Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

2. maí 2022

Almenningur borgar brúsann!

Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis. Ljósmynd/Haraldur Jónasson.

Kæru félagar!

Til hamingju með baráttudaginn okkar 1. maí.

Eftir tveggja ára fjarveru þá getum við loks safnast saman til að þétta raðirnar í þeirri baráttu, sem óvíst er að taki nokkurn tíma enda; baráttunni fyrir betra samfélagi, fyrir mannsæmandi afkomu og réttlátari skiptingu þjóðarauðsins, fyrir bjartari framtíð fyrir okkur öll, fyrir jöfnum tækifærum, sterkari innviðum, virðingu og umhyggju fyrir þeim sem verst standa og svo framvegis og svo framvegis. Listinn er langur. En hvers vegna gerum við okkur það ómak að safnast saman enn á ný til að krefjst betra og réttlátara samfélags? Jú, það er vegna þess að við sjáum hvernig fámenn ofurgræðgisklíka fjármála-, viðskipta- og stjórnmálafólks stelur öllu steini léttara í samfélagi okkar og er nokkurn veginn skítsama um hvað okkur hinum, almenningi, finnst um það. Og þetta er að stórum hluta sami hópurinn sem situr hinu megin við samningaborðið þegar við erum að semja um kaup og kjör launafólks.

Fyrir rúmum áratug tók launafólk á sig gjaldþrot þjóðarbúsins vegna vitfyrrtrar framgöngu stjórnmálamanna, sem komu eignum almennings í hendur brjálaðra kaupsýslukóna, sem brenndu ekki bara upp allt bankakerfi landsins, heldur komu stórum hluta þjóðarinnar í skuldasvarthol og á fátæktarstig þar sem allt of margir þjást enn. Á þrældómsárunum sem fylgdu á eftir hruninu, sáum við hvernig eigur fólks voru ryskugaðar upp í stærsta eignaþjófnaði sögunnar. Og hver fékk reikninginn vegna hrunsins sendan heim? Það var almenningur, launafólk í landinu sem borgaði brúsann með sameiginlegum eigum sínum og það var almenningur sem hreinsaði upp ógeðið eftir sóðana!

Síðan þegar samfélag okkar virtist vera komið á beinni braut þá hrynur allt saman aftur vegna heimsfaraldurs. Atvinnulífið sigldi beina leið í strand og atvinnuleysi rauk upp með tilheyrandi skelfingu fyrir fjölskyldur landsins. Hver kom þá til bjargar til að allt færi ekki lóðbeint til andskotans? Voru það fyrirtækin og markaðurinn sem gerðu það? Voru það kannski bankarnir sem högnuðust um tæpa 100 milljarða á síðasta ári? Voru það eigendur sjávarútvegsfyrirtækja sem hafa greitt sér 100 milljarða í arð á síðasta áratug? Voru það kannski ríkustu 240 fjölskyldurnar sem áttu um 300 milljarða í eigið fé á síðasta ári? Eða voru það kannski stjórnvöld sem sáu til þess að hinir ofurríku leggðu fram sanngjarnan skerf í rústabjörguninni? Nei, það voru ekki þessir aðilar sem komu til bjargar! Það eru nefnilega Hafdís og Hermann og börnin þeirra hér í Reykjavík sem skulu borga brúsann, það eru Sigrún og Sveinbjörn og börnin þeirra á Neskaupstað sem skulu borga brúsann og það eru Ingibjörg og Ingþór á Ísafirði og börnin þeirra sem skulu borga brúsann. Það er nefnilega launafólk þessa lands og börnin þeirra sem skulu sko núna, eins og alltaf, fá að borga brúsann!

Spilling og hroki valdastéttarinnar gagnvart almenningi er orðin slíkur að elítan trúir því að hún sé algerlega ósnertanleg. Nú hefur fjármálaráðherra og ríkisstjórnin unnið sér það til frægðar að gefa peningaöflunum 50 milljarða af eigum okkar í tveimur tækifærisgjöfum. Einkavæðing Íslandsbanka er ekki gerð með einhverri hipsumhabs aðferð. Þetta hafa verið úthugsaðar, skipulagðar og tímasettar aðgerðir til að koma eigum almennings í hendur fjöskyldunnar, vina og samverkafólks. Gleymum því ekki að bæði fjármálaráðherra og vinir hans sem fengu gjöfina, er að hluta til sama sauðahjörðin og brenndi samfélag okkar til grunna fyrir rúmum áratug; Guð blessi Ísland og allt þetta framúrskarandi fólk!

