Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

12. október 2022

Genfarskólinn lykill að betra samfélagi

Frá þingi ILO.

Eftir Stefaníu Jónu Nielsen

Genfarskólinn er starfræktur árlega í tengslum við ILC-ráðstefnuna sem haldin er af ILO, Alþjóðavinnumálastofnuninni (International Labour Organization – ILO). Stofnunin hóf starfsemi árið 1919 á grundvelli ákvæða í friðarsamningunum sem voru undirritaðir í Versölum 28. júní 1918 og bundu enda á fyrri heimsstyrjöldina. Þar er kveðið á um að þjóðir heimsins skuldbindi sig til að koma á fót sérstakri stofnun sem hafi það hlutverk að ráða bót á þeim félagslegu vandamálum sem öll ríki eigi við að stríða. Varð þetta að sérstofnun innan Sameinuðu þjóðanna árið 1945 en geta má þess að það sama ár gerðist Ísland aðili að stofnunni.


Friður byggist á félagslegu réttlæti
Alþjóðavinnumálaskrifstofan starfar undir eftirliti stjórnarnefndarinnar og undir yfirstjórn forstjóra skrifstofunnar sem er kosinn til fimm ára í senn. Á vegum skrifstofunnar starfa um 2700 starfsmenn frá yfir 150 þjóðum í höfuðstöðvunum í Genf og á 40 skrifstofum sem settar hafa verið upp víða um heim vegna tækni- og þróunaraðstoðar. Grundvallarmarkmið ILO eru að berjast gegn fátækt og félagslegu óréttlæti. Þess vegna eru verkefnin meðal annars að stuðla að atvinnu og bættum vinnuskilyrðum um allan heim og verndun frelsis og réttinda stéttarfélaga. Aðildarríki ILO eru nú 183.

Eins og áður sagði var ILO stofnuð í félagslegu og efnahagslegu umróti eftir fyrri heimsstyrjöldina. Það voru nokkrar ástæður fyrir stofnun ILO, að hluta til mannúðarsjónarmið, að hluta til stjórnmálalegar ástæður ásamt ótta við félagslega ólgu og öfgar á hinu pólitíska sviði. Þær voru líka að hluta til efnahagslegar – bætt vinnuskilyrði voru talin leiða til hærri framleiðslukostnaðar en lönd sem tóku upp slíkar aðgerðir óttuðust að missa samkeppnisforskot sitt á kostnað launafólks sem greiddi fyrir gagnkvæma samkeppni þjóðanna um verð og markaði með lágum launum og ömurlegum vinnuskilyrðum.

ILO starfar enn eftir sinni stjórnarskrá sem samþykkt var árið 1919 og er leiðarvísir fyrir allt starf stofnunarinnar. Í aðfararorðum stjórnarskrárinnar segir að almennum og varanlegum friði megi aðeins koma á ef hann byggist á félagslegu réttlæti. Árið 1944 jókst starfsemi ILO í átt að aukinni hjálparstarfsemi fyrir fátæk lönd, rannsóknum á félagslegum og efnahagslegum aðstæðum og ráðgjöf um stefnumál og árið 1969 hlaut stofnunin friðarverðlaun Nóbels.


Genfarskólinn verður til
Árið 1931 var Genfarskólinn stofnaður og hefur hann ávallt verið rekinn af norrænu alþýðusamböndunum. Skólinn hefur það að markmiði að auka þekkingu og skilning á starfi stofnunarinnar, rannsóknum hennar á alþjóðlegum vinnumarkaði og almennt á stöðu vinnumarkaðsmála í heiminum. Þá styrkir hann einnig norrænt samstarf verkalýðsfélaga og verkalýðssamtaka. Aðild að skólanum eiga verkalýðssamtök í Svíþjóð, Noregi, Danmörku, Finnlandi og Íslandi. Heildarfjöldi nemenda er á fjórða tug og gætt er að jafnri kynjaskiptingu hverju sinni. Ísland á tvö sæti í skólanum og skiptast þau á milli ASÍ annars vegar og BSRB hins vegar. Geta þeir sem eru virkir félagsmenn innan stéttarfélaga sem tilheyra þessum heildarsamtökum sótt um námið. Æskilegt er að þátttakendur hafi bæði mikinn áhuga á alþjóðamálum verkalýðshreyfinga og góða tungumálaþekkingu á einu Norðurlandamáli ásamt ensku. Lögð er rík áhersla á að Norðurlandamálið sé sænska, norska eða danska.

