22. september 2025
Þróun og áhrif tilskipunar ESB á lágmarkslaun

Öll aðildarríki ESB hafa einhvers konar lágmarkslaunakerfi.. Mynd/Myndasafn
„Hingað til hafa ríki ESB gert afar lítið í að meta þessa hlið lágmarkslauna hvað varðar framfærslukostnaðinn. Slóvenía er eina ríkið sem tengir lágmarkslaunahækkanir við skilgreinda neyslukörfu. Rúmenía hefur samþykkt svipað fyrirkomulag, en hefur ekki enn verið hrint í framkvæmd.“
EPSU (Samband evrópskra stéttarfélaga opinberra starfsmanna í Evrópu) vakti athygli á grein um tilskipun Evrópusambandsins um lágmarkslaun á vinnumarkaði aðildarríkja sambandsins og áhrif hennar á vinnumarkaðinn í Evrópu. Greinin er unnin úr ársskýrslu Eurofound (Minimum wages in 2025: Annual review) um lágmarkslaun ríkjanna innan Evrópusambandsins fyrir árið 2025 en stofnunin gegnir því hlutverki að veita þekkingu á vinnumarkaði, bæta lífskjör og vinnuskilyrði, og styðja við þróun betri félags-, atvinnu- og vinnumarkaðsstefnu innan ESB. Greinin er eftir hagfræðinginn Christine Aumayr-Pintar sem er rannsóknastjóri á vinnumarkaði hjá Eurofound og Carlos Vacas-Soriano, doktor í vinnumarkaðshagfræði, sem unnið hefur að fræðilegum rannsóknum á sviði launamisréttis, tekjuskiptingar og lágmarkslauna á evrópskum vinnumarkaði hjá sömu stofnun. Greininni er ætlað að varpa ljósi á þróun lágmarkslauna í Evrópu.
Eftir Carlos Vacas‑Soriano og Christine Aumayr-Pintar
Lágmarkslaun hafa hækkað verulega í aðildarríkjum ESB á síðustu áratugum, sérstaklega í löndum Mið- og Austur-Evrópu. Ríkisstjórnir aðildarríkjanna hafa nú gert það að stefnu sinni að hækka lágmarkslaun á vinnumarkaði. Þannig hafa lágmarkslaun hækkað hraðar en meðallaun og því hafa miðgildi launa hækkað að sama skapi. Þessi þróun hefur orðið til vegna tilskipunar ESB um lágmarkslaun, sem nú þegar hefur áhrif á hvernig lágmarkslaun eru ákvörðuð í nokkrum aðildarríkjum sambandsins.
Öll aðildarríki ESB hafa einhvers konar lágmarkslaunakerfi. Þessi grein beinist þó að þeim 22 aðildarríkjum sem hafa ein einföld, almenn lágmarkslaun á landsvísu. Ekki er tekið tillit til fimm aðildarríkja í þessari grein; Austurríkis, Danmerkur, Ítalíu, Finnlands og Svíþjóðar, vegna þess að þar eru lágmarkslaun ákveðin í gegnum kjarasamninga milli aðila vinnumarkaðarins.
Munur lágmarkslauna meðal ríkja sem gengu í ESB eftir 2004
Mismunur á lágmarkslaunum og launum almennt innan ESB hefur minnkað verulega á undanförnum áratugum, einkum vegna mikilla launahækkana í Mið- og Austur-Evrópu (sjá mynd 1).

Mynd 1: Lágmarkslaun í janúar 2000 og 2025 og prósentubreytingar milli 2000 og 2025, aðildarríki ESB.
Athugasemdir: Aðildarríkjunum er raðað eftir launastigi í janúar 2025. Eldri gögn frá janúar 2000 voru notuð sem viðmiðunarár. (janúar 2001 fyrir Írland, janúar 2009 fyrir Króatíu, janúar 2023 fyrir Kýpur, janúar 2015 fyrir Þýskaland). Vöxtur milli janúar 2024 og 2025 er reiknaður í innlendum gjaldmiðlum.
