Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

25. nóvember 2025

Brúnaðar kartöflur

Brúnaðar kartöflur. Ljósmynd/Hari

„Forsoðnar kartöflur eru erfiðari í brúningu en ferskar því í þeim er svo mikill vökvi. En ef þær er það eina sem er í boði þarf að láta leka af þeim vökvann og hita örlítið. Til dæmis í örbylgjuofni. Sigta svo til eins og fersku kartöflurnar. Það ætti að duga til að karamellan renni ekki öll af.“

Eftir Harald Jónasson

Flestar hátíðarvenjur okkar hér á Íslandi má að einhverju leyti rekja til gamla föðurlandsins. Það sem var nógu gott fyrir danska kónginn var nógu gott fyrir okkur Frónbúa. Af þessum hátíðarsiðum sat sykurbrúnaða kartaflan lengi á toppnum. Nú virðumst við sem þjóð þó hafa sofnað á verðinum, því enginn undir sextugu kann að brúna kartöflu og flest ungmenni fúlsa við slíkri ofgnótt kolvetna. Þessari þróun þarf að snúa við og enginn tími til þess betri en sjálf jólin.

Potturinn
Sjóða kartöflur í léttsöltuðu vatni. Byrja með kalt vatn í potti og ná suðunni upp með kartöflunum. Það er leiðinlegt að skræla heitar kartöflur og því um að gera að taka flusið af fyrir fram með afhýðara. Litlar kartöflur fara í heilu lagi í pottinn, miðlungsstórar er gott að helminga. Þær allra stærstu þarf að skera í mátulega, jafna bita. Allt svo hlutfall karamellu og kartöflu sé sem best. Kartöflurnar eru tilbúnar þegar hnífsoddur fer auðveldlega inn í miðja kartöflu.

Fullsoðnar fara þær rakleiðis í sigti. Gott að nota pastasigti. Þar gufar umframvökvi af yfirborðinu sem hjálpar sykrinum að festast. Næsta skref er leynitrix til að karamellan festist enn betur við kartöflurnar. Þegar þær eru enn heitar í sigtinu en ekki rennblautar er gott að velta þeim aðeins um. Það ýfir yfirborðið og eykur enn líkurnar á að karamellan verði föst. Láta kartöflurnar kólna alveg eða allt að því. Hægt að undirbúa fyrirfram.

 

BRÚNAÐAR KARTÖFLUR

1000 GR SOÐNAR KARTÖFLUR
125 GR STRÁSYKUR
40 GR SMJÖR
1 TSK SALTFLÖGUR

Forsoðnar kartöflur eru erfiðari í brúningu en ferskar því í þeim er svo mikill vökvi, en ef þær eru það eina í boði þarf að láta leka af þeim vökvann og hita örlítið – til dæmis í örbylgjuofni. Sigta svo til eins og fersku kartöflurnar. Það ætti að duga til að karamellan renni ekki öll af.

Pannan
Strásykur fer á kalda pönnu. Dreifa úr honum og passa að fara ekki mikið út fyrir helluna sem á að nota. Þannig bráðnar hann jafnt, sérstaklega ef pannan er ekki mjög þykk. Hita pönnuna upp í rúmlega miðlungshita. Þegar sykurinn byrjar að bráðna er gott að lækka niður í miðlungshita. Ekki hræra í sykrinum, bara bíða. Smjörið fer út í þegar sykurinn er orðinn rauðbrúnn og gljáandi. Ef hann er svarbrúnn þá erum við í vandræðum og þurfum að byrja upp á nýtt. Mögulega kaupa nýja pönnu og afturkalla slökkviliðið.

Þegar smjörið er komið út í má hræra varlega. Næst fara kartöflurnar út í blönduna. Ekki hræra þeim saman við með offorsi. Láta þær liggja í smá stund til að ná upp hita. Þá er hægt að hræra varlega. Velta kartöflunum um á pönnunni í nokkrar mínútur eða þangað til karamellan er föst á og kartöflurnar eru aftur orðnar heitar í gegn. Salta örlítið með góðu salti og bera fram. Ef það myndast sykurklumpar þegar hrært er í kartöflunum þarf að sýna smá þolinmæði. Þeir bráðna í rólegheitunum. Ef karamellan verður of þurr er hægt að setja nokkra dropa af vatni saman við eða jafnvel örlítinn rjóma – það eru jú einu sinni jólin.

Fleiri ljúffengar og skemmtilegar mataruppskriftir Hara má finna á vef Sameykis - Stoppað í matargatið.