19. september 2025
Opinber þjónusta og lýðræði situr undir árásum

Daniel Bartossa, framkvæmdastjóri PSI, Alþjóðlegra samtaka stéttarfélaga opinberra starfsmanna. Ljósmynd/Axel Jón
„Um allan heim má sjá stéttarfélögin berjast gegn þessari óheillaþróun þar sem félagsfólk hafnar hræðsluáróðri og falsloforðum öfgahægrisinna. Þegar við berjumst á móti þessari hugmyndafræði sköpum við farveg fyrir meðvitund í huga almennings um ójöfnuð og alvald yfir samfélögunum og um leið sköpum við hreyfingu sem vekur von um breytingar og bjartari framtíð fyrir betra samfélag og öfluga opinbera þjónustu.“
Daniel Bartossa skrifar um verkalýðsbaráttuna í Evrópu og árásir stjórnvalda á opinber störf og innviði sem sinna grunnþjónustu í löndunum. PSI eru alþjóðasamtök stéttarfélaga opinberra starfsmanna með um 55 milljónir félagsmanna og er bandalag opinberra starfsmanna á Íslandi, BSRB, aðili að samtökunum. Daniel segir að félagsfólk stéttarfélaga opinberra starfsmanna þurfi að taka þátt í baráttunni að verja opinber störf sem nýfrjálshyggja og hægri öfl hlynnt markaðshyggju og popúlisma leitast við að leysa upp.
Eftir Daniel Bartossa
Þann 23. júní sl., á alþjóðlegum degi opinberrar þjónustu, fékk dagurinn nýja þýðingu. Áratugir af stjórnarfari nýfrjálshyggju hafa aukið ójöfnuð og grafið undan opinberum störfum og stofnunum sem hefur skapað aðstæður fyrir núverandi árásir nýfrjálshyggjunnar að innviðunum. Þessar aðstæður hafa skapað almenna reiði hjá almenningi sem reiða sig á opinbera grunnþjónustu. Það eru mistök að halda að þessar árásir séu einungis eðlilegt framhald af stjórnarfari nýfrjálshyggjunnar áratugum saman.
Verðum að búa okkur undir baráttuna og berjast á móti
Nú á dögum verðum við vitni að umskiptum á fyrirlitningu nýfrjálshyggjuaflanna á opinberri þjónustu og ríkisvaldi yfir í valdníðslu þess af hálfu alræðissinna. Þetta er grundvallarmunur á umfangi, tilgangi og hættu sem felur í sér hættulega ógn við lýðræði, opinbera þjónustu og stéttarfélög. Þetta eru umskipti sem við verðum að skilja og bregðast við.
Árásir þessar á opinbera þjónustu, launafólk og stéttarfélög af hendi alræðissinna og auðmanna um allan heim eru fordæmalausar, og það er ástæða fyrir því að þeir ráðast að opinberum starfsmönnum og grunnþjónustunni. Valdamiklir dómarar geta ógilt stjórnarskrárbrot sem þessi öfl framkvæma. Ég nefni nokkur dæmi um opinber störf sem helgast af hlutverki þeirra fyrir almenning; hjúkrunarfræðingur hugsar um það fólk sem þarf á því að halda – ekki þá sem geta borgað mest, flugöryggiseftirlitsmaður setur líf fólks ofar niðurskurði. Vinnueftirlitsmaður getur komið í veg fyrir að fyrirtæki reki fólk og brjóti á réttindum og skyldum sem gilda í kjarasamningum þess. Kennarar geta kennt heilu kynslóðunum gagnrýna hugsun og færni til að sjá í gegnum lygarnar.
Baráttan hefst núna – stundin er runnin upp því ógnin er raunveruleg gegn opinberum störfum
Við sjáum allt í kringum okkur að alræðissinnar ráðast á opinbera innviði og þá sem veita opinbera þjónustu, vegna þess að stéttarfélögin er síðasta varnarlínan milli lýðræðis og auðræðis. Þeir vita að opinber þjónusta, sem veitt er öllum og fyrir fólk – en ekki fyrir gróða – sýnir að annar heimur er mögulegur. Á hverjum degi sem starfsfólk veitir opinbera þjónustu er það ákveðin mótstaða gegn þeim sem vilja markaðshyggju og auðræði. Þegar við veitum heilbrigðisþjónustu, menntun og aðra nauðsynlega þjónustu öllum borgurum, óháð auði eða stöðu, erum við að byggja heim sem byggist á samstöðu og jöfnuði fremur en gróða, arðráni og misnotkun. Og stéttarfélög okkar, sem standa með milljónum starfsmanna um allan heim sem veita þessa þjónustu, verja hana. Þess vegna sjáum við opinbera starfsmenn í auknum mæli vera nú að undirbúa sig til að standa í vegi fyrir tilraunum til að nota stjórnsýsluna til árása á grunninnviði samfélaganna sem opinber þjónusta er. Stéttarfélög opinberra starfsmanna hafa sýnt að vonin um betra samfélag lifir enn og baráttan er ekki töpuð, og þess vegna verðum við að skipuleggja okkur enn betur en þessir andstæðingar okkar gera. Það er ljóst að aðgerðaleysi er ekki lengur valkostur fyrir okkur.

