Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

Hlutverk trúnaðarmanns

Trúnðarmenn eru tengiliður milli Sameykis og félagsmanna á vinnustað.  Að vera trúnaðarmaður bíður uppá margvísleg tækifæri til að þroska sig í starfi og leik.
Halda áfram

Hlutverk og verkefni trúnaðarmanna

  • Standa vörð um kjör og réttindi starfsmanna / félagsmanna.
  • Vera fulltrúi Sameykis á vinnustað hvað varðar framkvæmd kjarasamnings og réttargæslu félagsmanna.
  • Vera fulltrúi í samstarfsnefnd á vinnustað vegna endurskoðunar stofnanasamnings þar sem það á við.
  • Koma upplýsingum á framfæri við starfsmenn, bæði frá stéttarfélagi og atvinnurekanda.
  • Vinna að lausn vandamála sem kunna að koma upp á vinnustað og óska eftir aðstoð starfsmanna Sameykis ef þarf.
  • Fylgjast með nýráðningum og uppsögnum.
  • Sækja fundi trúnaðarmannaráðs, en í því sitja allir trúnaðarmenn Sameykis.
  • Sækja fræðslu trúnaðarmanna.

Trúnaðarmenn eru tengiliður milli Sameykis og félagsmanna á vinnustað og þurfa að gæta þess m.a. að kjarasamningar séu haldnir og réttur starfsmanna virtur. Þeir eru til aðstoðar ef og þegar upp rís ágreiningur um samningsbundin kjör starfsmanna, hvort sem óskað er af starfsmanni eða vinnuveitenda.

Trúnaðarmenn mynda saman trúnaðarmannaráð Sameykis og eru að minnsta kosti tveir trúnaðarmannaráðsfundir haldnir að vetri og þar eru teknar allar meiriháttar ákvarðanir milli aðalfunda.
Trúnaðarmenn eru fulltrúar stéttarfélagsins úti á vinnustöðum. Þeir standa þó aldrei einir því stjórn og starfsmenn félagsins eru þeim til stuðnings við að leysa úr vanda sem upp kann að koma og heyra undir starfssvið félagsins. Ef ágreiningur kemur upp getur það falið í sér að trúnaðarmaður þarf að kynna sér málavexti þeirra sem málið varða, taka við athugasemdum/ábendingum samstarfsmanna og krefjast úrbóta ef í ljós kemur að brotið er á samstarfsmanni.  Trúnaðarmaður getur óskað eftir aðstoð starfsmanna Sameykis ef lausn næst ekki á vinnustaðnum.

Hvað þarf trúnaðarmaður að hafa til að bera?

Góður trúnaðarmaður þarf fyrst og fremst að hafa áhuga á vellíðan og starfsöryggi félaga sinna. Hann þarf að vera vakandi fyrir vinnuumhverfinu og eiga auðvelt með mannleg samskipti, hafa ríka réttlætiskennd, eiga auðvelt með samstarf og vera óhræddur við að axla ábyrgð.
Vinnustaðir félagsmanna Sameykis eru sumir stórir og starfsmenn sinna ólíkum störfum. Til þess að rödd sem flestra heyrist í trúnaðarmannaráði félagsins er nauðsynlegt að starfsmenn úr ólíkum starfsgreinum gefi kost á sér til trúnaðarstarfa. Kjörinn trúnaðarmaður þarf því að þekkja til sem flestra starfa á sínum vinnustað og vera í góðu sambandi við félaga sína.

Þeir sem sinnt hafa trúnaðarstörfum fyrir stéttarfélög þekkja það að sú reynsla nýtist þeim ekki síður vel í starfi. Þekking á málefnum starfsmanna, leikni í mannlegum samskiptum og reynsla af samstarfi við lausn verkefna á sviði starfsmannamála er mjög verðmæt.

Sameyki stefnir að því alla daga að efla félagið í baráttunni fyrir bættum kjörum og auknum réttindum félagsmanna sinna. Vinnumarkaðurinn er að breytast og hlutverk trúnaðarmanna verður sífellt meira og mikilvægara. Með breyttu launakerfi og aukinni hlutdeild forstöðumanna stofnana í samnings- og réttindamálum félagsmanna er nauðsynlegt að starfsmenn hafi í sínum röðum hæfa og vel þjálfaða trúnaðarmenn.

Í stafi trúnaðarmannsins felst ábyrgð og flestir sem taka hlutverkið að sér upplifa að það sé gefandi, fræðandi, ýti undir samkennd, samstöðu og efli einstaklinginn. Mikilvægt er að fulltrúar og trúnaðarmenn séu meðvitaðir um að það er ekki gerð sú krafa að þeir viti allt og kunni allt. Þeir þurfa hins vegar að vita hvert á að leita eftir upplýsingum. Trúnaðarmenn geta alltaf leitað til félagsins, starfsmanna eða stjórnar ef þá vantar upplýsingar eða eru í vafa um einhver atriði. Eindregið er mælt með því að trúnaðarmenn fari á þau námskeið sem boðið er upp á til að þeir verði betur í stakk búnir til að sinna skyldum sínum.

Trúnaðarmannaráð

Trúnaðarmannaráð er myndað af öllum trúnaðarmönnum félagsins og stjórn. Hlutverk trúnaðarmannaráðs er að vera stjórn félagsins til stuðnings og afgreiðir það þau mál sem ekki þarf að leggja fyrir félags- eða aðalfund. 

Lög um stéttarfélög og vinnudeilur

Lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna

Formleg staða trúnaðarmanna

 

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)