Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

10. september 2024

Af svikum og prettum

Þóarinn Eyfjör, formaður Sameykis. Ljósmyd/Hari

Ræða Þórarins Eyfjörð, formanns Sameykis, á mótmælafundi við þingsetningu Alþingis á Austurvelli.

Kæru félagar!

Í upphafi árs hófust viðræður um kjarasamninga á íslenskum vinnumarkaði. Um ýmislegt var rætt í þeim samningum eins og venja er og tekist á um innihald og efni. Þegar samningar voru undirritaðir var það gert gert í trausti þess að viðsemjendur, myndu standa við forsendur samningana. Að Seðlabankinn myndi lækka stýrivexti, að markaðurinn myndi halda aftur af hækkunum á vöru og þjónustu, að stjórnvöld myndu stoppa gjaldskrárhækkanir og grípa til róttækra aðgerða til að styðja við lækkun verðbólgu. Verkefnið var að allir, ALLIR!, myndu leggja sitt af mörkum. Launafólk stóð við sinn hluta samningsins og samdi til lengri tíma um hógværar launahækkanir.
Hvert hefur þá framlag viðsemjenda verið? Það er hin heilaga þrenning blekkingar-stjórnmálanna: Svik, prettir og lygi.

Seðlabankinn og ríkisstjórn Íslands eru trúlega að setja nýtt hraðamet í eignaupptöku með tilflutningi fjármagns og eigna frá almenningi til fjármagnseigenda. Í efnahagshruninu 2008 og eftirmála þess misstu þúsundir heimila aleigu sína. Með vanhugsuðum ákvörðunum Seðlabanka Íslands kringum 2020 að innleiða lágvaxtastefnu er almenningur núna að borga fyrir þá sturluðu aðgerð að keyra stýrivexti niður í svo að segja ekki neitt og hækka þá svo um 1300%. Ein afleiðingin þess er sú að núna er verið er að brenna upp eigið fé þúsunda heimila. Og stjórnvöld koma ekki almenningi til varnar. Ekki nú frekar en áður.

Á næstu mánuðum munu 400 milljarðar í óverðtryggðum lánum losna og í núverandi kerfi verður fjármagnseigendum færð ríkuleg ávöxtun beint úr vösum almennings. Ungum fjölskyldum og íbúðakaupendum, verður hent í efnahagslegt fangelsi ef ekki verður gripið til róttækra aðgerða strax. Þess sjást engin merki um að það eigi að koma í veg fyrir okurvexti og glórulausa verðtryggingu, alltaf skal almenningur borga brúsann. Og hvað blasir þá við þeim þúsundum sem treystu og trúðu á lágvaxtastefnu Seðlabankans 2020?

Það er hin heilaga þrenning peninga-stjórnmálanna: Svik, prettir og lygi!

Á síðustu árum hefur verið gerð hörð atlaga að jöfnuði, samkennd og samtakamætti almennings og það hefur markvisst verið grafið undan samheldni og grunnstoðum samfélagsins. Botnlausum áróðri hefur verið beitt til að vegsama einstaklingshyggjuna, einkavinavæðinguna og tilbeiðslu á ofsagróða. Stjórnvöld bera mikla ábyrgð á þeirri vitfyrrtu eignatilfærslu frá almenningi til fjármagnseigenda sem við höfum horft upp á og hafa ekki stigið fram til að tryggja hagsmuni almennings.

Sú hryggilega staðreynd blasir við að stjórnvöld hafa ekki nokkurn áhuga á velferð vinnandi fólks. Þau virðast vera uppteknari af því að gefa norskum fjármálamönnum auðlindir okkar og tryggja með lagasetningu uppáhaldsvinum sínum einokunaraðstöðu á neytendamörkuðum, heldur en að grípa til aðgerða sem færa almenningi, ungum fjölskyldum og börnum, húsnæði og velferð. Fólkið í landinu kallar á breytingar og að kosnir fulltrúar almennings setji velferð í forgang.

Við krefjumst þess að stýrivextir verði lækkaðir að verðbólgunni verði þrýst niður og þeim meðulum beitt, sem skila árangri fyrir almenning í landinu.

Við höfnum valdaklíkum í stjórnmálum og efnahagslífi þjóðarinnar, sem markvisst vinna að því að komast yfir eigur almennings.
Við höfnum því að okkar sameiginlegu auðlindir séu færðar peningaöflunum að gjöf og gildir þar einu hvort um er að ræða sjávarútveg, land, vatn, vind eða saltan sjó. Standa þarf vörð um sameiginlegar eignir okkar og við mótmælum því að stjórnmálamenn færi ættingjum og vinum eignir og auðlindir almennings á silfurfati.

Við höfnum því að grunnþarfir almennings séu gerðar að gróðrarstíu, og fjármagnseigendur ryksugi upp íbúðamarkaðinn meðan almennt launafólk er látið blæða.

Við krefjumst þess að gripið verði til aðgerða sem gagnast almenningi og launafólki á Íslandi.

Það er nóg komið af svikum, prettum og lygi!