Kosning trúnaðarmanna Sameykis
Kosið er í maí á oddatöluári til tveggja ára í senn. Hafa ber i huga að sá sem starfsmenn velja sem sinn trúnaðarmann er fulltrúi þeirra gagnvart atvinnurekanda. Kosning fer fram í samráði við SAMEYKI en trúnaðarmaðurinn fær staðfestingu á kjöri og umboð sitt frá félaginu.
Mikilvægt er að hafa trúnaðarmenn á öllum vinnustöðum. Á hverjum þeim vinnustað, þar sem fimm eða fleiri félagsmenn SAMEYKIS starfa, eru félagsmenn hvattir til að kjósa sér trúnaðarmann. Í dag eru trúnaðarmenn SAMEYKIS um 320 talsins. Allir félagsmenn SAMEYKIS geta boðið sig fram sem trúnaðarmenn. Hlutverkið felur meðal annars í sér að gæta hagsmuna félagsmanna SAMEYKIS á vinnustað, miðla upplýsingum á milli félagsmanna, koma að gerð stofnanasamninga þar sem launaröðun er ákveðin, gæta þess að kjarasamningar séu virtir og aðstoða í ágreiningsmálum.
Um er að ræða gefandi starf sem felur í sér tækifæri til að bæta við sig þekkingu og reynslu á sviði mannauðsmála. Einnig gefur það innsýn í rekstur stofnunar og starfsemi stéttarfélaga. Trúnaðarmönnum býðst að sækja ýmiskonar þjálfunarnámskeið sem nýtast þeim jafnt í leik sem starfi.
Kjörtímabili trúnaðarmannaráðs 2021-2023 fer senn að ljúka en nýtt kjörtímabil hefst 31.maí 2023 og stendur í tvö ár til 31.maí 2025.
Framkvæmd kosninga
Kjörgögn vegna kosningar trúnaðarmanna eru send til allra trúnaðarmanna í pósti í apríl á oddatöluári. Óski aðrir félagsmenn eftir sendingu geta þeir haft samband við Sameyki í síma 525-8330.
Fráfarandi trúnaðarmanni ber að skipa umboðsmann og hengja upp auglýsingu í sameiginlegu rými, um væntanlega kosningu með nafni umboðsmannsins. Auglýsinguna má einnig senda í tölvupósti. Allir félagsmenn geta boðið sig fram til trúnaðarmanns en kosning fer fram á vinnustað ef fleiri en einn eru í framboði. Áhugasamir um starfið setja sig í samband við umboðsmann.
Kjörgögn vegna kosninga
Hér má finna kjörgögn vegna kosningar trúnaðarmanna fyrir kjörtímabilið 2023 - 2025:
- Framkvæmd kosninga
- Auglýsing um umboðsmann
- Auglýsing A4 um kosninguna
- Starfsreglur trúnaðarmanna
- Sýnishorn plaggat - nýkjörinn trúnaðarmaður
Þegar búið er að kjósa trúnaðarmann skal senda tilkynningu um það til skrifstofu Sameykis. Það er mikilvægt að það sé gert með formlegum hætti.