Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

17. september 2024

Inngildur Íslendingur – eða ekki?

Miriam Petra Ómarsdóttir Awad. Æjósmynd/BIG

„Það þurfti jafnréttisbaráttu til að það yrði raunin að konur færu út á vinnumarkaðinn. Við kölluðum þessa jafnréttisbaráttu kvenna ekki inngildingu en auðvitað var hún það. Við konur erum enn að vinna að þessari inngildingu okkar á vinnumarkaði í dag, ég get nefnt kynbundinn launamun, kynferðislega áreitni og hvað fólk leyfir sér að segja inni á vinnustaðnum um konur. Viðhorfin gagnvart konum á vinnumarkaði eru enn mjög neikvæð eins og að það sé í lagi að greiða þeim lægri laun fyrir sömu störf og karlar.“

Eftir Axel Jón Ellenarson
Ljósmyndir: Birgir Ísleifur Gunnarsson

Orðið inngilding er nýyrði í íslensku sem hefur vakið athygli og fólki hefur fundist það hljóma framandi. Í stuttu máli sagt þýðir orðið inngilding – að tilheyra án aðgreiningar og er fjallað um það annars staðar hér í tímaritinu. Í tilfelli samsetningar félagsfólks í Sameyki af ólíkum uppruna og kyni skiptir skilningur á hugtakinu inngilding á vinnumarkaðnum miklu máli. Ljóst er að félagsfólk í Sameyki af útlendu bergi brotið er vel á annað þúsund talsins og starfar það hjá ríki og hjá Reykjavíkurborg að stærstum hluta. Það hefur fjölbreyttan bakgrunn heimalandsins og því mun fjölga vegna aukinna þarfa þjóðarinnar á opinberri grunnþjónustu. Þá er þjóðin að breytast og fjölbreytileiki samfélagsins með.

Víða er þó pottur brotinn og því skal ekki koma neinum á óvart að á íslenskum vinnumarkaði, og í samfélaginu öllu, eru fordómar gagnvart því fólki sem hingað ákveður að koma og starfa. Samkvæmt könnun Vörðu – Rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins sem út kom síðastliðið haust er staða innflytjenda mun verri en annarra hópa, hvort heldur sem litið er til fjárhagsstöðu eða heilsu.

Vegna þessa var Miriam Petra Ómarsdóttir Awad heimsótt og spurð út í hugtakið inngilding, og hvort íslenskt samfélag og íslenskur vinnumarkaður hafi tileinkað sér og skilið hvaða merkingu það hefur. Hún er sérfræðingur á mennta- og menningarsviði hjá Rannís, er inngildingarfulltrúi Landsskrifstofu Erasmus+ og veitir almenna ráðgjöf og þjálfun varðandi inngildingu í Erasmus+ verkefnum. Miriam er jafnframt verkefnastýra Eurodesk á Íslandi og sér um kynningar og fyrirspurnir um tækifæri fyrir ungt fólk í evrópsku samstarfi.


„Inngilding er að viðurkenna ólíkar aðstæður og að ólíkt fólk er í samfélaginu eða á vinnustaðnum. Hún felst í því að byrðin sé ekki bara á þeim sem ætla sér að aðlagast, heldur að deila byrðinni að koma til móts við ólík viðhorf, þarfir og venjur fólks svo að því líði vel, hvort sem þú sért með fæðuofnæmi eða með fötlun eða talar öðru tungumáli og þá að ekki sé tekið til þess á vinnustaðnum.“

Inngilding fagnar fjölbreytileikanum
Hvað finnst þér um orðið inngildingu sem ekki er öllum tamt að nota?

„Mér finnst orðið inngilding mjög gott vegna þess að það er gagnsætt orð, og þýðir að fólk sé viðurkennt eins og það er innan ákveðins hóps, hvort sem það er lítill hópur, vinnustaður eða samfélagið í heild. Ég veit að mörgum þykir þetta vera orðskrípi, en orðið inngilding þýðir meðal annars að maður átti sig á að við erum fjölbreytt og við þurfum að viðurkenna það. Við erum sem samfélag komin á þann stað að við sjáum að það er fjölbreytileiki í samfélaginu til staðar þegar litið er til kyns, kynhneigðar, húðlitar, fötlunar, trúar, tungumála, starfsgetu, aldurs og svo framvegis. Þetta er semsagt fjölbreytileikinn, en inngilding er síðan ákveðið og meðvitað skref sem við þurfum að taka svo öllum þessum fjölbreyttu einstaklingum líði vel í því umhverfi sem þeir eru í, hvort sem er á vinnustöðum, í samfélaginu eða í vinahópnum,“ segir Miriam.

