22. september 2025
Samnorræn samstaða í Helsinki

Stjórnarhöllin er bygging framkvæmdastjórnar finnska ríkisráðsins. Hún gnæfir yfir öldungadeildartorginu í miðborg Helsinki. Í stjórnarhöllinni eru forsætisráðuneytið, skrifstofa dómsmálaráðherrans og flestar deildir fjármálaráðuneytisins. Ljósmynd/Axel Jón
„Við í Finnlandi þurfum að búa okkur undir stríð og höfum verið að auka viðnámsþrótt og munum halda því áfram. Í norrænu samstarfi höfum við unnið að því að tryggja samfélagsöryggi í Finnlandi en einnig á hinum Norðurlöndunum til frambúðar.“
Eftir Axel Jón Ellenarson
Frá 18. til 20. ágúst 2025 fór fram árleg ráðstefna NSO, samtaka norrænna stéttarfélaga sem starfa hjá ríkinu, í Helsinki. Ráðstefnan er mikilvægur vettvangur fyrir stéttarfélög opinberra starfsmanna á Norðurlöndum til að ræða brýn mál samtímans, bera saman reynslu og móta sameiginlega stefnu. Ráðstefnan var haldin í Hanaholmen, menningar- og samstarfsmiðstöð rétt við Espo, skammt frá höfuðborginni Helsinki. Þar komu saman fulltrúar allra norrænu landanna – Íslands, Færeyja, Noregs, Svíþjóðar, Danmerkur og Finnlands – til að ræða málefni sem brenna á félagsfólki á þessum umbrotatímum.

Niko Simola, formaður Trade Union Pro. Ljósmynd/Axel Jón
Gestgjafi ráðstefnunnar var finnska stéttarfélagið PRO, sem tók á móti gestum af mikilli gestrisni. Móttakan endurspeglaði þann norræna anda samstöðu sem einkennir NSO, og skapaði sterkan grunn fyrir opnar og árangursríkar umræður. Frá Sameyki mætti átta manna hópur skipaður stjórnarmönnum og starfsfólki félagsins. Þátttakan skipti sköpum, því með henni tryggði Sameyki að sjónarmið íslenskra opinberra starfsmanna kæmu fram í umræðum um málefni sem snerta allt norrænt samfélag. Að vera hluti af NSO er mikilvægt fyrir Sameyki en líka Ísland. Smæð landsins og takmörkuð stærð vinnumarkaðarins getur gert það að verkum að rödd félagsfólks heyrist ekki á alþjóðavettvangi. Með þátttöku í norrænu samstarfi styrkist röddin, og reynsla annarra landa nýtist í baráttunni fyrir réttlæti, jöfnuði og öryggi.
Umræður sem móta framtíðina
Dagskrá ráðstefnunnar var fjölbreytt og speglaði breidd þeirra áskorana sem norræn samfélög standa frammi fyrir. Þau fjögur meginþemu sem urðu hvað mest áberandi á ráðstefnunni voru húsnæðismál og félagslegt öryggi, innviðaöryggi og neyðarviðbúnaður, varnarmál á óvissutímum, gervigreind og upplýsingaóreiða og lýðræðisleg áskorun í því samhengi.
Húsnæðismarkaðurinn á Norðurlöndum var í brennidepli og var nefndur sem „hin ósýnilega krísa“ sem þjóðirnar standa frammi fyrir. Niko Simola, formaður PRO, lagði út frá þeirri staðreynd að óheftar hækkanir á húsnæðisverði og húsaleigu setji þúsundir fjölskyldna í mjög erfiða stöðu, „Ef fólk hefur ekki efni á öruggu heimili, hrynur almennt félagslegt öryggi í samfélaginu,“ sagði hann. Anna Johannesson, ritari Starvsfelagsins í Færeyjum, lýsti ástandinu á húsnæðismarkaðnum þannig að þar væri allt í miklum ólestri. „Skortur á húsnæði gerir ungu fólki erfitt að sækja sér menntun og jafnvel að stofna heimili,“ sagði Anna.
Ísland á einnig í svipuðum vanda. Gunnsteinn R. Ómarsson, framkvæmdastjóri Sameykis benti á að húsnæðisverð á Íslandi hefur hækkað langt umfram launavöxt, og að ófáir opinberir starfsmenn, sérstaklega þeir tekjulægri, búa við ótryggar aðstæður. Umræður leiddu í ljós sameiginlega kröfu um að stéttarfélög taki virkan þátt í að þrýsta á stjórnvöld ríkjanna um félagslegt húsnæði og raunhæfar leiðir til að tryggja að almenningur hafi aðgang að öruggu og viðráðanlegu húsnæði.
Innviðaöryggi og samfélagsleg ábyrgð
Einn af áhugaverðari dagskrárliðum var erindi Janne Känkänen, forstjóra finnsku neyðarbirgðastofnunarinnar (NESA). Hann fjallaði um innviðaöryggi samfélaga og hvernig ríki geti tryggt stöðugleika þegar áföll skella á. Finnland hefur lengi verið í fararbroddi hvað varðar neyðarbirgðir vegna óvissunnar sem ætíð hefur ríkt við landamæri Finnlands og Rússlands. Finnar hafa búið til sérstakt kerfi sem tryggir að samfélagið geti staðið af sér kreppur – hvort sem þær stafa af heimsfaraldri, náttúruhamförum eða stríðsátökum. Känkänen lýsti hvernig Finnar unnu með Evrópusambandinu að endurskipulagningu mikilvægra fyrirtækja sem gegna lykilhlutverki í birgðahaldinu.