Við skulum aldrei gleyma einhverri bestu skilgreiningu á íslenskri valdastétt stjórnmálamanna og fjármálaelítu sem gerð hefur verið. Styrmir Gunnarsson, einn helsti boðberi og trússhestur Sjálfstæðisflokksins og frjálshyggjunnar áratugum saman, dró upp myndina um hvernig þetta raunverulega er því hann þekkti fnykinn; „Ég er búinn að fylgjst með þessu þjóðfélagi í 50 ár. Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska og valdabarátta.“

Þessi greining hefur aldrei átt betur við en einmitt nú, þegar við horfum upp á hvernig verið er að gefa sameiginlegar eigur okkar, hvernig stjórnvöld hafa engan áhuga að beita sér fyrir breytingum á launakjörum þeirra lægst launuðu, hafa engan áhuga á að standa við samninga um jöfnun launa milli markaða, hafa engan áhuga á að gefa ungum fjölskyldum í húsnæðisvanda einhver alvöru tækifæri, hafa enga áætlun um raunverulega breytingu á virðismati kvennastarfa, enga áætlun um hvernig á að mæta nauðsynlegri styrkingu heilbrigðis- og velferðarkerfisins, engan raunverulegan áhuga á kjörum aldraðra, hvað þá heldur barnafjölskyldna eða öryrkja. Þau hafa bara yfirföfuð engan áhuga á almenningi.


Félagar!
Forsendan fyrir ógeðslegu þjóðfélagi eins og Styrmir kallaði hraksmíði valdastéttarinnar, er sú að í valdastólunum sitja andfélagsleg spillingaröfl. Það þarf nefnilega spillt fólk sem hefur vald til að vinna gegn óréttlæti en gerir það ekki, sem tekur ekki ákvörðun um að breyta því að 10 þúsund börn hér á landi búa við fátækt, sem skipar veiku fólki að standa úti þegar það bankar á hurðar heilbrigðisþjónustunnar, sem tekur ákvörðun um að það sé í lagi að öryrkjar þurfi að drekka vatn í sunnudags-kvöldmatinn vegna þess að peningurinn er búinn um mánaðarmótin, en gefur útvöldum vinum sínum tugi og hundruði milljarða af sameiginlegum eigum okkar. Það þarf nefnilega spillt stjórnmálafólk án sómakenndar, til að búa til ógeðslegt þjóðfélag þar sem valdastéttin hefur engin prinsipp, engar hugsjónir, ekki neitt nema þann eina ásetning að láta launafólk borga brúsann.


Ágætu félagar!
Framundan eru kjarasamningar sem munu reyna verulega á samstöðu og styrk launafólks og samtaka þeirra. Því verðum við að þétta raðirnar og muna að samstaða, stuðningur, baráttuþróttur og framsækni munu skila okkur árangri í komandi kjarasamningum. Allar merkjasendingar atvinnurekenda benda til þess að ekkert verði í boði nema vatnsþynntur grjónagrautur með verðbólgusúrri undanrennu. En á meðan, á meðan ætlar elítan að gæða sér á; einhverjum vínflöskum, skjóta upp flugeldum og smjatta á konfekti. Og þiggja svo einhverja hádegisverði og kvöldverði með ráðgjöfum og svo framvegis, svo vitnað sé beint í forstjóra Bankster-sýslunnar.


Kæru félagar
Við þurfum að bylta þessu gjaldþrota þjóðfélagsskipulagi sem er löngu gengið sér til húðar og byggja hér upp réttlátt og sjálfbært samfélag. Stöndum saman gegn spillingunni og byggjum upp gott velferðarsamfélag fyrir alla.

Munum að með samstöðunni munum við vinna!

Til hamingju með daginn!

 


Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)