Hún segir að inngilding gerist oft af sjálfu sér, til dæmis í vinahópum án þess að fólk sé endilega meðvitað um það.

„Inngilding gerist náttúrulega við ákveðnar kringumstæður. Ég get nefnt sem dæmi þegar fólk innan vinahóps þekkir hvert annað það vel, að það mætir ólíkum þörfum einstaklinganna innan vinahópsins. Þegar hópurinn ákveður vinahitting er passað upp á að Jóna eða Jón geti komið, þó að þau séu bundin við hjólastól. Þegar Jón eða Jóna eru úti í samfélaginu er kannski ekki verið að hugsa um þeirra þarfir, þannig að inngilding er ekki þar fyrir hendi. En í vinahópnum hefur átt sér stað inngilding, án þess að fólk hafi sérstaklega notað það hugtak meðvitað, heldur frekar af náttúrulegum orsökum. Þegar fólki þykir vænt um hvert annað hugar það að þörfum hinna – að allir geti verið þátttakendur.“

Miriam Petra segir að þegar vinnuveitendur og samstarfsfólk er meðvitað um ólíkar þarfir fólks og kannski líka ólíkar hindranir sem það mætir af ýmsum ástæðum í samfélaginu, þá geti samfélagið farið að stíga þessi skref inngildingar, þannig að fólkið sjálft þurfi ekki að burðast með þá slæmu tilfinningu að tilheyra ekki.


„Við þurfum að taka vel á móti fólki. Í stað þess að líta svo á að það sé bara hingað komið til að vinna í skamman tíma og fara síðan, ættum við að taka öllu fólki opnum örmum og gefa því tækifæri.“

„Inngilding er að viðurkenna ólíkar aðstæður og að ólíkt fólk er í samfélaginu eða á vinnustaðnum. Hún felst í að byrðin sé ekki bara á þeim sem ætla sér að aðlagast, heldur að deila byrðinni með því að koma til móts við ólík viðhorf, þarfir og venjur fólks svo að því líði vel, hvort sem þú ert með fæðuofnæmi eða með fötlun eða talar annað tungumál. Og ef ekki er tekið til þess á vinnustaðnum, þá er augljóst að það vaknar innra með fólki að það sé ekki með og þá er oft um að ræða aðgreiningu.“

 

„Rosalega talar þú góða íslensku“
Miriam Petra útskrifaðist með MA-gráðu í hnattrænum fræðum af Félagsvísindasviði Háskóla Íslands. Lokaritgerð hennar byggðist á rannsókn á upplifun íslenskra kvenna sem eiga ættir að rekja til Mið-Austurlanda. Tilgangur rannsóknarinnar var að varpa ljósi á fordóma í íslensku samfélagi og sýna tengsl fordóma og þjóðernis við sjálfsmynd þjóðarinnar. Spurð hvort fordómar séu til staðar þegar fólk af útlendum uppruna blandast ekki öðrum á vinnustaðnum segir hún að það geti vel verið því fordómar birtist með ýmsum hætti.

„Fordómar birtast alls konar, ekki bara gegn innflytjendum, heldur líka meðal Íslendinga sem hér eru fæddir. Fólk getur útskúfað aðra á vinnustaðnum ef það talar ekki lýtalausa íslensku, eða er dökkt á hörund og á uppruna frá ólíkum menningarheimi, annað foreldri getur t.d. verið af útlendum uppruna. Fólk sem búið hefur á Íslandi alla ævi getur upplifað sig útundan vegna þessa í okkar samfélagi. Einnig birtast fordómar í hvernig fólk leyfir sér að þráspyrja fólk hvaðan það sé ef það er dökkt á hörund. Fólk svarar jafnvel á reiprennandi íslensku að það sé fætt á Landspítalanum og hafi alist upp á Seltjarnarnesi. Þá vakna fleiri spurningar, jafnvel efasemdir, og svo er sagt „rosalega talar þú góða íslensku“. Svona athugasemdir um fólk eiga bara við ef það er annaðhvort innflytjendur eða þau sem eru fædd á Íslandi en eru ólík í útliti, til dæmis með dökkt hörund. Það er allt í lagi að kynnast fólki á eðlilegan hátt en ekki byrja kynnin á spurningaflóði um uppruna fólks. Hins vegar fyrirfinnast fordómar í öllum löndum og alls staðar, ekki bara hér á landi. Við þurfum bara að vakna til vitundar um hvernig þetta er og hvernig við hegðum okkur.