Um allan heim má sjá stéttarfélögin berjast gegn þessari óheillaþróun þar sem félagsfólk hafnar hræðsluáróðri og falsloforðum öfgahægrisinna. Þegar við berjumst á móti þessari hugmyndafræði sköpum við farveg fyrir meðvitund í huga almennings um ójöfnuð og alvald yfir samfélögunum og um leið sköpum við hreyfingu sem vekur von um breytingar og bjartari framtíð fyrir betra samfélag og öfluga opinbera þjónustu.
Þegar við sameinumst og berjumst á móti, vinnum við
Í Kenía reyndi ríkisstjórnin að troða niður réttindi heilbrigðisstarfsfólks og einkavæða heilbrigðiskerfið. Læknar og stéttarfélög þeirra vissu að þetta myndi gera opinbera heilbrigðisþjónustu verri – fyrir sjúklinga og starfsfólk – og skipulögðu friðsöm mótmæli til að krefjast þess að kjarasamningur þeirra yrði virtur. Þegar þeim var mætt með ofbeldi og aðalritari þeirra, Dr. Davji Attelah, var skotinn í höfuðið af lögreglu, hörfuðu þeir ekki heldur fjölmenntu af meiri krafti með víðtækari stuðningi og reiði almennings vegna aðgerða stjórnvalda. Ríkið átti ekki annan kost en að hrinda samningnum í framkvæmd og hefja frekari kjarasamningaviðræður.
Í Suður-Kóreu hóf forsetinn valdarán með því að lýsa yfir herlögum til að leggja niður sjálfstæða stjórnsýslu og beita hernum gegn andstöðunni. Opinberir starfsmenn og verkalýðshreyfingin marseruðu samstundis að þinginu til að verja lýðræðið – og hrundu valdaráninu á nokkrum klukkustundum.
Í Pakistan hafa heilbrigðisstarfsmenn, að mestum hluta konur, í áratugi veitt milljónum manna bráðnauðsynlega þjónustu án þess að hljóta viðurkenningu sem opinberir starfsmenn. Þegar þeim var sýnd fyrirlitning kröfðust þessar konur stéttarfélagsréttinda, skipulögð voru mótmæli sem þúsundir láglaunaðra starfsmanna tóku þátt í og sýndu styrk sinn með verkfallssetum og mótmælagöngum að þinginu. Þær unnu sigur, fengu miklar launahækkanir og stofnuðu á síðasta ári sitt fyrsta stéttarfélag. Þær börðust – og þær unnu.
Í Ástralíu hjálpuðu stéttarfélögin Verkamannaflokknum að ná endurkjöri og börðust gegn hagsmunavörðum og lobbýistum einkafyrirtækja til að tryggja tímamótalöggjöf sem jók opinber framlög með því að skylda fyrirtæki til að birta efnahagsreikninga sína til að komast hjá skattsvikum. Í Brasilíu stöðvuðu stéttarfélögin valdaránstilraun Bolsonaro og hjálpuðu Lula til að komast aftur til valda. Í Bandaríkjunum hafa stéttarfélög orðið að raunverulegri stjórnarandstöðu, staðið gegn Trump og hernaðarvæðingu hans á opinberum vinnustöðum og árásum á innflytjendur.
Á alþjóðavettvangi leitast fjármagnsöflin við að losa sig undan öllum opinberum lögum og skyldum og sameinast alræðissinnum við að svipta alþjóðastofnanir fjármagni og veikja þær. PSI og félagar okkar innan Sameinuðu þjóðanna berjast gegn þessari þróun og fyrir réttlátara alþjóðakerfi þar sem launa- og verkafólk er í forgangi. Við höfum stöðvað afreglugerðarsamninga eins og TiSA, unnið nýja alþjóðlega vinnulöggjöf og WHO heimsfaraldurssamning sem verndar hundruð milljóna opinberra starfsmanna. Við höfum tryggt nýjan alþjóðlegan lágmarksskatt á fyrirtæki og hafið skattasamningsviðræður á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.
Í upphafi réttindabaráttunnar skrifaði James Baldwin að „örvænting er blindgata sálarinnar; hún gerir okkur blind fyrir möguleikum breytinga“. Við megum ekki leyfa ringulreið hægrisins að leiða okkur inn í örvæntingu eða trufla okkur frá því verki sem bíður okkar að vinna að sanngjarnara og jafnara samfélagi.
Við verðum að skipuleggja okkur líkt og aldrei fyrr
Til að byggja verkalýðshreyfingu upp sem getur sigrast á sundrungu og hatri sem nýfrjálshyggjan elur á þurfum við öll að sýna samstöðu með einingu og von meðal okkar. Sama gildir um að standa vörð um opinbera þjónustu sem er lífæð milljarða manna um allan heim.
Stundin er komin og ógnin raunveruleg, eins og bandaríski verkalýðsleiðtoginn Dolores Huerta sagði einu sinni: „Það er kominn tími til að stíga af gangstéttinni og út á göturnar.“
Greinin birtist fyrst í Tímariti Sameykis 3. tbl. 2025.
Höfundur er framkvæmdastjóri PSI, Alþjóðlegra samtaka stéttarfélaga opinberra starfsmanna.