Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

6. febrúar 2025

Kulnun kvenna í kjölfar ofbeldis

„Það geta verið margvíslegar ástæður fyrir ofbeldi en það er afar mikilvægt að forvörnin felist í að breyta viðhorfum drengja og karla í stað þess að fara fram á að stúlkur og konur passi sig að verða ekki fyrir ofbeldi.“ Sviðsett ljósmynd/Shutterstock

„Meðal þess sem fram kemur í gögnum frá landlækni er að 22% fólks sem hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi greinir frá kulnun eða örmögnun á móti 8% þeirra sem hafa ekki orðið fyrir kynferðisofbeldi. Það þarf varla frekari vitnanna við.“

Eftir Drífu Snædal

Kynbundið og kynferðislegt ofbeldi er faraldur í heiminum og hefur sennilega fylgt okkur um aldir. Það er því miður ekki í rénun eins og öll tölfræði sýnir og sannar, og rannsóknarverkefni í sjálfu sér af hverju við náum framfaraskrefum í jafnrétti í samfélaginu, hinu sýnilega, en ekki í einkalífinu, hinu ósýnilega.

Svo talað sé tæpitungulaust: Karlar beita konur enn margvíslegu ofbeldi (líkamlegu, andlegu, kynferðislegu, fjárhagslegu…) þannig að það hefur áhrif á líf kvenna og reyndar samfélagið allt. Konur beita líka ofbeldi en í miklu minni mæli og það er töluvert líklegra að karlar verði fyrir ofbeldi af hendi annarra karla en kvenna.

Þriðjungur kvenna orðið fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað
Samkvæmt áfallasögu kvenna hafa 40% kvenna orðið fyrir líkamlegu og/eða kynferðisofbeldi á lífsleiðinni og 14% kvenna eru með einkenni áfallastreituröskunar. Að auki hafa 32% kvenna orðið fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað. Á bak við alla þessa tölfræði eru gerendur; menn sem finnst það í lagi að fara yfir mörk, líta á sig sem eigendur líkama annarra, líta svo á að þeir eigi tilkall til kvenna, kunna ekki mörkin eða vilja ekki kunna þau. Það geta verið margvíslegar ástæður fyrir ofbeldi en það er afar mikilvægt að forvörnin felist í að breyta viðhorfum drengja og karla í stað þess að fara fram á að stúlkur og konur passi sig að verða ekki fyrir ofbeldi. Við erum á algjörum frumstigum þessarar nálgunar og þurfum að taka stór skref ekki síðar en strax.



Afleiðingar ofbeldisins breytast ekki
Í 35 ár hafa Stígamót spurt fólk sem leitar aðstoðar hverjar afleiðingar ofbeldisins hafi verið. Þær hafa ekkert breyst í þessi 35 ár sem Stígamót hafa starfað. Kvíði, skömm, léleg sjálfsmynd, depurð, sektarkennd og erfið félagsleg tengsl eru meðal helstu afleiðinga. Þessar afleiðingar eru verri ef fólk leitar sér ekki aðstoðar, þær hafa meiri áhrif á ungt fólk sem verður fyrir ofbeldi og konur sem hafa verið í vændi glíma við verri afleiðingar en aðrir þolendur ofbeldis. Þessu fylgir mjög oft sjálfsskaðandi hegðun, svo sem áfengis- eða vímuefnaneysla, óheilbrigð umgengni við mat og fleira mætti telja. Eðlilega finna þolendur leiðir til að draga úr vanlíðan.

Fólk sem hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi greinir frá kulnun
Alvarlegar afleiðingar kynferðisofbeldis eru staðfestar enn og aftur af landlækni sem nýverið gaf út niðurstöður um heilsu og líðan þolenda kynferðisofbeldis úr rannsókninni Heilsa og líðan á Íslandi (Talnabrunnur, tbl. 8, 2024). Þar er fólk sem orðið hefur fyrir kynferðisofbeldi borið saman við fólk sem ekki hefur orðið fyrir slíku ofbeldi og eru áhrifin á andlega og líkamlega líðan sláandi. Mun hærra hlutfall þeirra sem orðið hafa fyrir kynferðisofbeldi finnur fyrir kvíða eða þunglyndi, verkjum eða óþægindum auk þess að eiga í vandræðum með að sinna venjubundnum störfum og athöfnum.

Meðal þess sem fram kemur í gögnum frá landlækni er að 22% fólks sem hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi greinir frá kulnun eða örmögnun á móti 8% þeirra sem hafa ekki orðið fyrir kynferðisofbeldi. Það þarf varla frekari vitna við.

Þegar þetta allt saman er svo sett í samhengi við til dæmis örorku eftir kyni og aldri má leiða að því líkum að fjöldi kvenna upp úr miðjum aldri sem er á örorku sé að glíma við alvarlegar afleiðingar af því ofbeldi sem þær hafa mátt sæta, en allt að helmingi fleiri konur en karlar eru á örorkubótum eftir miðjan aldur.

Útrýmum ofbeldi
Það er því til mikils að vinna að vinda ofan af þeim faraldri kynbundins ofbeldis og kynferðisofbeldis sem fengið hefur að þrífast um ævi og aldir gegn konum, ekki aðeins fyrir einstaklingana sem verða fyrir því heldur fyrir samfélagið allt. Það er hægt að útrýma ofbeldi, við verðum að trúa því og hafa sjálfstraust í verkefnið. Við fólk sem hefur orðið fyrir ofbeldi vil ég segja: Það er til aðstoð og það að verða fyrir ofbeldi er ekki sjálfkrafa ávísun á lakari lífsgæði. Leitaðu þér aðstoðar hjá Stígamótum, Bjarkarhlíð, Kvennaathvarfinu, Sigurhæðum, Aflinu eða annars staðar þar sem hjálp er að finna.


Höfundur er talskona Stígamóta