„Þegar fólki líður vel þá minnka alls konar vandamál í samfélaginu, hvort sem það er inni á vinnustaðnum eða í vinahópnum. Við þurfum að taka vel á móti fólki.“

Við Íslendingar getum líka verið blind á þetta þegar við til dæmis flytjum til útlanda. Í langflestum löndum sem við flytjum til erum við í forréttindastöðu að vera Íslendingar, með öðrum orðum hvítir vestrænir innflytjendur. Þannig getum við oft ekki sett okkur í þau spor hvernig er að vera innflytjandi á Íslandi, hvað þá þegar við teljum af einhverjum ástæðum annað fólk vera skörinni lægri en við sjálf sem það er auðvitað ekki. Jafnvel eru til Íslendingar sem búið hafa erlendis sem geta skilið hvað það er að vera innflytjandi; að deila ólíkri menningu, trúarbrögðum og tungumáli með innfæddum. Við vitum að við leyfum okkur þetta þegar við gerumst innflytjendur í öðrum löndum. Þá tölum við um íslenska menningu, trúna, tungumálið, fólkið og íslenska náttúru af mikilli innlifun og okkur er oftast tekið mjög vel. Við ættum að vera meðvituð um þessi forréttindi, ekki blind,“ segir Miriam og brosir.

 

Forréttindi eins, öðrum framandi
Miriam segir nauðsynlegt að við hugsum um hvað forréttindi séu. Hún segir að fólk sem ber útlenskt nafn njóti síður sömu þjónustu og þeir sem bera íslenskt nafn. Hún nefnir í þessu sambandi eigin reynslusögu. Hún hafi margoft upplifað að eiga góð samskipti þegar hún leitar sér þjónustu í gegnum síma, en þegar hún mæti fólki breytist viðmótið, það bara finnist. Þá sé betra að vera hvít en brún. Það eru þá ákveðin forréttindi hér á landi að vera hvít. Sama gildir um nafngift. Faðir hennar var fæddur í Egyptalandi og var látinn taka sér íslenskt nafn þegar hann fékk ríkisborgararétt hér á landi 1969 í stað nafnsins sem honum var gefið af foreldrum sínum og því er hún Ómarsdóttir.

„Mig hefur langað til að kenna mig við nafn föður míns Awad sem honum þótti svo vænt um en hætti við að vera einungis Awad vegna þess að ég fann að það er auðveldara að vera líka Ómarsdóttir en Miriam Petra Awad í samfélaginu. Ég vil samt alls ekki skipta fólki upp í hópa eftir forréttindastöðu þess. Ég meina, það er ekki bara nóg að benda fólki á hvaða forréttinda það nýtur. Við þurfum miklu frekar að upplýsa samfélagið, nota verkfærið sem inngilding er, þannig að við séum meðvituð og skiljum að þeir þættir sem geta haft hindrandi áhrif á aðra hafa það ekki endilega fyrir þig.“

 

Fjölmenningarhátíðir ekki endilega góðar fyrir fjölmenninguna
Miriam segir að fjölmenningarhátíðir geti haft neikvæð áhrif á inngildingu og að inngilding sé ekki bara fyrir eitthvað ákveðið fólk, heldur fyrir allt fólk, hvert og eitt.

„Ég er heldur ekkert endilega hrifin af fjölmenningarhátíðum vegna þess að þá er fjölmenningin bara til á einhverjum ákveðnum dögum og þá orðinn til sér hópur – þau og svo við. Það er ekki endilega gott fyrir fjölmenningu. Inngilding er miklu frekar að blanda fjölmenningu inn í hversdagslífið þannig að hún verði hluti af daglegu lífi. Þegar íslenskt samfélag er skoðað með gleraugum jafnréttisbaráttunnar sjáum við að fyrir ekki svo mörgum árum síðan voru konur ekki í eins miklum mæli á vinnumarkaðnum. Það þurfti jafnréttisbaráttu til að það yrði raunin að konur færu út á vinnumarkaðinn. Við kölluðum þessa jafnréttisbaráttu kvenna ekki inngildingu en auðvitað var hún það. Við konur erum enn að vinna að þessari inngildingu okkar á vinnumarkaði í dag, ég get nefnt kynbundinn launamun, kynferðislega áreitni og hvað fólk leyfir sér að segja inni á vinnustaðnum um konur. Viðhorfin gagnvart konum á vinnumarkaði eru enn mjög neikvæð eins og að það sé í lagi að greiða þeim lægri laun fyrir sömu störf og karlar. Sjáðu til, inngildingin snýr í þessu tilfelli að kynjabreytu gagnvart konum, að þær séu metnar að verðleikum á vinnumarkaði til jafns við karla. Sama á við um kynsegin fólk, trans fólk og aðra hópa. Við höfum náð langt í kvennabaráttunni en henni er ekki lokið eða annarri baráttu fyrir sjálfsögðum mannréttindum, jöfnuði og réttlæti.“

