Fyrsti maí er alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins. Hann á upphaf sitt að rekja allt til ársins 1889 en þá hittust fulltrúar alþjóðasamtaka kommúnista á ráðstefnu í París, í tilefni þess að hundrað ár væru liðin frá því að Parísarbúar tóku Bastilluna. Á þeirri ráðstefnu var ákveðið að gera fyrsta maí að baráttudegi hreyfingarinnar. Þessi tiltekni dagur var einnig valinn meðal annars til að minnast blóðbaðsins í Haymarket í Chicago í Bandaríkjunum þremur árum áður.
Á Íslandi var fyrsta kröfugangan á fyrsta maí gengin 1923 og hefur dagurinn verið löggiltur frídagur á Íslandi síðan 1966.
Opinberir starfsmenn hér á landi tóku þó ekki þátt í göngunni fyrr en 20 árum síðar eða 1. maí 1943 eftir að Bandalag starfsmanna ríkis og bæja (BSRB) hafði verið stofnað. Staða þeirra hafði frá upphafi verið önnur, margir þeirra voru embættismenn en eftir því velferðarþjónustan óx hér á landi stækkaði hópurinn og staða þeirra breyttist. Við stofnun BSRB fagnaði ritstjóri Alþýðublaðsins tímamótunum enda taldi hann stöðu opinberra starfsmanna fram að því ekki hafa verið öfundsverða.
„Opinberir starfsmenn eiga við mjög bág kjör að búa. Réttur þeirra er sáralítill. Um langan tíma hefir þeim verið skammtað án þess að þeir hafi verið spurðir til ráða. Og starfsmenn ríkisins mega ekki beita hinu eina vopni [verkfallsvopninu], sem verkalýðurinn hefir að minnsta kosti hingað til getað gripið til, þegar í nauðir rekur. Það bíður því mikið starf hins nýstofnaða bandalags opinberra starfsmanna, - og í því starfi nýtur það samúðar og stuðnings allra samtaka alþýðunnar á Íslandi.“
Myndin hér fyrir neðan er frá kröfugöngu á 1. maí 1943. Gangan er söguleg þar sem opinberir starfsmenn tóku þá þátt í fyrsta sinn með formlegum hætti.
Ljósmyndin birtist í sögu SFR og ljósmyndari var Skafti Guðjónsson.