14. maí 2025
Enn er hægt að sækja um orlofsávísun
Félagsfólk Sameykis sem ekki hefur leigt orlofshús í sumar getur sótt um að fá úthlutað orlofsávísun að andvirði 35.000 kr. Orlofsávísanirnar eru gefnar út í takmörkuðum fjölda og kosta félagsfólk 10 punkta. Orlofsávísanirnar gilda fyrir orlofstilboð innanlands sumarið 2025, frá 23. maí til 22. ágúst og verða því að vera nýttar innan þess tímabils. Félagi sem fær úthlutað orlofsávísun framvísar kvittunum eftir að ferð að eigin vali er lokið og fær andvirði orlofsávísunar greitt inn á bankareikning sinn. Kvittanir verða að vera löglegar frá viðkomandi söluaðila og innan tímabilsins 23. maí til 22. ágúst. Kvittanir verða að vera með nafni og kennitölu félagsmanns til þess að fást greiddar.
Orlofsávísanir gilda innanlands fyrir:
- Gistingu utan orlofskerfis, þ.e. hótel, gistihús, tjaldstæði o.s.frv.
- Leigu fyrir hjólhýsi, fellihýsi, bílaleigubíl eða tjaldvagna.
- Skoðunarferðir, t.d. hvalaskoðun, fuglaskoðun o.þ.h.
- Skipulagðar gönguferðir með viðurkenndum ferðaþjónustuaðilum eða félögum, utan þeirra ferða sem félagið býður upp á.
- Skipulagðar hópferðir, hestaferðir, siglingar, veiðileyfi o.s.frv.
Ekki er hægt að framvísa kvittunum fyrir matarútgjöldum, bensíni og/ eða almennum ferðakostnaði, svo sem fargjaldi í flugi, rútu eða með ferju, nema það sé hluti af skipulagðri hópferð. Ekki er hægt að framvísa kvittunum fyrir þjónustu sem Sameyki eða önnur stéttarfélög bjóða sínum félögum.
- Þegar úthlutun er lokið færðu tölvupóst því til staðfestingar.
- Senda skal kvittanir á netfangið sameyki@sameyki.is
- Óskað er eftir að kvittunum sé skilað í einu lagi.
- Greiðsla á orlofsávísunum hefst í lok ágúst 2025.
Sótt er um orlofsávísun á Orlofshúsavef Sameykis með því að smella á Laus tímabil ofarlega til vinstri eftir að þú smellir á tengilinn hér að neðan. Í umsóknarferlinu er þér beint í greiðslugátt en það snýst um punktana.