10. september 2025
Opinber störf – réttlæti, virðing og framtíð

Kári Sigurðsson, formaður Sameykis.
„Opinber störf eru fjárfesting í velferð, jöfnuði og félagslegu öryggi – en til að byggja upp öfluga opinbera þjónustu þarf að sýna starfsfólki virðingu í verki. Það þýðir mannsæmandi laun, öruggt starfsumhverfi og viðurkenningu á fagmennsku þeirra. Það er óásættanlegt að sveitarfélög ætlist til þess að fólk beri ábyrgð á grunnþjónustu samfélagsins án þess að fá fyrir það sanngjörn kjör.“
Eftir Kára Sigurðsson
Opinber störf eru hjartað í samfélagi okkar. Þau tryggja að börn fái menntun, að aldraðir njóti umönnunar og að daglegt líf gangi snurðulaust fyrir sig. Starfsfólkið sér um heilbrigði okkar, leik- og grunnskóla, félagsþjónustu, menningu, skipulagsmál og aðrar grunnstoðir eins og fangavörslu en sá hópur hefur undanfarin ár verið vanræktur. Þetta er fólkið sem heldur samfélaginu gangandi – en of oft er framlag þess vanmetið. Við verðum að minna á að án starfsfólks sem starfar hjá sveitarfélögunum og ríkinu stöðvast allt.
Þessi störf eru ekki aðeins þjónusta; þau eru í raun uppspretta lýðræðis og jöfnuðar. Félagsfólk í Sameyki vinnur í nánum tengslum við almenning og er þannig rödd samfélagsins. Opinber störf eru fjárfesting í velferð, jöfnuði og félagslegu öryggi – en til að byggja upp öfluga opinbera þjónustu þarf að sýna starfsfólki virðingu í verki. Það þýðir mannsæmandi laun, öruggt starfsumhverfi og viðurkenningu á fagmennsku þeirra. Það er óásættanlegt að sveitarfélög ætlist til þess að fólk beri ábyrgð á grunnþjónustu samfélagsins án þess að fá fyrir það sanngjörn kjör. Við í Sameyki stöndum fast með okkar félagsfólki – því án þeirra hrynur grunnurinn sem samfélagið stendur á.
Við vitum líka að áskoranirnar eru margar, samfélagið er að breytast hratt og auknar kröfur og þrýstingur um hagræðingu setja sveitarfélögum þröngar skorður. Svarið er ekki að skera niður, svarið er að fjárfesta í fólkinu. Það er mannauðurinn sem skapar raunveruleg verðmæti. Ný tækni eins og gervigreindin sem fjallað er um í tímaritinu getur stutt við störfin, en hún getur aldrei komið í stað mannlegrar nærveru í þjónustunni sem veitt er hverju sinni. Þess vegna er óhætt að fullyrða að opinber störf eru ekki útgjöld – þau eru fjárfesting í framtíðinni. Þau eru kjölfestan sem heldur samfélaginu stöðugu, jafnvel á óvissutímum eins og við höfum lært af norrænu stéttarfélögunum. Þegar stjórnvöld og sveitarfélög ræða fjármál verða þau að muna að fjárveitingar til opinberra starfa eru fjárfesting í börnunum okkar, fjölskyldum okkar og framtíð okkar allra.
Við getum horft til Norðurlandanna þar sem samstaða, jöfnuður og sterk opinber þjónusta eru lykillinn að farsælu samfélagi. Þar er samstarfið lifandi milli aðila og byggir á virðingu fyrir sameiginlegum gæðum. Með því að efla norrænt samstarf styrkjum við okkar stöðu, deilum reynslu og sækjum innblástur. Það er í þeirri samvinnu sem við finnum kraftinn til að verja réttindi okkar og byggja réttlátt og sterkt samfélag fyrir framtíðina. Í Tímariti Sameykis að þessu sinni er fjallað um öll þessi mál út frá mismunandi hliðum og ég vona að lesturinn svari spurningum sem upp kunna að vakna um mikilvægi opinberra starfa.
Höfundur er formaður Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu.