Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

Lög

Samþykkt lög á aðalfundi Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu 21. mars 2024
Halda áfram

Lög Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu

 

1. kafli. Nafn og tilgangur

1. gr. - Félagið heitir Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík. Félagssvæði þess er landið allt. Félagið skiptist í tvo hluta; opinberan hluta og almennan hluta. Í O-hlutanum eru einstaklingar sem aðild eiga á grundvelli 1. til 2. töluliðs 3. gr. laga þessara. Í A-hlutanum eru einstaklingar sem aðildarrétt eiga á grundvelli 3. og 4. töluliðs 3. gr. þessara laga. Lög nr. 94/1986 gilda um starfsemi O-hluta félagsins við gerð kjarasamninga en lög nr. 80/1938 gilda um kjarasamningsgerð A-hluta.

2. gr. - Tilgangur félagsins er:  

1. Að vinna að hagsmunamálum félagsfólks, standa vörð um réttindi þeirra og beita sér gegn hvers konar misrétti í launagreiðslum og starfskjörum. 

2. Félagið styður félagsfólk og veitir ráðgjöf vegna ráðningarkjara, starfskjara, eftirlauna, brottvikningar, félagslegrar mismununar og annars sem máli skiptir í samræmi við tilgang félagsins.

3. Að fara með fyrirsvar einstaklinga, sem aðild eiga að félaginu, við gerð kjarasamninga.

 

2. kafli. Aðild að félaginu og úrsögn

3. gr. - Rétt til inngöngu í félagið eiga:

        1. Einstaklingar í þjónustu ríkisins og sveitarfélaga sem eiga ekki aðild að öðru stéttarfélagi sem fer með samningsaðild fyrir viðkomandi starfsmann.
        2. Einstaklingar sem starfa hjá sjálfseignarstofnunum skv. 2. gr. laga nr. 94/1986.
        3. Einstaklingar sem starfa hjá stofnunum og fyrirtækjum sem starfa í almannaþágu.
        4. Einstaklingar sem starfa utan almannaþjónustu og eiga ekki aðild að öðru stéttarfélagi.

4. gr. -  Gangi félagi úr þjónustu ríkisins eða sveitarfélaga eða stofnana eða félaga sem falla undir ákvæði 2. tl. 3. gr. eða hætti störfum hjá atvinnurekanda skv. 3. og 4. tl. 3. gr. telst hann ekki lengur í félaginu.

Félagsfólk sem verður atvinnulaust á rétt til áframhaldandi félagsaðildar meðan það er á skrá sem atvinnulaust, enda eigi það ekki aðild að öðru stéttarfélagi. Atvinnulaus einstaklingur greiðir félagsgjald, en heimilt er stjórn félagsins að fella það niður að hluta eða öllu leyti. Einnig er stjórn heimilt að ákveða hvort viðkomandi einstaklingar njóti réttinda í sjóðum félagsins ef svo ber undir.

Félagsfólk sem lætur af starfi á aldursmörkum eða vegna veikinda og hefur unnið sér rétt til
eftirlauna eða örorkubóta öðlast rétt í lífeyrisdeild Sameykis samkvæmt grein 27.

Rísi deila um lögmæti uppsagnar félagsfólks úr starfi telst það þó aðili að félaginu þar til deilan er til lykta leidd.

Félagsfólk sem ráðið er til starfa hjá félaginu eða heildarsamtökum opinberra starfsmanna heldur ennfremur óskertum félagsréttindum meðan það gegnir slíku starfi.

5. gr. - Einstaklingur sem uppfyllir eitthvert skilyrða 3. gr. til þess að geta orðið félagi og greiðir félagsgjald til félagsins, telst þar með félagi. Félagið skal kynna nýju félagsfólki réttindi þess og skyldur í félaginu.

6. gr. - Þau sem greiða ekki félagsgjöld í a.m.k. 3 mánuði njóta hvorki atkvæðisréttar né annarra félagsréttinda fyrr en viku eftir að þau hafa greitt skuld sína við félagið.
Félagsstjórn er heimilt að undanþiggja einstaklinga félagsgjöldum ef veikindi eða aðrar sérstakar ástæður eru fyrir hendi.

