Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

Fræðslusjóður

Stofnanir, svið og vinnustaðir Reykjavíkurborgar og Félagsbústaðir geta sótt um styrkir  til námskeiðahalds og annars kostnaðar við menntun fyrir sjóðsfélaga sem þar starfa.

Reglugerð Fræðslusjóðs Sameykis

1. gr. Nafn sjóðsins
Sjóðurinn heitir Fræðslusjóður Sameykis og er til hans stofnað á grundvelli kjarasamnings Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu og Reykjavíkurborgar. Sjóðurinn starfar með því skipulagi sem segir í reglugerð þessari og starfsreglum. Heimili sjóðsins og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr. Markmið sjóðsins
Markmið sjóðsins er að efla sí- og starfsmenntun sjóðsfélaga til að auka hæfni þeirra og möguleika til starfsþróunar.
Sjóðstjórn er heimilt að veita fjárstyrki úr sjóðnum til eftirfarandi aðila, vegna verkefna er samræmast markmiðum sjóðsins:

  • Félagsmanna Sameykis sem aðild eiga að sjóðnum
  • Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu
  • Sviða og starfsstaða Reykjavíkurborgar

Sjóðstjórn setur sér starfsreglur um styrkúthlutanir og upphæðir styrkja.

3. gr. Stjórn og skoðunarmenn
Stjórn sjóðsins skal skipuð sex aðalmönnum og tveimur varamönnum til tveggja ára í senn. Formaður og varaformaður skuli skipaðir af stjórn. Auk þess skal skipa tvo skoðunarmenn, einn frá hvorum samningsaðila. Stjórn sjóðsins skal halda reglubundna fundi. Stjórnin skal halda gerðabók og rita í hana allar samþykktir sínar. Til þess að samþykkt sé lögmæt þarf meirihluti stjórnarmanna að greiða henni atkvæði.

4. gr. Tekjur sjóðsins
Tekjur sjóðsins eru:
a) Framlag úr borgarsjóði samkvæmt kjarasamningi aðila
b) Vaxtatekjur
c) Aðrar tekjur
Tekjum sjóðsins skal einungis varið í samræmi við markmið hans sbr. 2. gr.
Ávöxtun sjóðsins skal vera með ábyrgum hætti.

5. gr. Umsóknir
Umsóknir um styrk úr sjóðnum skulu sendar stjórn sjóðsins þar sem fram kemur lýsing á því námi eða verkefni sem styrkurinn skal renna til, áætlaður kostnaður, hvenær fyrirhugað er að stunda námið eða vinna verkefnið og aðrar þær upplýsingar er sjóðstjórn kann að telja nauðsynlegar.

6. gr. Reikningshald og innheimta
Skrifstofa Sameykis annast reikningshald sjóðsins, innheimtir tekjur hans og innir af hendi greiðslur úr honum, allt eftir tilvísun sjóðstjórnar.

7. gr. Reikningsár sjóðsins
Reikningsár sjóðsins er almanaksárið. Reikningar skulu liggja fyrir í síðasta lagi í apríl ár hvert og skulu endurskoðaðir af til þess kjörnum skoðunarmönnum ásamt löggiltum endurskoðendum.

8. gr. Breytingar á reglugerð
Stjórn sjóðsins fjallar um breytingar á reglugerð þessari. Tillögur stjórnar um breytingar á reglugerðinni skulu hljóta staðfestingu Starfskjaranefndar Sameykis og Reykjavíkurborgar.

 

1. Markmið
Auka möguleika sviða, stofnana og vinnustaða til að þróa hæfni og þekkingu starfsmanna þannig að þeir geti á betri hátt uppfyllt þær kröfur sem starfsemin kallar á hverju sinni.

2. Hverjir geta sótt um
Samningsaðilar sem greiða iðgjald fyrir sjóðsfélaga sem eru Reykjavíkurborg, Félagsbústaðir, Faxaflóahafnir og Strætó..

3. Hvað er styrkt
Verkefni sem tengjast því að þróa hæfni þeirra félagsmanna sem samningsaðilar greiða iðgjald fyrir í sjóðinn.
Fræðslusjóður styrkir eftirfarandi:
a. Gerð starfsþróunaráætlana
b. Verkefni sem byggja á starfsþróunaráætlun
c. Námskeið
d. Annað
Hvatt er til samráðs við sjóðsstjórn áður en lagt er í viðameiri verkefni.

Fræðsluferðir starfseininga:
Starfseiningar (deildir/svið) geta sótt um styrki vegna skipulagðra fræðsluferða sem tengjast fagsviði eða starfi þeirra. Á þetta við um fræðsluferðir innanlands sem utan. Rökstyðja þarf staðarval náms.

Dagskrá vegna fræðsluferðar innanlands þarf að spanna að lágmarki 6 klst. í fræðslu. Dagskrá erlendis þarf að skiptast á a.m.k. tvo daga og þarf hún að spanna að lágmarki 8 klst. í fræðslu. Stjórnandi viðkomandi starfseiningar skal tilgreina markmið ferðarinnar og hvernig hún nýtist til frekari þróunar starfseiningarinnar. Ítarleg dagskrá ferðar þarf að fylgja með ásamt heildarfjölda þátttakenda í ferð og nafnalista þeirra sem heyra undir sjóðinn.

4. Upphæð styrkja
Upphæðir styrkja eru háðar stöðu sjóðsins hverju sinni og mati stjórnar á þeim verkefnum sem sótt er um styrki fyrir.

5. Hvernig er sótt um
Sótt er um rafrænt hér  
Með hverri umsókn þarf að fylgja eftir því sem við á:
- sundurgreining kostnaðar,
- fjölda þátttakenda í verkefni/námskeiði og hversu margir þeirra eru í Sameyki,
- tilboð í verkefni
Umsókn um styrk verður að berast skrifstofu sjóðsins innan árs frá lokum náms/verkefnis.

6. Hvernig eru umsóknir afgreiddar
Úthlutun úr sjóðnum fer fram a.m.k. ársfjórðungslega eða oftar samkvæmt ákvörðun sjóðsstjórnar. Skila þarf inn reikningum fyrir kostnaði tengdum verkefninu. Ekki er þó unnt að skila inn reikningi sem er eldri en 12 mánaða.

Úthlutunarreglur samþykktar á fundi stjórnar Fræðslusjóðs Sameykis 7. desember 2022.

Stjórn Fræðslusjóðs 2021-2024:

Fulltrúar Sameykis: Þórarinn Eyfjörð, Árni Stefán Jónsson, Guðmundur Freyr Sveinsson og Þórdís Björk Sigurgestsdóttir. Rut Ragnarsdóttir er varamaður.

Fulltrúar Reykjavíkurborgar: Ásta Bjarnadóttir og Íris Jóhannsdóttir. Rakel Guðmundsdóttir er varamaður.

Hér að neðan er hægt að fylla út rafræna umsókn stofnana, sviða og vinnustaða í Fræðslusjóð.

Umsóknareyðublað.

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)