Árið 2000 voru lágmarkslaun í Lúxemborg meira en 47 sinnum hærri en í Rúmeníu. Árið 2025 hefur munurinn milli hæstu og lægstu lágmarkslauna í Lúxemborg og Búlgaríu minnkað fimmfalt á milli þessara landa. Fyrir 25 árum voru mánaðarleg lágmarkslaun í mörgum Mið- og Austur-Evrópuríkjum, þar á meðal Rúmeníu, Búlgaríu, Lettlandi, Eistlandi og Slóvakíu, undir 100 evrum á mánuði eða rúmar 14 þúsund krónur á núverandi gengi. Í öðrum löndum eins og í Ungverjalandi, Litháen, Tékklandi og Póllandi voru mánaðarlaunin aðeins hærri, í kringum 161 evra, eða um 23 krónur. Síðan þá hafa lágmarkslaun þessara landa hækkað verulega, dregið hefur úr launamismun og í sumum tilfellum náð fram úr löndum eins og Portúgal og Grikklandi að nafnverði.
Þessi þróun nær líka yfir mun á milli þessara landa á framfærslukostnaði. Þó mismunur á verðlagi milli landa skýri að hluta launamuninn, þá sést sama þróun þegar lágmarkslaun eru mæld með kaupmáttarvísitölu. Í því tilviki hefur launamunur hæstu og lægstu launa lækkað úr meira en 20:1 árið 2000 í 2:1 árið 2025 – samanborið við 47:1 og nærri 5:1 mælt í evrum.
Þrátt fyrir samstöðu um lágmarkslaun er launamunur enn mikill
Í janúar 2025 voru mánaðarleg lágmarkslaun tæplega 2.638 evrur (rúmar 378 þúsund krónur á núverandi gengi) í Lúxemborg en aðeins 551 evra (um 79 þúsund krónur á gengi dagsins í dag) í Búlgaríu. Skýr mynd af svæðisbundnum vanda kemur upp úr kafinu þegar betur er skoðað. Hæstu launin eru í sex vestur-evrópskum löndum innan ESB; Lúxemborg, Írlandi, Hollandi, Þýskalandi, Belgíu og Frakklandi. Þar eru lágmarkslaunin 1.802 evrur eða röskar 258 þúsund krónur á mánuði. Miðgildi launa níu ríkja innihalda bæði eldri aðildarríki (sem gengu í ESB fyrir 2004) og nýrri aðildarlanda af Miðjarðarhafssvæðinu, með laun frá u.þ.b. 1.381 evru eða um 198 þúsund krónur á mánuði á Spáni, niður í 960 evrur (kr. 137.731) í Króatíu, Grikklandi og Möltu. Lægstu launin eru innan sjö aðildarríkja í Mið- og Austur-Evrópu sem gengu inn í ESB eftir 2004, þar sem lágmarkslaun eru frá 886 evrum (um 127 þúsund krónum) í Eistlandi niður í 551 evru (kr. 79 þúsund krónum) í Búlgaríu.
Þessi launamunur, sem endurspeglar almennt launastig, er ein helsta ástæða þess að vinnuafl færir sig á milli landa og staða innan ESB, sérstaklega frá ríkjum í austur- og suðurhluta Evrópu til tekjuhærri ríkja í vestri og norðri.
Breytingar á lágmarkslaunum milli janúar 2024 og 2025
Sama svæðisbundna myndin kemur í ljós þar sem hækkun lágmarkslauna er almennt meiri í löndum þar sem laun voru lág fyrir. Níu mestu nafnverðshækkanirnar áttu sér stað í Mið- og Austur-Evrópu, frá nærri 23% í Rúmeníu og allt niður í niður í 8% í Eistlandi. Í eldri aðildarríkjum ESB voru hækkunartölur almennt hóflegri en sem hér segir. Lágmarkslaun hækkuðu í öllum aðildarríkjum nema Kýpur á þessu tímabili. Þó nafnverðshækkanir hafi verið eitthvað minni en fyrri ár, þá þýddi áframhaldandi hjöðnun verðbólgu að láglaunafólk upplifði aukinn kaupmátt í flestum aðildarríkjum Evrópusambandsins.
Áhrif nýrrar tilskipunar ESB vegna lágmarkslauna
Vaxandi áhugi á lágmarkslaunum sem leiðandi stefnu innan aðildarríkja ESB hefur fengist með nýrri tilskipun Evrópusambandsins um lágmarkslaun. Tilskipunin, sem átti að innleiða í landslög aðildarríkjanna fyrir nóvember 2024, miðar meðal annars að því að tryggja að aðildarríkin setji ramma utan um ákvörðun sem gerir lögbundin lágmarkslaun „fullnægjandi“. Það þýðir að með lágmarkslaunum sé nauðsynlegt að tryggja viðunandi starfs- og lífskjör, sem og að byggja upp sanngjarnt hagkerfi og samfélag, eins og fram kemur í Evrópsku reglugerðinni um félagsleg réttindi.