7. gr. - Öll þau sem aðild eiga að félaginu eru skyldug að hlýða lögum þess. Þyki sannað að félagi hafi framið alvarlegt brot á lögum þessum eða vísvitandi valdið félaginu tjóni á annan hátt, getur aðalfundur vikið viðkomandi úr félaginu, en til þess þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða.

8. gr. - Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg og sendast félagsstjórn og telst viðkomandi hafa gengið úr félaginu þremur mánuðum eftir að úrsögn barst félagsstjórn. Óheimilt er að segja sig úr félaginu eftir að vinnudeilu hefur verið vísað til ríkissáttasemjara og þar til kjarasamningar hafa komist á.

3. kafli. Stjórn og stjórnarkosning

9. gr. - Stjórn félagsins skipa fimmtán einstaklingar, formaður og fjórtán meðstjórnendur, er skulu kosnir úr hópi fullgilds félagsfólks til þriggja ára í senn.

Formaður skal kosinn sérstaklega en fjórtán meðstjórnendur skulu kosnir í einu lagi. Ekki má sami einstaklingur gegna störfum formanns lengur en fjögur kjörtímabil (12 ár) samfellt.

Þótt formaður hafi setið í stjórn félagsins hefur það engin áhrif á þann tíma sem honum er heimilt að gegna formennsku. Meðstjórnendum er ekki heimilt að sitja samfellt í stjórn lengur en þrjú kjörtímabil (9 ár). Stjórnin kýs úr sínum hópi varaformann og ritara.

Ef eitt eða fleiri ganga úr stjórn á kjörtímabilinu, er stjórn heimilt að tilnefna nýjan einstakling í stjórn sem Trúnaðarmannaráð verður að staðfesta.

Ef formaður gengur úr stjórn á kjörtímabilinu þá tekur varaformaður við fram að næsta kjöri.

10. gr. - Kjör stjórnar fer fram við allsherjaratkvæðagreiðslu. Kjörstjórn skal senda félagsfólki kjörgögn. Atkvæðagreiðsla skal fara fram með rafrænum hætti ef því verður við komið, annars skriflegum og þá skal hafa hliðsjón af því sem tíðkast við utankjörfundarkosningu til Alþingis varðandi frágang kjörgagna. Kosning skal standa yfir í a.m.k. 10 daga ef hún er rafræn en 15 daga annars og skal henni lokið sólarhring fyrir aðalfund. Atkvæði sem berast kjörstjórn að þeim tíma liðnum skulu ógild.

Kjörseðill skal vera tvískiptur þannig:
1. hluti fyrir formannskjör
2. hluti fyrir kjör meðstjórnenda

Nöfnum frambjóðenda skal raðað í stafrófsröð í hverjum hluta. Tilgreina skal vinnustað frambjóðenda og starfsheiti. Komi ekki fram tillögur um fleiri menn í hvert stjórnarsæti en kjósa skal eru þeir sjálfkjörnir.

11. gr. - Trúnaðarmannaráð skal kjósa uppstillingarnefnd sem skipuð er 9 einstaklingum og tveimur til vara. Kjósa skal nefndina á fyrsta haustfundi á kosningavetri. Stjórn félagsins skal undirbúa tillögu um uppstillingarnefndina sem lögð er fyrir Trúnaðarmannaráð.

Hlutverk uppstillingarnefndar er eftirfarandi:

Gera tillögu um formann og stjórn félagsins. Einnig skal hún gera tillögur um stjórn orlofssjóðs, stjórn starfsmenntunarsjóðs, stjórn styrktar- og sjúkrasjóðs, stjórn vinnudeilusjóðs og kjörstjórn.

Uppstillingarnefnd skal leggja tillögur sínar fyrir Trúnaðarmannaráð eigi síðar en 40 sólarhringum fyrir aðalfund þegar stjórn félagsins er kosin. Trúnaðarmannaráð skal afgreiða tillögur uppstillingarnefndar til samþykktar og verða þær tillögur ráðsins.

Kynna skal tillögur Trúnaðarmannaráðs á heimasíðu félagsins.

