Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

5. febrúar 2025

Öryggi á vinnustað: Ábyrgð vinnuveitanda í baráttunni gegn áreitni og ofbeldi

Mynd gerð með gervigreindarforriti/AI

„Viðbrögð og upplýsingagjöf vinnuveitanda skipta gríðarlegu máli. Vinnuveitandi ber ábyrgð á að rannsaka allar tilkynningar með réttlátum og hlutlausum hætti. Það rýrir auðvitað traust starfsfólks á kerfinu og letur aðra til að tilkynna ef ekki er gætt að þessum þætti. Starfsfólk þarf jafnframt að vera vel upplýst og upplýsingagjöf þarf að vera viðvarandi á öllum stigum málsins.“

Eftir Jennýju Stefánsdóttur

Kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi á vinnustöðum er alvarlegt vandamál sem kann að hafa djúpstæðar afleiðingar á fólk sem fyrir því verður. Slíkt getur einnig haft í för með sér samfélagslegan kostnað, m.a. vegna veikinda, langtímaveikinda, sjúkrakostnaðar og í alvarlegri tilvikum getur það leitt til örorku starfsfólks. Vinnuveitandi ber lagalega, faglega og siðferðislega ábyrgð á að tryggja öruggt vinnuumhverfi.

Meðal erfiðustu málanna sem rata á borð stéttarfélagsins eru mál sem snúa að einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Skilgreiningar á þessum hugtökum má finna í reglugerð nr. 1009/2015. Stéttarfélög þurfa að vera í stakk búin til að takast á við þessi mál, leiðbeina og aðstoða félagsfólk. Því miður fær Sameyki reglulega inn á borð til sín mál af þessum toga og kunna málin í einhverjum tilvikum að vera mjög alvarleg. Gera má betur í málum sem þessum. Málin geta verið erfið, flókin og viðkvæm og ljóst að vanda þarf til verka og er vinnuveitandi þar í lykilhlutverki. Í þessari grein ætla ég að gera hlutverk, ábyrgð og skyldur vinnuveitanda að umfjöllunarefni mínu.

 

Lagalegar skyldur og fyrirbyggjandi aðgerðir
Á vinnuveitanda hvíla ýmsar lagalegar skyldur. Samkvæmt íslenskum lögum, m.a. lögum nr. 46/1980 er vinnuveitanda skylt að tryggja öruggt og heilbrigt vinnuumhverfi. Þá er líka fjallað um í jafnréttislögum að atvinnurekendur stofnana, félagasamtaka og íþrótta- og æskulýðsfélaga geri sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk verði fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni eða kynferðislegri áreitni á vinnustað. Af orðalagi ákvæðisins má ráða að ekki sé nóg að hafa til staðar áhættumat, verkferla og stefnu sem virkjast eftir að atvik koma upp, heldur hvílir jákvæð skylda á vinnuveitanda til þess að gera fyrirbyggjandi ráðstafanir. Fyrirbyggjandi ráðstafanir eins og t.a.m. forvarnir gegna mikilvægu hlutverki í að koma í veg fyrir að upp komi alvarleg mál. Fræðsla til starfsfólks er nauðsynlegur þáttur í forvörnum með það að markmiði að auka meðvitund og stuðla að heilbrigðari vinnustaðamenningu.

 

Viðbrögð og upplýsingagjöf til þolanda
Í öðru lagi skipta viðbrögð og upplýsingagjöf vinnuveitanda gríðarlegu máli. Ferlið við að tilkynna þarf að vera traust og starfsfólk á að hafa aðgang að öruggu og trúverðugu kerfi til að tilkynna, án ótta. Vinnuveitandi ber ábyrgð á að rannsaka allar tilkynningar með réttlátum og hlutlausum hætti. Það rýrir auðvitað traust starfsfólks á kerfinu og letur aðra til að tilkynna ef ekki er gætt að þessum þætti. Þá kann að vera tilefni í einhverjum tilvikum til að vísa málum til óháðs aðila sem sér þá um að rannsaka málið.