Í Genfarskólanum fræðast nemendur um alþjóðamál verkalýðshreyfingarinnar og er skipulag skólans fjórskipt. Fyrsta lotan er staðnám, annaðhvort í Svíþjóð eða í Brussel. Þar eru unnin verkefni, haldnar kynningar, hlýtt á fyrirlestra og pallborðsumræður. Næsta lota er byggð upp á fjarnámi þar sem nemendur vinna verkefni sem markast bæði af því sem þeir lærðu í fyrstu lotunni, ásamt að undirbúa þriðju og síðustu lotuna. Síðasta lotan, sem er meginnámskeiðið, stendur svo yfir í tvær til þrjár vikur í Genf þar sem nemendurnir taka þátt í þinghaldi Alþjóðavinnumálaráðstefnunnar (ILC).

Genfarskólinn samanstendur af fjórum meginhlutum og mætingarskylda er á öll námskeið. Fyrsti hluti námsins samanstendur af stuttri þjóðarsamkomu. Í öðrum hluta námsins hittast allir þátttakendur á Runö, norður af Stokkhólmi, eða í Brussel á sameiginlegu fornámskeiði. Þar vinna þátttakendur saman hópverkefni. Dagskráin gerir ráð fyrir að þátttakendur hafi grunnfærni varðandi ILO, samþykktir þess og starfsemi innan landanna. Hópverkefnið verður að tengjast dagskrá ILO-ráðstefnu þess árs sem þingið er haldið.

Í þriðja hluta, eftir fornámskeiðið, vinna þátttakendur verkefni á netinu sem tekur u.þ.b. þrjátíu klst. Tilgangur þess verkefnis er kynning á ILO-samþykktum og ráðleggingar gefnar sem tengjast áherslum verkefnisins. Þátttakendur leita sjálfstætt upplýsinga um störf ILO innan hvers lands fyrir sig. Í fjórða og síðasta hluta námskeiðsins ferðast þátttakendur til Genfar til að vera saman og læra á ILC. Tíminn í Genf er dreginn saman með því að útbúa skýrslu. Á hverju hausti er nám í Genfarskólanum auglýst og er þá opnað fyrir umsóknir í skólann.


Nemendur taka beinan þátt í störfum þingsins
Nefndirnar eru mismunandi á milli ára og miðast við hvað er að gerast í vinnumarkaðsmálum landanna og stöðunni á alþjóðasviðinu. Út frá því er ákveðið hvað þingið mun fjalla um í kjölfarið og takast á við. Nokkrar fastanefndir eru starfandi árlega á þinginu, og sumar eru eingöngu ætlaðar ákveðnum hópum og óaðgengilegar nemendum. Nefndirnar sem voru í boði fyrir nemendur Genfarskólans árið 2022 voru eftirfarandi:

CAS: Nefnd um framkvæmd alþjóðasamþykkta. Þessi nefnd er árleg og sér um að kalla til lönd á fund sem brjóta samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem þau eru aðilar að. Þurfa málsvarar launafólks, atvinnurekenda og ríkisstjórna landanna að koma til fundarins og svara fyrir brot á samþykktum. Þá þarf að liggja fyrir í lok þingsins hvernig löndin hyggjast bæta úr brotum þessum og á hve löngum tíma.

Apprenticeships: Nefnd sem fjallar um vinnuveitendur um allan heim sem ráða til sín „nema“ og greiða þeim ekki laun fyrir unnin störf. Er það flokkað sem launaþjófnaður.
SEE - Social and solidarity economy: Nefnd þar sem stefnumótendur frá öllum heimshornum safnast saman til að deila reynslu sinni, starfsvenjum og áskorunum í störfum sínum á vinnumarkaði. Nefndin telur að félags- og samstöðuhagkerfi (SEE) sé raunhæf lausn á sviðum efnahags, félags og umhverfis með það að markmiði að koma á jafnvægi.

Félagslegt réttlæti fyrir sanngjarna hnattvæðingu (Social justice for fair globalization): Nefnd um félagslegt réttlæti fyrir sanngjarna hnattvæðingu sem Alþjóðavinnumálastofnunin samþykkti einróma með yfirlýsingu þann 10. júní 2008. Þetta er þriðja meginyfirlýsingin um meginreglur og stefnur sem Alþjóðavinnumálaráðstefnan hefur samþykkt síðan stjórnarskrá ILO var sett 1919. Hún byggir á Fíladelfíuyfirlýsingunni frá 1944 og yfirlýsingu um grundvallarreglur og réttindi á vinnustað frá 1998. Yfirlýsingin frá 2008 lýsir nútímasýn á umboð ILO á tímum hnattvæðingar.

Að lokum skal geta þess að Alþjóðavinnumálastofnunin er eina stofnunin innan Sameinuðu þjóðanna sem hefur þrískipt vald. Það samanstendur af launafólki sem hefur eitt atkvæði, atvinnurekendur sem hafa eitt atkvæði og ríkisstjórnir sem hafa tvö atkvæði á þingi stofnunarinnar.

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)