Janne Känkänen er forstjóri Neyðarbirgðastofnunar Finnlands. Ljósmynd/Axel Jón
Vakti þetta erindi hans upp spurningar ráðstefnugesta: Hvert er hlutverk opinberra starfsmanna í slíkum aðstæðum? Hvernig geta stéttarfélög tryggt að starfsfólk fái nægilegt öryggi, bæði starfsöryggi sem og félagslegt öryggi, þegar samfélagið stendur frammi fyrir neyðarástandi? Í umræðum komu fram hugmyndir um að NSO gæti unnið að sameiginlegri stefnu um réttindi starfsmanna á neyðartímum, til að tryggja jafnræði og öryggi um öll Norðurlönd.
Samstarf milli Eystrasaltslandanna og Norðurlandanna eflt
Mika Mickelsson, ritari hjá Norðurlandaráði og starfsmaður í Utanríkisráðuneytinu í Finnlandi sagði frá störfum Norrænu ráðherranefndarinnar. Mika sagði að störf nefndarinnar væru fjölbreytt og snérist það ekki eingöngu um störf ráðherranna heldur um samstarf og þátttöku allra, þar með talið borgaranna. Einkum þegar horft væri á hlutverk stéttarfélaganna en það samstarf við nefndina hefur mikla þýðingu og styrkir lýðræði landanna.
„Við í Finnlandi þurfum að búa okkur undir stríð og höfum verið að auka viðnámsþrótt og munum halda því áfram. Í norrænu samstarfi höfum við unnið að því að tryggja samfélagsöryggi í Finnlandi en einnig á hinum Norðurlöndunum til frambúðar. Á formennskutímanum leggur Finnland sérstaka áherslu á samfélagsöryggi,” sagði Mika

Mika Mickelsson, ritari hjá Norðurlandaráði og starfsmaður í Utanríkisráðuneytinu í Finnland. Ljósmynd/Axel Jón
„Seigla Norðurlandanna er aukin með því að efla alhliða og víðtækan viðbúnað vegna kreppuástands og blandaðra ógna sem geta skapast. Þróun seiglu og getu til að bregðast við kreppum verður að vera samræmd og taka tillit til allra stefnusviða á samræmdan hátt til að auka viðbúnað. Ríkisstjórnarsamstarf landanna í 14 ráðherranefndum veitir skilvirka umgjörð til þessarar vinnu.
Ferðafrelsi milli landanna er okkur einnig mjög mikilvægt. Við viljum njóta þessa ferðafrelsis áfram; að við getum unnið, lifað og menntað okkur óhindrað á milli landa. Þetta er mikilvægt og stöðugt er verið að vinna í að takmarka ýmsar hindranir á landamærum landanna hvað varðar frjálsa för fólks. Stafræn þjónusta yfir landamæri eins og lestur vegabréfa geta þó enn verið hindrun.“
Varnarmál Norðurlanda – sameiginleg áskorun
Ástandið í Úkraínu setti mark sitt á ráðstefnuna. Jarno Limnéll, prófessor í hernaðarfræðum og þingmaður á finnska þinginu, flutti erindi þar sem hann greindi frá hvernig árásarstríð Rússlands hefur gjörbreytt öryggisumhverfi Norðurlandanna. Hann lagði áherslu á að norrænu ríkin hefðu tekið stór skref í átt til samvinnu á sviði varnarmála, bæði innan NATO og með tvíhliða samningum. Samt sem áður væri ljóst að öryggisáskoranirnar væru fjölbreyttar, „Þær snúa ekki aðeins að hernaði heldur einnig að orkuöryggi, netöryggi og verndun lýðræðisins,“ sagði Jarno. Þá ræddi hann um hvernig stéttarfélögin geti tryggt, eða stutt, við öryggi starfsfólks í opinberri þjónustu þegar samfélagið stendur frammi fyrir álagi eða stórum krísum. Að lokum sagði hann að norræn samstaða og samvinna stéttarfélaganna styrktu getu opinberra stofnana til að bregðast við.