Þó ríkisstjórnir aðildarlandanna ráði enn lágmarkslaunum á vinnumarkaði, þá styrkir tilskipunin ferlið með því að krefjast reglulegrar endurskoðunar, skýrra viðmiða, aðkomu samráðsaðila og aðila vinnumarkaðarins. Hún krefst þess einnig að ríki velji „leiðbeinandi viðmiðunargildi“ við mat á hæfni lágmarkslauna, með dæmum um 60% af brúttómiðgildi eða 50% af brúttómeðaltali launa.
Aukin áhrif á ákvörðu lagalegra lágmarkslauna
Á árinu 2025 hafa fleiri aðildarríki farið að nota þessi viðmið þegar hækkun lágmarkslauna er ákveðin. Flest þeirra nota meðaltal launa fremur en miðgildi og mörg beita 50% viðmiðinu eða því sem því nemur. Jafnvel áður en tilskipunin kom til framkvæmda hækkuðu lágmarkslaun hraðar en meðallaun og miðgildi launa í flestum aðildarríkjunum. Þessi þróun mun líklega halda áfram þar sem flest ríki hafa enn ekki náð settum viðmiðunargildum tilskipunarinnar. Eftir því sem fleiri aðildarríki nálgast þessi viðmið verða lágmarkslaun sanngjarnari miðað við laun vinnandi fólks almennt og uppfylla þannig eitt meginsjónarmið um sanngirni samkvæmt tilskipuninni.
Hitt sjónarmiðið, hvort lágmarkslaun dugi til mannsæmandi lífskjara, er minna þróað í framkvæmd til að verða að tilskipun. Það veltur ekki aðeins á launaupphæð heldur einnig á framfærslukostnaði og öðrum þáttum eins og fjölskyldusamsetningu, tekjum annars heimilisfólks og skatta- og bótakerfum. Hingað til hafa ríki ESB gert afar lítið í að meta þessa hlið lágmarkslauna hvað varðar framfærslukostnaðinn. Slóvenía er eina ríkið sem tengir lágmarkslaunahækkanir við skilgreinda neyslukörfu. Rúmenía hefur samþykkt svipað fyrirkomulag, en hefur ekki enn hrint því í framkvæmd.
Innleiðing og næstu skref
Þrátt fyrir að innleiðingarfresturinn hafi runnið út hafa sum aðildarríki ekki enn að fullu innleitt tilskipunina. Þar sem breytingar hafa verið gerðar hafa þær oftast verið smávægilegar frekar en róttæk endurskoðun á launakerfunum. Í flestum tilvikum hafa ríki einfaldlega fellt orðalag tilskipunarinnar beint inn í landslög við hlið eldri viðmiða. Á sama hátt hafa samráðsaðilar vinnumarkaðarins oftast fengið hlutverk þegar teknar eru ákvarðanir um lagasetningar fyrir vinnumarkaðinn.
Þó þessar breytingar virðist smáar „á pappírnum“ verður forvitnilegt að fylgjast með raunverulegum áhrifum þeirra á komandi árum. Til dæmis: Þegar ríki ná viðmiðunargildunum, verða launahækkanir í framtíðinni hóflegri og í takti við meðallaun til að halda launahlutföllum og kaupmætti stöðugum? Eða verða viðmiðin sjálf hækkuð?
Þá er mikilvægt úrlausnarefni væntanlegur dómur Evrópudómstólsins um sjálfa tilskipunina. Úrskurðurinn sem er væntanlegur síðar á þessu ári snýr að kröfu Danmerkur um að tilskipunin verði felld niður að hluta eða í heild sinni. Það gæti haft mikil áhrif á stefnu ESB um lágmarkslaun – sérstaklega á tímum þegar samkeppnishæfni er sífellt ofar á baugi í stefnumótun fyrir vinnumarkaðinn innan Evrópusambandsins.
Greinin birtist fyrst í Tímariti Sameykis 3. tbl. 2025.
Höfundar starfa hjá Eurofound.