Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

26. apríl 2022

Tímarit Sameykis á leið til félagsfólks

Í dag hefst dreifing á tímariti Sameykis til félagsmanna. Þórarinn Eyfjörð formaður Sameykis segir í leiðaragrein tímaritsins: „Við sem samfélag höfum lagt áherslu á að vera hluti af norræna velferðarkerfinu, enda standa norrænu löndin fremst þegar kemur að velferð og jöfnuði. Til að standa undir nafni þá ætlumst við til að stjórnvöld svari lágmarkskröfum um að gæta réttlætis og jafnréttis og verndi eigur og auðlindir þjóðarinnar svo fjármálahýenur skyndigróðans geti ekki látið greipar sópa um sameiginlegar eigur okkar.“

Þá segir Þórarinn um stríðið í Úkraínu. „Rússar fremja grimmdarverk og stríðsglæpi í Úkraínu. Skotmörkin eru almenningur og innviðir landsins eru miskunnarlaust sprengdir í öreindir. Milljónir eru á flótta, aðallega börn, mæður og eldra fólk. Ungu mennirnir eru í stríði og þjóðin stendur saman gegn kúgaranum í Kreml. Við höfum öll fylgst með stríðinu og við finnum til með bræðrum okkar og systrum í Úkraínu sem nú ganga í gegn um helvíti á jörð. Það er skylda okkar sem þjóð á meðal þjóða að gera það sem í okkar valdi stendur að styðja við flóttafólk og þá bæði við þau sem koma frá Úkraínu og annars staðar frá.“

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, skrifar grein í tímarit Sameykis og segir: „Við skulum þó hafa það alveg á hreinu að launafólk ber ekki ábyrgð á hækkandi vöxtum og aukinni verðbólgu, en mun gjalda fyrir með verri kjörum. Við munum því ekki gefa neinn afslátt í kjarabaráttunni í þágu almennings.“

Ásgeir Brynjar Torfason, doktor í fjármálum, skrifar grein um hagfræðikenningar Mariana Mazzucato um breytta hagfræði til bjargar heiminum, Jökull Sólberg Auðunsson, forritari og áhugamaður um samfélagsmál, skrifar grein um stéttabaráttu og viðskiptajöfnuðinn. Valur Gunnarsson, blaðamaður, rithöfundur og sérfræðingur í málefnum Úkraínu, veitir okkur innsýn í grein um stríðið í Úkraínu.

Við segjum frá málþingi Sameykis, Vellíðan og vöxtur í betri vinnutíma, og frá hátíðinni Stofnun ársins þar sem viðurkenningar voru veittar þeim stofnunum sem standa sig best í mannauðsmálum. Í tímaritinu eru viðtöl við stjórnendur Ríkiskaupa og Frístundamiðstöðvarinnar Tjarnarinnar. Í tímaritinu er greint í máli og myndum frá aðalfundi Sameykis sem haldinn var 31. mars sl. Við kynnum til leiks nýjan matarþátt í tímaritinu þar sem matargatið Haraldur Jónasson, blaðaljósmyndari og gúrme kokkur, gefur okkur góð ráð í matargerð. Þá er skop Halldórs Baldurssonar á sínum stað inn í tímaritinu sem og á forsíðu þess. Auðvitað er krossgátan og verðlaunahafi krossgátulausnarinnar einnig á sínum stað ásamt fleiru.

Tímarit Sameykis er prentað á umhverfisvænan og svansvottaðan pappír úr hringrásarferli Svansins. Einnig er blaðið prentað með svansvottuðum jurtalitum en ekki jarðolíulitum.

Þeir sem hafa óskað eftir því að fá tímaritið ekki sent heim til sín geta lesið það hér í PDF sniði.

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)