 

Fjölbreytileikinn á bak við tjöldin
Sama þurfi að eiga sér stað, segir hún, gagnvart öðrum hópum sem upplifa einhvers konar jaðarsetningu á vinnumarkaði og í samfélaginu almennt. Samfélagið sé fjölbreyttara en við höldum, en fjölbreytileikinn sé ekki endilega sýnilegur, meira svona bak við tjöldin eins og hún orðar það.


„Hins vegar eiga börn innflytjenda af annarri og þriðju kynslóð tengsl við land innflytjendanna af fyrstu kynslóð. Þannig að við erum miklu fjölbreyttara samfélag heldur en við höldum að við séum.“

„Því miður sjáum við ekki endilega fjölbreytileikann endurspeglast úti í samfélaginu og er einhvern veginn mikið á bak við tjöldin. Samkvæmt tölfræðinni er fólk með erlendan bakgrunn ¼ af kökunni á Íslandi. Ég tel oft með börn Íslendinga hér sem fæddust í öðru landi. Þau tala oft ekki lýtalausa íslensku, eru með djúp tengsl við landið sem þau fæddust í, þau upplifa oft að þau passi ekki alltaf inn í samfélagið, hafa notið barnæskunnar í öðru landi og komið jafnvel seint heim til Íslands með foreldrum sínum eða foreldri. Inni í þessari tölu eru ekki endilega börn innflytjenda af annarri kynslóð né þeirra sem eiga annað foreldri sem er innflytjandi. Hins vegar eiga börn innflytjenda af annarri og þriðju kynslóð tengsl við land innflytjendanna af fyrstu kynslóð. Þannig að við erum miklu fjölbreyttara samfélag heldur en við höldum að við séum. Bak við tjöldin segi ég, því við sjáum ekki fjölbreytileikann endurspeglast í æðstu ráðamönnum þjóðarinnar né í forstjórastöðum hjá stofnunum og fyrirtækjum. Það er mjög sjaldgæft að þar sé fólk af erlendum uppruna. Við sjáum ekki fjölmenningu mikið endurspeglast í dægurmenningu þjóðarinnar, í sjónvarpsþáttum og kvikmyndum. Þó er það að breytast aðeins sem er mjög gott. Það sem mér finnst hafa breyst til batnaðar er að við tökum eftir því frekar en áður, ekki bara innflytjendur, þegar vart verður við fordóma gegn fólki eða það jaðarsett.“

 

Tökum fólki opnum örmum
Inngilding er að átta sig á hvernig við komum fram við annað fólk, segir Miriam. Í raun sé hluti inngildingar að vera með vitund um að fólk er fyrst og fremst fólk en ekki eitthvað annað, eins og þegar vísað er eingöngu til uppruna þess o.s.frv. Þá segir hún að fólki, sem aldrei hefur upplifað útskúfum og jaðarsetningu vegna uppruna, húðlitar eða trúar, þyki ekkert tiltökumál að spyrja hvaðan fólk sé.

„Í tilfelli innfæddra með uppruna á Íslandi langt aftur í aldir þykir því ekkert tiltökumál að spyrja annan innfæddan með uppruna langt aftur hvaðan viðkomandi sé og svarið er „... frá Skagaströnd“. En fyrir það fólk sem hingað hefur komið til að lifa og starfa getur það verið toppurinn á ísjakanum sem minnir á öll hin skiptin þegar þau eru minnt á uppruna sinn og jaðarsetningu og útskúfun vegna hans, eða bara vegna þess að þau bera útlent nafn. Þetta er líka algeng upplifun Íslendinga af erlendum uppruna sem hér eru fæddir. Þeim geta þótt þessar spurningar mjög erfiðar og viðkvæmar. Inngilding felur einnig í sér að átta sig á þessu. Þegar fólki líður vel þá minnka alls konar vandamál í samfélaginu, hvort sem það er inni á vinnustaðnum eða í vinahópnum. Við þurfum að taka vel á móti fólki. Í stað þess að líta svo á að það sé bara hingað komið til að vinna í skamman tíma og fara síðan, ættum við að taka öllu fólki opnum örmum og gefa því tækifæri. Það er mikilvægt að við séum upplýst og meðvituð um hvernig við viljum að samfélagið hegði sér,“ segir Miriam Petra að lokum.