Heimilt er 50 eða fleiri félögum að gera tillögur um einn eða fleiri einstaklinga í stjórn. Skulu þær vera skriflegar og berast stjórn félagsins a.m.k. 25 sólarhringum fyrir aðalfund. Öllum tillögum skal fylgja skriflegt samþykki þeirra sem tillaga er gerð um. Vanti samþykki aðila telst tillaga um hann ógild. Tillögum skulu fylgja upplýsingar um vinnustað, kennitala og heimilisfang.

Auglýsa skal eftir tillögum um stjórnarmeðlimi þegar stjórnarkjör fer fram, sbr. ákv. 9. og 10. gr.

4. kafli. Aðalfundur

12. gr. - Aðalfundur er æðsta vald félagsins. Aðalfundur skal auglýstur á tryggilegan hátt með a.m.k. 35 sólarhringa fyrirvara. Aðalfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað.

13. gr. - Aðalfund skal halda fyrir lok marsmánaðar ár hvert. Takist ekki að ljúka aðalfundarstörfum á einum fundi skal boða til framhaldsaðalfundar.

Dagskrá aðalfundar:

1. Stjórn félagsins gefur skýrslu um starfsemi félagsins á síðastliðnu ári.
2. Lagðir fram til samþykktar endurskoðaðir reikningar félagsins fyrir síðastliðið almanaksár.
3. Tekin ákvörðun um tillögur til lagabreytinga og breytinga á reglum sjóða.
4. Úrslit allsherjaratkvæðagreiðslu í stjórnarkjöri kynnt.
5. Kosinn löggiltur endurskoðandi félagsreikninga, tveir skoðunarmenn og tveir til vara.
6. Kosnir fimm einstaklingar í kjörstjórn og jafnmargir til vara.
7. Ákveðið árgjald félagsfólks og skipting þess milli sjóða.
8. Kosið í stjórn orlofssjóðs, vinnudeilusjóðs, starfsmenntunarsjóðs og styrktar- og sjúkrasjóðs skv. reglum þeirra.
9. Fjárhagsáætlun næsta árs lögð fram til samþykktar.
10. Ályktanir aðalfundar afgreiddar.
11. Önnur mál.

Ofantalin eru sérstök verkefni aðalfunda, nema á því ári sem ekki fer fram stjórnarkjör, þá falla af dagskrá fundarins töluliðir 4, 6 og 8.

14. gr. - Kjörstjórn skipa fimm einstaklingar og jafnmargir til vara og skal kosin úr hópi fullgilds félagsfólks til þriggja ára á þeim aðalfundi þegar stjórnarkjör fer fram.

Kjörstjórn skal ásamt stjórn félagsins hafa á hendi undirbúning og framkvæmd kosningarinnar. Sé einstaklingur í kjörstjórn í framboði við stjórnarkjör skal hann víkja sæti fyrir varamanni. Sá varamaður sem flest atkvæði hefur fengið tekur fyrsta sæti sem losnar í kjörstjórn, þá sá sem næstflest atkvæði hefur fengið og þannig áfram.

15. gr. - Stjórn félagsins lætur gera kjörskrá um allt félagsfólk er atkvæðisréttar nýtur, sbr. 6. gr. og skal hún liggja frammi á skrifstofu félagsins frá því að aðalfundur er auglýstur.

Allar kærur út af kjörskrá skal kjörstjórn úrskurða um. Kærufrestur rennur út sólarhring fyrir aðalfund.

Í kjörskrá skulu skráðar upplýsingar um kennitölu og heimilisfang félagsfólks.

16. gr. - Félagsfólk hefur frjálst val að kjósa þá einstaklinga sem í kjöri eru og skal það gert á þann hátt að merkja við fyrir framan nafn þess sem kosinn er. Öll önnur merki eða áritanir ógilda kjörseðilinn. Kjörstjórn getur heimilað rafræna kosningu.

Kjósa ber einn einstakling við formannskjör og fjórtán einstaklinga við kjör meðstjórnenda. Sé ekki kosin rétt tala stjórnarmanna í einhverjum hluta kjörseðils er hann ógildur að því er þann hluta varðar.

