Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

Ávarp formanns

Ávarp Árna Stefáns Jónssonar formanns Sameykis stéttarfélag í almannaþjónustu

Félagar og aðrir landsmenn

Fyrir mörg okkar er fyrsti maí einn af mikilvægust dögunum á almanakinu. Á þessum baráttudegi launafólks setum við fram áherslur okkar og kröfur, lítum yfir farinn veg og horfum til framtíðar. Hinn rauði fáni verkalýðshreyfingarinnar er tákn uppreisnar gegn ranglæti og kröfur um breytingar.

Að þessu sinni er óöryggi í loftinu. Óværa hefur herjað á okkur og allan heiminn. Við höfum tekist á við hana af öryggi og af mikilli samstöðu. Hún hefur gefið eftir, að minnsta kosti í bráð, en hinar efnahagslegu afleiðingar eru enn ekki ljósar og útlitið er ekki gott.

Atvinnuleysið stefnir í hæstu hæðir og mun það hafa miklar afleiðingar fyrir heimilin í landinu. Því er mikilvægt að stjórnvöld forgangsraði aðgerðum sínum í þágu almennings og heimilanna. Þar vil ég sérstaklaga nefna að passa þarf upp á að fólk lendi ekki aftur í vandræðum með afborganir af húsnæðislánum sem olli miklum eignatilfærslum í kreppunni 2008.

Þessa dagana erum við hjá Sameyki stéttarfélagi að ganga frá síðustu kjarasamningunum. Þessara kjarasamninga verður minnst fyrir þann árangur sem náðist í styttingu vinnuvikunnar. Til þess að ljúka þeim þurftum við að beita miklum þrýstingi og verkfallsboðun. Við ætluðum okkur meira, en skjótt skipast verður í lofti. Þegar kom að verkfallinu hafði óværan skollið á og í einni svipan breyttist samningsstaða okkar allverulega.

Í þeirri stöðu var einungis eitt að gera. Við sem opinberir starfsmenn þurftum að standa vaktina og nýta krafta okkar til þess halda uppi sterku velferðarkerfi á erfiðum tímum. Um það snúast okkar störf alla daga. Það er hins vegar á tímum sem þessum að almenningur sér hversu mikilvæg störfin eru, hversu stórt hlutverk okkar er í að varðveita og halda utan um fólkið í landinu og hversu sterkir opinberir starfsmenn eru í raun og sann.

Félagar  njótið dagsins, samstaða meðal launafólks er lykilatriði!