Starfsfólk þarf jafnframt að vera vel upplýst og upplýsingagjöf þarf að vera viðvarandi á öllum stigum málsins. Þær spurningar sem vakna oft eru m.a.: Hvert á að tilkynna? Hvernig? Hvað tekur ferlið langan tíma? Hvað tekur við eftir að tilkynning berst? Heldur meintur gerandi áfram að starfa á vinnustaðnum eða er hann sendur í launað leyfi? Vinnuveitandi þarf einnig að átta sig á að sú staða kann að vera uppi að þolandi treysti sér ekki til að starfa áfram á vinnustaðnum á meðan tilkynning hans er rannsökuð. Þá eru dæmi þess að þolandi upplifi meðvirkni með geranda eða eftir atvikum vanlíðan inni á vinnustað sem veldur því að hann treystir sér ekki til vinnu meðan á rannsókn stendur. Skoða þarf þennan þátt sérstaklega. Í þessum tilvikum tel ég eðlilegast að þolanda standi til boða að fara í launað leyfi en gangi ekki á sinn áunna veikindarétt meðan á rannsókn stendur.

 

Mannlegi þátturinn og stuðningur við þolanda
Að endingu er ekki síst mikilvægt að gætt sé að mannlega þættinum óháð öllum lagalegum skyldum. Það þarf að vera til staðar umgjörð sem grípur þolanda sem orðið hefur fyrir alvarlegu broti. Það er gríðarlega mikilvægt að ferlið sé mannlegt, að ferlið og málsmeðferðin séu með þeim hætti að vanlíðan og afleiðingar brota verði ekki verri vegna málsmeðferðarinnar og eftir atvikum viðbrögðum vinnuveitanda. Grípa þarf til viðeigandi viðbragða á öllu stigum málsins, þ.e. þegar tilkynning berst, meðan á rannsókninni stendur og eftir að niðurstaða liggur fyrir.

Ég tel að það þurfi að vera hluti af verkferlum í málum sem þessum að þolendum standi til boða stuðningur eins og t.d. sálfræðilegur stuðningur. Jafnframt að það sé hluti af verkferlum vinnuveitanda í málum sem þessum að benda þolendum á Bjarkarhlíð eða önnur sams konar úrræði sem kunna að standa til boða séu málin þess eðlis. Ég nefni Bjarkarhlíð sérstaklega þar sem þar er boðið upp á samhæfða þjónustu samstarfsaðila á einum stað, þ.e. einstaklingsviðtöl, lögfræðiráðgjöf, félagslega ráðgjöf og stuðning, auk þess sem lögregla er á staðnum. Jafnframt tel ég að það þurfi að vera hluti af verkferlum vinnuveitanda að kanna hvort málið sé þess eðlis að tilefni sé til að leiðbeina þolanda um möguleika á að kæra brotið til lögreglunnar og veita þá þolanda stuðning er varðar það ferli eða eftir atvikum að atvinnurekandi tilkynni eða kæri sjálfur brotið beint til lögreglunnar, sé brotið þess eðlis.


Lokaorð
Með því að innleiða skýra stefnu, bjóða upp á fræðslu og tryggja áreiðanleg viðbrögð við kvörtunum geta vinnuveitendur stuðlað að vinnustaðamenningu sem byggir á trausti og jafnframt komið í veg fyrir alvarlegt brot af þeim toga sem hér hefur verið fjallað um. Árangursrík stjórn á málum sem þessum snýst ekki aðeins um að bregðast við þegar mál koma upp heldur einnig að skapa umhverfi þar sem áreitni og ofbeldi fær ekki að þrífast. Þegar vinnuveitendur axla ábyrgð sína af festu og einurð, draga þeir úr hættu á alvarlegum afleiðingum, bæði fyrir starfsfólk og starfsemina í heild sinni.

Þegar vinnustaðir axla ábyrgð í baráttunni gegn kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum eru þeir ekki aðeins að vernda starfsfólk sitt heldur einnig að efla traust, samstarf og langtímaárangur í starfsemi sinni. Í þessu samhengi má nefna að ábyrgðin er okkar allra, þ.e. að standa saman í baráttunni og uppræta alvarleg brot af þeim toga sem hér hefur verið fjallað um. Kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi á aldrei að umbera né eiga sér stað.


Höfundur er lögfræðingur í kjaradeild Sameykis