undir það búnar að hefja vöxt snemma á vorin, jafnvel áður en snjóa leysir.
Best er að setja haustlauka niður fyrir fyrstu frost en ekkert mælir gegn því að setja þá niður síðar, eða svo lengi sem tíðin leyfir. Margar laukjurtir þurfa að standa í freðnum jarðvegi í nokkrar vikur til þess að undirbúa sig fyrir vöxt að vori. Laukar þrífast best á þurrum stað í vel framræstum og sendnum jarðvegi.