 

Kjörstjórn sker úr um gildi vafaatkvæða.

17. gr. - Kjörstjórn ákveður hvar og hvenær talning atkvæða skal fara fram. Frambjóðendur við formannskjör eða umboðsaðilar þeirra mega vera viðstaddir talningu.

18. gr. - Kjörstjórn skal halda gerðabók og færa í hana allt sem kosningu varðar, undirbúning, framkvæmd og niðurstöður.

5. kafli. Stjórnarfundir og stjórnarstörf

19. gr. -  Formaður skal boða stjórnarfundi, stýrir þeim og gegnir öðrum venjulegum formannsstörfum. Hann leiðir starfsemi félagsins og samskipti út á við og vinnur að stefnumótandi ákvörðunum stjórnar.  Hann leiðir starfsemi félagsins og samskipti út á við og vinnur að stefnumótandi ákvörðunum stjórnar.

 Varaformaður gegnir störfum formanns í forföllum hans. Ritari sér um að fundargerðir séu ritaðar og varðveittar með öruggum hætti fyrir stjórnar- og félagsfundi, og einnig fyrir Trúnaðarmannaráðsfundi. 

Stjórn félagsins hefur æðsta vald í málefnum þess milli aðalfunda.

Stjórnin vinnur að stefnumótun félagsins og stuðlar að framgangi mála sem félagið hefur ákveðið að vinna að.

Stjórnin sér um að skipulag og starfsemi félagsins sé í samræmi við lög þess.

Stjórnin ber ábyrgð á fjárreiðum og eignum félagsins og tekur allar meiriháttar ákvarðanir er lúta að fjármálum og fjárhagsskuldbindingum þess.

Allar meiriháttar ákvarðanir um réttindi sjóðfélaga og áætlanir er varða fjárhagslegar skuldbindingar stjórna réttindasjóða félagsins, skal leggja fyrir stjórn félagsins til samþykktar eða synjunar.

 

Stjórnin skal yfirfara og samþykkja reikninga félagsins með áritun.  Stjórnir réttindasjóða yfirfara og árita reikninga viðkomandi sjóða.

Stjórnin ræður skrifstofustjóra og felur honum daglegan rekstur skrifstofu félagins. Stjórn er
ekki heimilt að ráða stjórnarfólk eða formann félagsins sem skrifstofustjóra þess.
Skrifstofustjóri ræður starfsfólk í samráði við stjórn. Skrifstofustjóri semur við starfsfólk
um laun þeirra. 

Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnar mætir. Afl atkvæða ræður úrslitum mála á stjórnarfundum.

 

Stjórn félagsins skipar úr sínum hópi einn einstakling í hverja stjórn sjóða félagsins, sem hafa jafnan rétt og annað stjórnarfólk í viðkomandi sjóði.

Stjórn félagsins skipar einnig fulltrúa í þau samvinnuverkefni sem félagið á aðild að.

 

6. kafli. Fjármál

20. gr. - Félagsgjald félagsfólks skal ákveðið á aðalfundi og fellur það þá þegar í gjalddaga. Heimilt er að láta draga félagsgjaldið frá launum félagsfólks.

Sjóði félagsins skal ávaxta hjá fjármálastofnunum á sem tryggastan hátt samkvæmt samþykktum siðareglum og fjárfestingastefnu stjórnar hverju sinni.

Úr félagssjóði skal greiða nauðsynlegan kostnað vegna starfsemi félagsins.

Reikningsár félagsins er almanaksárið. Endurskoðaðir reikningar félagsins skulu liggja frammi á skrifstofu félagsins 10 sólarhringum fyrir aðalfund.

Tillögur sem fela í sér breytingar á útgjöldum fyrir félagsfólk er einungis heimilt að afgreiða á aðalfundi félagsins að undangenginni kynningu á tillögunni í fundarboði.

Auk félagssjóðs hefur Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu orlofssjóð, vinnudeilusjóð, styrktar- og sjúkrasjóð, mannauðssjóð, fræðslusjóð og starfsmenntunarsjóð. Um starfsemi sjóðanna skal setja reglur sem staðfestar skulu á aðalfundi.