Jarno Limnéll, doktor í hernaðarvísindum og þingmaður fyrir NCP á finnska þinginu. „Rússar þekkja jafnvel löggjöfina okkar betur en við. Þeir finna glufur sem þeir ráðast á og við á þinginu höfum brugðist snöggt við og lokað á þá.“ Ljósmynd/Axel Jón
Upplýsingaóreiða sem vopn
Á tímum stríðs og pólitískrar óvissu hefur upplýsingaóreiða orðið eitt helsta vopn valdhafa sem vilja grafa undan lýðræði. Henrik Haapajärvi, yfirmaður alþjóðamála hjá PRO, fjallaði ítarlega um hvernig rangfærslur, áróður og skipulagðar upplýsingaárásir geta haft áhrif á traust samfélagsins. Hann benti á að upplýsingaóreiða snertir ekki aðeins stjórnmál, heldur einnig opinbera þjónustu; árásir á heilbrigðiskerfi, menntastofnanir eða velferðarkerfi geta grafið undan trú almennings á að ríkið starfi í þágu borgaranna. Með tilkomu nýrrar tækni, gervigreindarinnar, hafa upplýsingaóreiða og falsfréttir aukist stórlega á samfélagsmiðlum eins og Facebook, Instagram og TikTok. „Stéttarfélögin hafa þar lykilhlutverki að gegna – þau geta staðið vörð um áreiðanlega upplýsingamiðlun, frætt félagsfólk og almenning um réttindi sín og þannig styrkt varnir lýðræðisins,“ sagði Henrik.

Henrik Haapajärvi, yfirmaður alþjóðamála hjá Verkalýðs-félaginu PRO í Finnlandi, fjallaði um upplýsingaóreiðu á óvissutímum. Ljósmynd/Axel Jón
Sameiginleg sýn og framtíðaráherslur
Á lokadegi ráðstefnunnar voru niðurstöður hennar dregnar saman. Ljóst er að þrátt fyrir ólíkar aðstæður í hverju landi, þá eru vandamálin sameiginleg; húsnæðisvandi, öryggisáskoranir, upplýsingaóreiða og þörf á traustu félagslegu samfélagi sem byggir á réttindum og vernd. Niko Simola, formaður PRO, sagði í lokaorðum sínum að styrkur Norðurlandanna fælist í samstöðu stéttarfélaganna: „Við verðum að nýta okkur styrk samstöðunnar. Aðeins með norrænni samvinnu getum við tryggt að rödd opinberra starfsmanna heyrist – og að velferðarsamfélagið haldist sterkt,“ sagði Niko að lokum.

Ráðstefnugestir á NSO-ráðstefnunni. Ljósmynd/Axel Jón
Þátttaka Sameykis í NSO er ekki formsatriði heldur raunverulegt afl. Í gegnum þetta samstarf getur Ísland deilt reynslu sinni og fengið lærdóm frá öðrum, tekið þátt í sameiginlegum aðgerðum gagnvart stjórnvöldum og tryggt að réttindi opinberra starfsmanna séu varin á breiðum norrænum vettvangi. Þar var ráðstefnan í Helsinki áminning um að norrænt samstarf er ekki lúxus, heldur nauðsyn. Á tímum óvissu, stríðs og efnahagslegra sveiflna er samstaða opinberra starfsmanna lykillinn í að verja réttindi, styrkja lýðræðið og tryggja félagslegt öryggi.
Greinin birtist fyrst í Tímariti Sameykis 3. tbl. 2025.
Höfundur er samskiptastjóri og ritstjóri Tímarits Sameykis.