7. kafli. Félagsfundir

21. gr. - Félagsfundi skal boða svo oft sem þurfa þykir og er félagsstjórn skylt að boða þá ef 50 fullgildir félagar krefjast þess skriflega og tilgreina fundarefni.

Félagsfundi skal boða með minnst þriggja sólarhringa fyrirvara og skal fundurinn auglýstur á sem tryggilegastan hátt í fjölmiðlum eða þar sem henta þykir.

Fundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað.

22. gr. - Fundum skal stjórnað eftir fundarsköpum er félagið setur. Ef ágreiningur verður um fundarsköp úrskurðar fundarstjóri, en skotið getur hann ágreiningsefni undir atkvæði fundarfólks.

Afl atkvæða ræður úrslitum mála á félagsfundum nema þar sem öðruvísi kann að verða ákveðið í lögum þessum.

8. kafli. Fulltrúar á þing BSRB

23. gr. - Kjör fulltrúa á þing BSRB skal fara fram á Trúnaðarmannaráðsfundi. Fjöldi fulltrúa Sameykis á þingi BSRB reiknast þannig að félagið á tvo fulltrúa fyrir félagafjölda upp að 120 og þá einn fulltrúa fyrir hverja 120 félaga. Kjósa skal jafnmarga til vara. Tala fulltrúa miðast við félagatölu eins og hún reynist 1. janúar það ár sem halda skal þing BSRB.

Allt fullgilt félagsfólk hefur kjörgengi til þings BSRB.

Stjórn félagsins er sjálfkjörin á þingið.

Verði brottfall úr hópi kjörinna fulltrúa umtalsvert er skrifstofu félagsins heimilt að manna þau sæti sem upp á vantar úr hópi félagsfólks.
Grein þessi skal taka breytingum skv. ákvörðun stjórnar BSRB um breytingar á fyrirkomulagi þings BSRB hverju sinni.

9. kafli. Trúnaðarmannaráð

24. gr. - Á hverjum vinnustað þar sem starfa 5 eða fleiri félagar sbr. lög nr. 94/1986, skal í maí annað hvert ár (oddatöluár) kjósa trúnaðarmann til tveggja ára, sem tilkynnt sé félagsstjórn. Velja má annan til vara.

Berist eigi tilkynning um val fyrir 31. maí skal félagsstjórn skipa trúnaðarmann án tilnefningar og tilkynna það félögum á vinnustaðnum.

 

Félagsstjórn setur trúnaðarmönnum starfsreglur.

25. gr. - Trúnaðarmenn þeir sem eru kjörnir eða skipaðir samkvæmt 24. gr. eða kjörnir samkvæmt ákvæðum 27. gr. mynda ásamt stjórn Trúnaðarmannaráð. Hlutverk þess er að fjalla um þau málefni á fundum sínum sem snerta vinnu og aðstöðu trúnaðarmanna í störfum sínum ásamt fræðslu um þau þjóðfélagsmál sem hæst ber hverju sinni og að gagni koma í störfum trúnaðarmanna. Einnig er það hlutverk Trúnaðarmannaráðs að fjalla um kjara- og réttindamál félagsfólks, sérstaklega þegar gera á almenna kjarasamninga. Miða skal við að fundir Trúnaðarmannaráðs séu haldnir að jafnaði í hverjum mánuði utan orlofstíma. Formaður félagsins er jafnframt formaður Trúnaðarmannaráðs.

26. gr. - Trúnaðarmannaráð skal vinna að stefnumótun fyrir félagið í samráði við stjórn og annast undirbúning fyrir aðalfund félagsins, þar á meðal að kjósa uppstillingarnefnd og laganefnd þegar það á við. Á fundum Trúnaðarmannaráðs skal m.a. gerð grein fyrir fjárhagsstöðu sjóða félagsins og lögð fram skýrsla yfir starfsemina einu sinni á ári. Trúnaðarmannaráð skal ákveða hvaða fastanefndir skulu starfa, setja þeim reglur og kjósa í þær. Trúnaðarmannaráð getur einnig stofnað aðrar nefndir eða vinnuhópa innan félagsins í kringum sérstök verkefni. Trúnaðarmannaráð skal fjalla um kjara- og réttindamál og annast undirbúning kjarasamninga.

 

10. kafli. Deildaskipting

27. gr. - Heimilt er að stofna sérstakar deildir innan félagsins með þeim er vinna skyld eða sams konar störf eða störf sem krefjast hliðstæðrar menntunar. Hver slíkra deilda hefur rétt til að velja fyrir sína hönd tvo áheyrnarfulltrúa í Trúnaðarmannaráð.

Reglur fyrir deildir þessar öðlast ekki gildi fyrr en félagsstjórn hefur staðfest þær en hlutverk þeirra skal vera:

   1.  Að vinna að því að hver félagi sem til þess hefur rétt sé meðlimur í deildinni.

   2.  Að fylgjast með því að samningar séu haldnir og réttindi starfsfólks í heiðri höfð og reyna að leysa þau ágreiningsmál sem upp kunna að koma og bundin eru við deildarfólk.

   3.  Að veita félagsstjórn aðstoð við söfnun gagna og upplýsinga og annað er hún kann að óska eftir.

   4.  Að efla gagnkvæman skilning og einingu og stuðla að fræðslu- og menningarstarfi innan vébanda deildarinnar.

 

Háskóladeild

Starfrækja skal deild félagsfólks með háskólamenntun. Háskóladeild skipa einstaklingar sem lokið hafa að minnsta kosti Bachelor-gráðu eða sambærilegu námi og uppfylla eitthvert skilyrða 3. gr.

Deildin setur sér starfsreglur sem öðlast gildi er félagsstjórn hefur staðfest þær. Í þeim skal m.a. kveðið á um tilgang deildarinnar sem er að fjalla um hagsmuna- og sérmál er varða réttindi og kjör félagsfólks með háskólamenntun. Stjórn háskóladeildar Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu skal heimilt að kjósa úr sínum hópi tvo fulltrúa og tvo til vara sem eiga rétt til setu í Trúnaðarmannaráði félagsins. Stjórn deildarinnar skal skila ársskýrslu til stjórnar Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu á hverju ári.

Lífeyrisdeild

Félagar sem láta af störfum vegna aldurs eða örorku hafa heimild til að starfrækja lífeyrisdeild innan félagsins. Aðild að lífeyrisdeild Sameykis er gjaldfrjáls og á deildin rétt á framlagi úr félagssjóði til félagsstarfs og í símenntunarsjóð lífeyrisdeildar. Framlagið skal ákveðið af stjórn Sameykis hverju sinni. Félagar í lífeyrisdeild njóta réttinda í orlofssjóði samkvæmt reglum sjóðsins hverju sinni.

Lífeyrisdeildin setur sér starfsreglur sem öðlast gildi er félagsstjórn hefur staðfest þær, sbr. ákvæði 1. mgr. Í þeim skal m.a. kveðið á um tilgang deildarinnar, sem er að fjalla um sérmál er varða hagsmuni og réttindi þeirra svo og almennt félagsstarf og kynningu.

Stjórn lífeyrisdeildar Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu skal heimilt að tilnefna úr sínum hópi 14 fulltrúa í Trúnaðarmannaráð.

Formaður lífeyrisdeildar skal boðaður á stjórnarfundi Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu, þegar á dagskrá eru mál sem varða málefni þeirra.

 

11. kafli. Ákvæði vegna laga um kjarasamninga

28. gr. - Stjórn félagsins gerir tillögur um samninganefndir vegna hvers kjarasamnings og leggur fyrir trúnaðarmenn á hverju kjarasamningssviði til samþykktar eða synjunar. Fjöldi félaga í samninganefnd skal fara eftir stærð en þó aldrei vera fleiri en tólf einstaklingar. Formaður félagsins skal vera formaður samninganefnda nema hann skipi annan í sinn stað. Við kjör samninganefndar skal þess gætt að í nefndina séu kjörnir fulltrúar ólíkra starfsgreina innan hvers kjarasviðs.

29. gr. - Tilkynna skal viðsemjendum eigi síðar en við upphaf samningaviðræðna hvaða fólk skipi samninganefndir félagsins.

30. gr. - Trúnaðarmannaráð tekur ákvörðun um uppsögn kjarasamninga. Uppsögn skal tilkynna í samræmi við 2. kafla laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna eða skv. 6. gr. laga nr. 80/1938, eftir því sem við á. Sömu aðilar taka ákvörðun um að boða til allsherjaratkvæðagreiðslu um verkfall. Um þá atkvæðagreiðslu fer skv. 15. gr. laga nr. 94/1986 eða 15. gr. laga nr. 80/1938.

31. gr. - Samkomulag um kjarasamning skal samninganefnd félagsins undirrita með fyrirvara. Um endanlegt samþykki þess félagsfólks sem kjarasamningurinn tekur til, skal viðhafa allsherjaratkvæðagreiðslu eins fljótt og kostur er.

Við breytingu á kjarasamningi á samningstímabilinu er ekki skylt að viðhafa atkvæðagreiðslu.

32. gr. - Samninganefnd tekur ákvörðun um frestun eða afboðun verkfalls eftir undirritun kjarasamnings.

 

12. kafli. Ýmis ákvæði

33. gr. - Heimilt er að láta fara fram allsherjaratkvæðagreiðslu í félaginu um stærri mál. Stjórn tekur ákvörðun um allsherjaratkvæðagreiðslu og niðurstaða atkvæðagreiðslunnar er endanleg ákvörðun.

Kjörstjórn sér ásamt stjórn félagsins um undirbúning og framkvæmd allsherjaratkvæðagreiðslna og skal hún sjá um að þær fari fram á tryggilegan hátt. Heimilt er að viðhafa rafræna kosningu samkvæmt frekari ákvörðun kjörstjórnar.

Kjörstjórn staðfestir kjörskrá og ákveður hverju sinni meðferð kjörgagna og fyrirkomulag á talningu atkvæða.

34. gr. - Komi fram tillaga sem studd er að lágmarki af 80 félögum um að leysa félagið upp, skal hún lögð fyrir trúnaðarmannaráðsfund. Ef tillagan er samþykkt með 2/3 hluta greiddra atkvæða á fundi trúnaðarmannaráðs, skal þá höfð um hana allsherjaratkvæðagreiðsla meðal félagsfólks. Tillagan telst því aðeins samþykkt að hún hljóti 2/3 greiddra atkvæða.

Verði félagið leyst upp skulu gerðabækur þess og skjöl ásamt öðrum eignum afhent BSRB til fullrar eignar og umráða.

35. gr. - Við framkvæmd og túlkun laganna skal haft í huga að innan félagsins er annars vegar félagsfólk sem starfar eftir kjarasamningum sem gerðir eru skv. lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986 og hins vegar félagsfólk sem starfar á almennum vinnumarkaði þar sem um gerð kjarasamninga gilda lög nr. 80/1938. Ákvarðanir um kaup og kjör sem varða annan hópinn sérstaklega skulu einungis bornar undir hann.

36. gr. - Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi enda hafi tillögur þar að lútandi borist til félagsstjórnar áður en aðalfundur er auglýstur og þeirra getið í fundarboði. Tillögur til lagabreytinga skulu liggja frammi á skrifstofu félagsins 10 sólarhringum fyrir aðalfund.

Á aðalfundi er heimilt að gera breytingartillögur við löglega fram komnar tillögur til lagabreytinga, enda feli breytingartillögur ekki í sér óskyld efni við upprunalegu tillögurnar.

Til að lagabreyting nái fram að ganga verður hún að vera samþykkt með 2/3 greiddra atkvæða. Um leið og samþykkt er breyting á lögum skal ákveðið með fundarsamþykkt hvenær breytingin tekur gildi.
 
  Samþykkt á aðalfundi 26. janúar 2019
  Samþykkt á aðalfundi 17. september 2020
  Samþykkt á aðalfundi 31. mars 2022
  Samþykkt á aðalfundi 29. mars 2023
  Samþykkt á aðalfundi 21. mars 2024

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)